Iain stillti sér upp á mynd með leikstjóra Napóleonsskjalanna, Óskari Þór Axelssyni, sem sést fyrir miðju, og aðalleikurum myndarinnar, þeim Atla Óskari Fjalarssyni, Vivian Ólafsdóttur, Adesuwa Oni og Jack Fox.
Iain stillti sér upp á mynd með leikstjóra Napóleonsskjalanna, Óskari Þór Axelssyni, sem sést fyrir miðju, og aðalleikurum myndarinnar, þeim Atla Óskari Fjalarssyni, Vivian Ólafsdóttur, Adesuwa Oni og Jack Fox. — Ljósmynd/Juliette Rowland
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég fór aðeins með nokkrar línur en fann strax að mér leið vel á sviði og elskaði þá tilfinningu að vera staddur í senu og fá að leika í henni. Ég fékk góða gagnrýni og stelpa sem ég var skotin í sagðist ekki hafa getað hætt að horfa á mig.

Fyrir einlægan aðdáanda epísku þáttaraðarinnar Game of Thrones var ekki laust við smá fiðring í maga þegar blaðamaður sló á þráðinn til hins heimsþekkta skoska leikara, Iain Glen, sem lék Ser Jorah Mormont í fyrrnefndri seríu. Var persóna hans ein af fáum sem lifðu af fram í lokin, en eins og margir muna fuku þar hausar hægri vinstri og margir leikarar því sendir til síns heima.

Glen er staddur á hótelherbergi einhvers staðar í Suður-Afríku þar sem hann er nú í tökum. Við fundum stund milli stríða til að spjalla í myndsímtali yfir hálfan heiminn og ræddum um heima og geima; um langan ferilinn, um Game of Thrones-ævintýrið og um leik hans í íslensku kvikmyndinni Napóleonsskjölunum sem frumsýnd verður hér á landi næstkomandi föstudag. Enga stjörnustæla var að finna hjá þessum indæla manni, heldur þvert á móti. Glen hallaði sér aftur í sætinu, órakaður í rauðum stuttermabol, og það kjaftaði af honum hver tuska. Og afríska sólin skein inn um gluggann.

Ísland er í uppáhaldi

Hvað ertu að gera í Suður-Afríku?

„Ég er hér að leika í annarri seríu af krimmaþáttunum Reyka sem eru búnir til eftir afar vel skrifuðu handriti Rohan Dickson,“ segir hann og bætir við að þættirnir séu suðurafrísk framleiðsla.

„Ég er eini aþjóðlegi leikarinn en ég leik bananabónda sem hafði rænt stúlku sem nú er orðin fullorðin rannsóknarlögreglukona. Þetta er svona „Silence of the lambs“-karakter. Ég nýt þess mjög að leika í þáttunum sem hafa hlotið mikið lof og unnið til ýmissa verðlauna.“

Vinnan þín leiðir þig augljóslega víða um heim. Áttu þér uppáhaldsland?

„Ísland!” segir Glen hátt og snjallt og blaðamaður segir það klárlega vera rétta svarið.

Glen segist vel kunna að meta þau forréttindi að fá að ferðast og sjá heiminn í gegnum vinnuna.

„Ég elska það, þó það sé erfiðara þegar maður á börn, en ég á þrjú. En ég næ að skipuleggja mig þannig að ég er ekki allt of lengi í burtu frá fjölskyldunni og oft kemur hún að heimsækja mig þar sem ég er að vinna,“ segir hann.

„Það opnar augu manns að ferðast en ég sé oft löndin á annan hátt heldur en ferðamaður þar sem ég vinn með heimamönnum og dvel oft töluverðan tíma á stöðunum. Ég hef verið mjög heppinn. Og ef ég tala um uppáhaldsstaði, er Ísland klárlega á listanum. Ég hef unnið þar fimm sinnum; í fyrsta sinn var ég þar að vinna að myndinni Tomb Raider með Angelinu Jolie og Daniel Craig fyrir mörgum árum. Við hentumst um allt á jöklum og lónum. Svo fór ég þangað nokkrum sinnum í tökur á Game of Thrones og einnig hef ég leikið þar í fleiri kvikmyndum, meðal annars Napóleonsskjölunum.“

Lentum í óveðrinu mikla

Í desember síðastliðnum hugðist Glen eiga hér á landi nokkurra daga vetrarfrí, en það fór öðruvísi en lagt var upp með. Áður en hann lýsir svaðilförinni, talar hann um hvað það sé við Ísland sem heilli sig.

