Nei, nei, nei, ég meina tónlistarkona,“ hljóðaði Doddi og bjargaði sér þannig fyrir málhorn áður en ráðunauturinn barði hann langleiðina inn í næstu viku.

Pistill

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Konur hafa unnið marga góða sigra á umliðnum árum og áratugum í baráttu sinni fyrir auknu réttlæti og jöfnuði í þessu samfélagi. Er það vel. Einu stríði virðast konur þó vera að tapa. Því miður. Þær fá ekki lengur að vera menn.

Rammast kveður að þessu í Ríkisútvarpinu en málfarsráðunautur stofnunarinnar, sem ég veit ekki hvort er karl eða kona, er greinilega í heilagri krossferð gegn konum að þessu leyti, samanber kjörið á „manneskju“ ársins og aðra slíka steypu. Manneskja þýðir auðvitað nákvæmlega það sama og maður. Þar á bæ er harðbannað að tala um konur og karla, heldur bara konur og menn. Það er konur, konur og karla. Nú veit ég ekki hvort ráðunauturinn er með vönd á lofti daginn út og inn þarna í Efstaleitinu en í öllu falli fór aumingja Doddi litli í fósturstellinguna í vikunni þegar honum varð á sú dauðasynd að kalla konu tónlistarmann. „Nei, nei, nei, ég meina tónlistarkona,“ hljóðaði Doddi og bjargaði sér þannig fyrir málhorn áður en ráðunauturinn barði hann langleiðina inn í næstu viku.

Vandinn er víðar. Þannig leiðrétti Bragi Ólafsson rithöfundur, sem kann sitthvað fyrir sér í íslensku, sig í samtali við Kiljuna fyrir jólin. Hann var að tala um nýjustu bók sína, þar sem knattspyrna mun vera í brennidepli. Og þá einkum knattspyrna kvenna. Bragi missti þá út úr sér óyrðið leikmaður en breytti því snarlega í „leikkona“. Erum við þá ekki komin yfir í einhverja aðra listgrein?

En hvaðan kemur þessi meinloka og della? Ég get mér þess til að þetta séu enn ein hvimleiðu áhrifin úr ensku. Þar á orðið „man“ nefnilega aðeins við um karl en ekki konu. Man og woman eru þá maður og kona.

Íslenskan býr að sjálfsögðu líka að orðinu „man“ sem merkir ófrjáls, ánauðugur maður eða ambátt. En líka mær, svo vitnað sé í Árna Bö. En núna erum við líklega komin út fyrir efnið.

Kannski höfum við karlar verið of frekir á orðið maður gegnum tíðina, sölsað það undir okkur eins og svo margt annað. Orðið „eiginmaður“ er til dæmis öllum tamara en „eiginkarl“. Þess heldur þarf að halda þessu stríði áfram, ekki satt?

Okkar besti maður, Vigdís Finnbogadóttir, hefur oft verið dregin inn í þessa umræðu og ef marka má bakslagið sem komið er í þá sjálfsögðu réttindabaráttu kvenna að fá áfram að vera menn þá er það aldrei of oft gert. Þegar hún var spurð að því í kosningabaráttunni 1980 hvort kjósa ætti hana í embætti forseta Íslands vegna þess að hún væri kona þá féllu þessi fleygu ummæli: „Það á ekki að kjósa mig af því að ég er kona, það á að kjósa mig af því að ég er maður!“