Fimm eru ákærðir vegna hópslyssins sem varð er hoppukastali tókst á loft á Akureyri sumarið 2021. Eru einstaklingarnir ákærðir fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi. Forseti bæjarstjórnar á Akureyri er á meðal sakborninga. Frá þessu greindi Ríkisútvarpið í gærkvöldi en Heimir Örn Árnason forseti bæjarstjórnar vildi ekki tjá sig við mbl.is vegna málsins.
Slysið sem um ræðir átti sér stað 1. júlí árið 2021. Hoppukastalinn Skrímslið stóð við Skautahöllina á Akureyri er hann fauk í loft upp nokkra metra frá jörðu með 108 börn innanborðs. Tíu börn slösuðust, þar á meðal sex ára stelpa sem hlaut alvarlega áverka. Hún mun glíma við hreyfihömlun alla ævi og málerfiðleika vegna slyssins.
Saksóknari höfðar málið vegna meiðsla fjögurra barna. Tveggja sem handleggsbrotnuðu, eins sem braut herðablað og eins sem hlaut alvarlega áverka. Rannsókn á slysinu leiddi í ljós að hoppukastalinn hafði ekki verið nógu vel festur við jörðu. Samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins báru ákærðu með einum eða öðrum hætti ábyrgð á öryggi barnanna.