„Landslagið á Íslandi er afar frábrugðið öllu öðru. Landið er svo fallegt; mikil auðn og þessi ótrúlega birta. Þegar ég er þarna finnst mér ég vera einn með náttúrunni. Manni finnst landið vera svo ósnortið af ágangi manna. Ég fer ekki eingöngu til Íslands vegna vinnu, heldur líka í frí, en ég var einmitt staddur þarna rétt fyrir jólin, ég og kona mín og tvö yngstu börnin mín. Við lentum í óveðrinu mikla sem varði í fjóra daga og lentum í svakalegu roki. Við ætluðum að vera þarna í þrjá nætur með það fyrir augum að gista nokkrar nætur á gististaðnum Torfhúsi sem er við Gullna hringinn, með stoppi í Bláa lóninu. Það sem gerðist fyrst var að við urðum veðurteppt í Bláa lóninu í tólf tíma. Við enduðum í Reykjavík klukkan þrjú um nóttina og þaðan drifum við okkur í Torfhús. Þar gerðum við bókstaflega ekkert því allir vegir voru lokaðir. Við fórum ekki á hestbak, ekki að synda í hellum, ekki á snjósleða á jöklum; við gerðum ekkert! Vorum bara föst inni og það þurfti meira að segja að ferja okkur á milli húsa þrisvar á dag til að komast í matinn,“ segir hann og brosir.

„Þetta var mjög dramatískt og í raun var ferðalagið ónýtt að mörgu leyti, en það er eitthvað stórkostlegt við það að vera á valdi náttúrunnar. Það minnir okkur mannfólkið á að við getum ekki stjórnað öllu, ef maður hugsar þetta heimspekilega. Ísland býr yfir þessu valdi,“ segir hann og segist ekki munu láta þessa reynslu aftra sér frá frekari Íslandsheimsóknum.

Datt óvart inn í leiklist

Glen er skoskur, fæddur og uppalinn í Edinborg, en býr nú í London. Hann segir margt líkt með Skotum og Íslendingum.

„Skotarnir eru tilfinningasamir en halda því fyrir sig. Við höfum alltaf verið eins konar yngri systkini Englands; fátækari nágranninn. Við erum miklir ferðalangar og ég held að við séum ekkert ólík ykkur Íslendingum. Mér hefur fundist Íslendingar sem ég hef kynnst vera í einhvers konar ástar-haturssambandi við landið sitt. Þeir elska að vera frá litlu, fámennu og fjarlægu landi og það er eitthvað dásamlegt og einstakt við það, en undir niðri er dekkri hlið þar sem þeim finnst þeir vera fjötraðir og vilja losna. Það endurspeglast svo í landslaginu og birtunni,“ segir hann og segir að ef til vill mætti heimfæra þessa lýsingu á Skota. Kannski hefur veðrið eitthvað að segja hvað varðar skapgerð þjóðanna.

„Þið eruð ansi seig og sterk og hafið gott skopskyn líkt og við.“

Tilviljun réð því að Glen lagði fyrir sig leiklistina, sem hann segist hafa dottið inn í nánast fyrir tilviljun.

„Ég var í gamaldags skóla og okkur var ekki ýtt í átt að listum heldur frekar að lögfræði eða læknisfræði. En ég var ekki sérlega góður námsmaður og alls ekki á þann hátt sem skólinn vildi hafa mig. Ég fór svo í háskóla að læra ensku, og rétt svo komst þar inn. Þar átti ég vin sem var í leiklistarsenunni,“ segir Glen og segist í gegnum hann hafa endað á sviði; í litlu hlutverki í verki eftir Arthur Miller.

„Ég fór aðeins með nokkrar línur en fann strax að mér leið vel á sviði og elskaði þá tilfinningu að vera staddur í senu og fá að leika í henni. Ég fékk góða gagnrýni og stelpa sem ég var skotin í sagðist ekki hafa getað hætt að horfa á mig,“ segir hann og brosir.

„Frá þeirri stundu var ég heltekinn,“ segir hann og segist hafa sökkt sér ofan í leiklistina.

„Ég las hundruð leikrita og komst enn meira inn í leiklistarsenuna í háskólanum. Á þessum tveimur árum sem ég var í Aberdeem-háskólanum endaði ég í fullt af leikritum sem fóru á Edinborgarleiklistarhátíð,“ segir Glen og segist hafa tekið afdrifaríka ákvörðun þar dag einn þegar valið stóð á milli þess að sinna náminu eða að leika í leikriti.

„Ég valdi leikritið þetta kvöld og þar með tók ég þá ákvörðun að fara ekki aftur í háskólann, jafnvel þótt ég væri ekki með neitt annað plan. En ég var svo heppinn að fá umboðsmann vegna hlutverka minna í Skotlandi og tók svo inntökupróf í The Royal Academy for the Dramatic Art í London og fyrir kraftaverk komst ég inn,“ segir Glen.

„Þetta gekk allt ótrúlega smurt fyrir sig fyrir manneskju sem í raun datt óvart inn í leiklist. Ég tel mig mjög heppinn,“ segir Glen, en hann átti nýlega fjörutíu ára útskriftarafmæli úr leiklistarskólanum.

Að fá börnin mín til að hlæja

Leiksviðið heillaði Glen og lék hann lengi vel á sviði en tækifærin í sjónvarpi voru einnig fjölmörg.

„Ég man að ég fékk hlutverk í krimmaseríunni The Fear árið 1988 og þurfti þá að leika glæpamann í Norður-London og þurfti því að æfa hreiminn sem þar ríkir. Þetta var frábært hlutverk og þarna kynntist ég fyrri konunni minni. Þetta breytti kannski kúrsi ferils míns,“ segir Glen og nefnir einnig að hann hafi leikið á móti Nicole Kidman í leikritinu The Blue Room árið 1998 sem hafi stuðlað að frekari velgengni hans, en verkið endaði á Broadway.

„Ef ég myndi velja eitt af mínum fimm, sex uppáhaldsleikhúsupplifunum er The Blue Room þar á listanum,“ segir hann en í verkinu leika þau Kidman hvort um sig fimm hlutverk.

„Þetta verk var algjörlega sniðið fyrir leikara til að sýna hvað í þeim býr. Og þetta var rosalega skemmtilegt. Nicole var stórkostleg í verkinu og ég á þaðan margar góðar minningar,“ segir Glen, en hann hefur leikið á móti fleiri stórleikkonum á borð við Angelinu Jolie, Sigourney Weaver og Glenn Glose svo einhverjar séu nefndar.

„Það var yndislegt að vinna með þeim öllum. Ég er heppinn maður.“

Þú virðist hafa leikið í fleiri drama- en gamanhlutverkum. Hvað veldur?

„Já, það er rétt, en ég hef tekið að mér einstaka gamanhlutverk. Ég var einmitt í fyrra í Ástralíu að leika í myndinni The Last Days of the Space Age og lék þar útúrskakkan brimbrettagaur,“ segir hann kíminn og segist fagna því ef hann fær gamanhlutverk.

„Börnin mín spyrja oft að þessu sama, en ég eyði ævinni í að fá þau til að hlæja, og það skiptir miklu meira máli,“ segir hann.

„Ég er heppinn að því leyti að ég hef ekki fest í ákveðnum karakterum eins og er frekar algengt hér í stéttskiptu Englandi.“

Varð stærra og stærra

Þættirnir Game of Thrones slógu öll áhorfsmet þegar þeir voru sýndir á árunum 2011-2019 og er talað um þáttinn sem vinsælasta sjónvarpsþátt sögunnar. Iain Glen leikur þar stórt hlutverk og fékk persónan hans, Ser Jorah Mormont, að lifa í gegnum allar seríurnar. Glen segir að í upphafi hafi þau ekkert vitað hvernig þetta ævintýri myndi fara, enda leist þeim rétt svo mátulega á allra fyrsta þáttinn, svokallaðan „pilot“-þátt.

„Upphaflegi „pilot“ var ansi lélegur. Við fengum handrit upp á sextíu blaðsíður og höfðum á tilfinningunni að þetta yrði ekki gott. En svo tóku þeir aftur upp næstum hverja einustu senu, þannig að augljóslega var eitthvað sem ekki gekk upp,“ segir hann, en þrátt fyrir þessa brokkgengu byrjun átti þátturinn eftir að slá í gegn svo um munar.

„Tíu árum frá seinna, frá þessum fyrsta „pilot“, var ég staddur í Los Angeles á frumsýningu lokaseríunnar. Handritshöfundarnir buðu þá okkur nokkrum sem höfðum leikið í þessum allra fyrsta þætti að koma á hótelhergið þeirra að horfa á þáttinn áður en honum var breytt,“ segir hann, en þessi upprunalegi þáttur mun aldrei koma fyrir sjónir almennings.

„Hann var ansi slæmur. Það var mikið um lélegar hárkollur og skrítnar raddir. Allt var einhvern veginn of hreint og það var eitthvað sem bara gekk alls ekki upp,“ útskýrir Glen.

„Í þættinum var einmitt brúðkaupssena Daenerys og Drogo sem var tekin upp í myrkri, eins og gerist í bókinni. En þeir hjá HBO sögðu: „Við sjáum ekki rassgat! Þið hefðuð alveg eins getað tekið þetta upp á bílaplani, það sést ekki neitt!“ Þannig að sú sena var tekin upp aftur að degi til, á Möltu,“ segir Glen og segir að framleiðendur hjá HBO hafi haft vit á því að segja hvað þeir vildu ekki.

„Fyrsta serían gekk ágætlega, og nógu vel til þess að við gætum farið að gera seríu tvö, en við vorum öll að vonast eftir því. Áður en við vissum af vorum við í seríu þrjú og fjögur og þá vissum við að við værum á góðri siglingu. Þetta varð stærra og stærra og betra og betra,“ segir Glen og segir þættina hafa verið tekna upp á Írlandi og víðar í Evrópu, þar á meðal á Íslandi.

Fékk að lifa af

Þú varst einn af þeim heppnu sem ekki voru drepnir óvænt snemma í þáttunum!

„Akkúrat! Ég var mjög heppinn að fá að vera einn af þeim tólf, þrettán persónum sem lifðu í gegnum allar seríurnar. Maður hélt niðri í sér andanum í hvert sinn sem maður fékk handritið í hendurnar. Dan og David, skaparar Game of Thrones, hringdu í leikara svona fyrir kuteisissakir ef átti að drepa þeirra persónu í næsta þætti og létu vita. En þeir voru stundum kvikindislegir og hringdu til að hræða fólk, svona í gríni,“ segir Glen og leikur dæmigert símtal: „Hæ Iain, þetta er Dan, hvað segirðu þá ?“ Ég alveg: „Af hverju ertu að hringja?“ „Sko, ég þarf að segja þér nokkuð.“ Þögn kom í símann og svo: „Þú lifir af!“ leikur Glen með tilþrifum og skellihlær.

„Við elskuðum öll að leika í þessu, enda vorum við í vinsælasta þætti sögunnar. Þetta voru góðir tímar,“ segir Glen og segir aðdáendur hafa sýnt leikurunum mikinn áhuga.

„Aðdáendur eltu okkur gjarnan, sérstaklega á Spáni,“ segir hann og virðist ekki hafa látið það fara í taugarnar á sér.

„Okkur kom öllum ofsalega mjög vel saman, þrátt fyrir að aldursbilið væri breitt í leikarahópnum. Mikilvægasta samband mitt var að sjálfsögðu við Emiliu sem ég elska út af lífinu og er yndisleg kona,“ segir hann, en Emilia Clarke leikur eitt aðalhlutverkið, persónuna Daenerys Targaryen.

„Henni var hent í djúpu laugina og hún var stressuð. Ég vildi taka hana undir minn verndarvæng.“

Nú er Ser Jorah Mormont einn af þeim góðu. Hvort er meiri áskorun, að leika góða gæjann eða illmennið?

„Það fer eftir því hvernig persónan er skrifuð. Ég held að það sé að mörgu leyti auðveldara að skapa vonda kallinn, því sá góði á það til að vera of einsleitur,“ segir Glen og segir handritshöfunda þurfa sífellt að finna nýjar hliðar á persónum og láta þær þróast með tímanum í gegnum langar seríur á borð við Game of Thrones.

Dóttirin fékk að kalla „action!“

Ég býst við að ýmislegt hafi gerst á öllum þessum árum sem þú varst í Game of Thrones. Hvað stendur upp úr?

„Guð minn góður, ég á svo margar frábærar og skemmtilegar minningar og margar þeirra snúast um þegar leikarnir voru að skemmta sér saman eftir tökurnar. Þarna voru nokkrir gítarleikarar sem spiluðu fyrir hina, ég þar á meðal, og við héldum alls konar partí,“ segir hann og brosir.

„En hvað varðar tökurnar man ég vel eftir erfiðu tökunum þegar Ser Jorah var að berjast við fullt af bardagamönnum í hringleikahúsi til að sanna sig fyrir drottningu sinni. Ég hafði verið í stífum æfingum í marga mánuði fyrir þessa bardaga,“ segir hann og segir fjölskyldu sína hafa komið til Osuna á Spáni til að fylgjast með tökum.

„Eldri dóttir mín var þá um sjö, átta ára. Leikstjórinn, David Nutter, sem var einn af vinsælustu leikstjórunum á Game of Thrones, leyfði henni að fara í búning eins og ég var í. Það voru máluð á hana ör og sett á hana gerviblóð og þannig horfði hún á pabba sinn í þessum bardagasenum. Nutter leyfði henni svo að kalla í hátalarann: „Action“,“ segir Glen og leikur það með skærri barnsrödd.

„Hún horfir svo á pabba sinn drepa allt þetta fólk og kallar svo: „Cut“,“ segir hann og hlær.

„Þetta lýsir vel þessari góðu Game of Thrones-fjölskyldu, að þrátt fyrir annríki, var henni sinnt svona vel.“

Til í fleiri hlutverk á Íslandi

Við vendum kvæði okkar í kross og ræðum nýju íslensku kvikmyndina Napóleonsskjölin, byggða á samnefndri bók Arnaldar Indriðasonar, en á ensku heitir myndin Operation Napoleon.

Hvernig vildi það til að þú varst fenginn í hlutverk í myndinni?

„Ég er í tengslum við nokkra sem koma að myndinni. Marteinn Þórisson, handritshöfundurinn, skrifaði einnig einkaspæjaraþættina Jack Taylor, um írskan spæjara sem ég lék lengi vel og hafði gaman af,“ segir hann og segist einnig hafa þekkt framleiðandann Ralph Christians sem hann segir hafa ráðið sig í ýmis verkefni í gegnum árin.

„Ralph sendi mér handritið og bað mig um að íhuga hvort ég vildi hlutverkið. Mér leist vel á þetta og kynnti mér leikstjórann og fannst hann mjög góður,“ segir hann, en þess má geta að Óskar Þór Axelsson leikstýrir.

„Mér líkaði vel „bragðið“ af þessu. Þetta er svolítið hefðbundið plott, eins og plottin voru í gamla daga, og það er farið með okkur á staði sem maður býst ekki við. Í myndinni eru Ameríkanarnir vondu kallarnir og ég leik þar einn slíkan, en ég hef einmitt leikið mikið Ameríkana síðustu árin,“ segir hann.

„Ég las líka bókina og finnst handritið vel unnið upp úr henni. Flugvél hverfur og finnst löngu síðar, en um borð er mjög dýrmætur farmur og þar liggur ráðgátan,“ segir hann og segir barist um að koma farminum úr landi.

„Við vorum í tökum uppi á jökli, en íslenska teymið var frábært og gaman að fá tækifæri til að koma á staði sem maður hefði annars ekki komið á,“ segir hann og segir reynsluna hafa verið frábæra.

„Vivian (Ólafsdóttir) leikur frábærlega í myndinni og hún er dásamleg leikkona og mun hljóta lof fyrir. Ólafur Darri er skemmtilegur og mjög sérstakur, en þetta er í fyrsta sinn sem ég vinn með honum. Sagan er góð og allir leikarar voru góðir og mér fannst allt gert rétt og ekki reynt að gera myndina of alþjóðlega,“ segir hann og segist því miður ekki geta komið á íslensku frumsýninguna því hann er sem fyrr segir í Suður-Afríku.

Heldurðu að þú munir leika í fleiri íslenskum kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum?

„Ef ég fæ tilboð myndi ég gjarnan vilja það.“

Sáum glitta í norðurljós

Við förum að slá botninn í samtalið en blaðamaður forvitnast að lokum hvort Glen hafi rekist á ljón þarna í Afríku.

„Já! Ég er hér í rúmar fjórar vikur í tökum en fékk nokkurra daga frí og þá fengum við að fara í safarí. Það var stórkostlegt og ég sá ljón, fíla, gíraffa, hlébarða og nashyrninga,“ segir hann og segir upplifunina einstaka.

„Þegar maður horfir á villtu dýrin í sínu rétta umhverfi fer maður ósjálfrátt að hugsa um plánetuna og eyðilegginguna af mannavöldum. Það er sama tilfinning sem maður fær á Íslandi; maður fer að hugsa um hvað við þurfum að gera til að breyta okkar venjum til að vernda jörðina okkar,“ segir Glen hugsi.

Ljóst er að við getum nú bætt Glen í hóp frægra Íslandsvina.

Svo skuldar þú fjölskyldunni aðra ferð til Íslands fyrst hin fór ekki eins og planað var!

„Nákvæmlega! Eina sem bjargaði smávegis þeirri ferð var að við sáum glitta í norðurljós. Við þurftum reyndar að standa í hávaðaroki og kulda og rýna upp í hálfskýjaðan himininn,“ segir hann kíminn.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir