Ragnar Axelsson tók þessa mynd eftir að snjóflóðið féll á Flateyri.
Ragnar Axelsson tók þessa mynd eftir að snjóflóðið féll á Flateyri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er stórkostleg hætta á því að Ísland geti framvegis ekki skráð sögu sína í myndum. Yifrvöld skilja ekki lengur mikilvægi þess. Ef gjósa myndi í Vestmannaeyjum í dag yrðu mögulega engar fréttamyndir teknar vegna þess að okkur yrði ekki hleypt að gosstöðvunum. Það vantar alla heilbrigða skynsemi,“ segir Ragnar Axelsson blaðaljósmyndari til áratuga.

Það er stórkostleg hætta á því að Ísland geti framvegis ekki skráð sögu sína í myndum. Yifrvöld skilja ekki lengur mikilvægi þess. Ef gjósa myndi í Vestmannaeyjum í dag yrðu mögulega engar fréttamyndir teknar vegna þess að okkur yrði ekki hleypt að gosstöðvunum. Það vantar alla heilbrigða skynsemi,“ segir Ragnar Axelsson blaðaljósmyndari til áratuga.

Páll Stefánsson, kollegi hans, tekur upp þráðinn: „Árið 1973 lenti flugvél full af fréttamönnum í Eyjum klukkutíma eftir að gosið byrjaði, 100 metra frá gígnum. Það myndi aldrei gerast í dag.“

Gunnar V. Andrésson ljósmyndari var í þessum hópi sem lenti í Eyjum fyrir hálfri öld. „Við vorum vissulega beðin um að fara okkur ekki að voða og gert að vera með hjálm og gasgrímu. Að öðru leyti hafði ekki nokkur maður afskipti af mér á staðnum enda var ég ekki fyrir neinum.“

Einar Falur Ingólfsson, ljósmyndari og fyrrverandi myndstjóri Morgunblaðsins, lærði sína list, eins og Ragnar, við fótskör Ólafs K. Magnússonar, helsta fréttaljósmyndara landsins fyrr á tíð. „Óli sagði alltaf að það væri frumskylda okkar að skrá söguna. Takið fyrst yfirlitsmyndina til að setja atburðinn í samhengi, sagði hann, áður en þið farið í smáatriðin. Ég hef rosalegar áhyggjur af þessari þróun; búið er að leggja fyrir okkur allskyns tálma og hindranir. Nærtækasta dæmið er frá Keflavíkurflugvelli á síðasta ári, þar sem fjölmiðlum var beinlínis bannaður aðgangur þegar flóttafólk var flutt úr landi. Þetta er auðvitað ótækt.“

Einar Falur bjó um tíma og starfaði í New York og þegar eitthvað fréttnæmt átti sér stað þar um slóðir og takmarka þurfti aðgang almennings þá var um leið farið í innri og ytri lokanir. Með öðrum orðum séð til þess að fjölmiðlar kæmust að til að gegna sínum skyldum og flytja fólki fréttir af vettvangi, frá fyrstu hendi. „Blaðamannapassi á að veita mönnum aðgang.“

Bara heimamenn fara í gegn

Reynslusögurnar eru margar. Þegar Páll hugðist mynda eldgosið í Holuhrauni 2014 var hann stöðvaður af starfsmanni Umhverfisstofnunar sem var, að eigin sögn, að passa svæðið. „Hann rak mig í burtu af því að ég var að aka utan vegar. Ég hef myndað öll eldgos á Íslandi undanfarin 40 ár og bý að mikilli reynslu og sá hraunrennslið vel. Það er full ástæða til að treysta okkur við þessar aðstæður enda setjum við alltaf öryggið á oddinn. Slóðinn var auðvitað farinn undir hraun sólarhring síðar.“

Aðgengi Páls að gosinu við Fagradalsfjall 2021 var líka heft í byrjun, þegar Almannavarnir gáfu fyrirskipun um að enginn færi inn á svæðið vegna þess að það gæti skapað hættu. Menn vissu ekki hvernig gosið myndi þróast.

Þegar Páll ætlaði að mynda gosið í Eyjafjallajökli 2010 var hann stöðvaður enda fengju bara heimamenn að fara í gegn. „Ég var hins vegar svo heppinn að foreldrar mínir eiga jörð í Fljótshlíðinni og þess vegna slapp ég í gegn.“

Ragnar rifjar upp komu þýska ljósmyndarans fræga Carstens Peters til Íslands en hann hugðist mynda gosið í Holuhrauni fyrir National Geographic. „Hann er búinn að mynda eldgos um allan heim og hefur jafnvel sofið á eldfjalli, hann er svo ástríðufullur. Hér var hann hins vegar stöðvaður á leið að gosstöðvunum og hætti við allt saman. Kvaðst aldrei hafa kynnst öðru eins. Er þetta ekki ömurlegt? Grein hans hefði orðið mikil landkynning.“

Einar Falur segir grundvallarmun á fagmanni og viðurkenndum skrásetjara annars vegar og venjulegum ferðamanni hins vegar. Það verði yfirvöld að skilja. „Kerfið verður að treysta okkur enda erum við að tala um menn með gríðarlega reynslu. Hér við borðið eru menn með meira en 40 og meira en 50 ára reynslu af vettvangi svona atburða.“

Einar Falur segir fyrst hafa borið á þessum hindrunum í snjóflóðinu í Súðavík 1995. Þar hafi sýslumaður upp á sitt eindæmi tekið ákvörðun um að leyfa fréttaljósmyndurum ekki að taka myndir á vettvangi meðan leitað var að fólki sem var saknað. Ragnar náði á hinn bóginn að setja filmu í vél eins björgunarsveitarmannsins sem síðan birtist á baksíðu Morgunblaðsins. „Hugsaðu þér, hefði hann ekki gert það þá væri engin mynd til af þessum stórviðburði. Þessi mynd hefur verið notuð víða síðan,“ segir Einar Falur.

Gunnar segir sýslumann hafa borið því við að hann vildi ekki að björgunarsveitarmenn yrðu truflaðir við leit sína. „Það er alveg skiljanlegt en ekki þarf að óttast það frá hendi fagmanna með víðtæka reynslu af allskonar hamförum,“ segir Gunnar og Ragnar bætir við: „Björgunarsveitarmenn voru að leita en hlutverk okkar var allt annað, meðal annars að sýna hetjudáð þeirra sjálfra.“

Páll segir það nöturlega staðreynd að snjóflóðin hafi ekki verið skrásett sem skyldi. „Það verður ekki aftur tekið.“

Fjölmiðlar funduðu stíft með Almannavörnum eftir þetta en eigi að síður var aðgengi engan veginn nógu gott í snjóflóðinu á Flateyri um haustið, að dómi Einars Fals. Ragnar segir sýslumann þó hafa greitt götu fréttamanna betur þar en í Súðavík. „Síðan hefur þetta bara versnað og versnað,“ segir Einar Falur. „Ástæðan er alræði Almannavarna, einfaldlega vanhæfra manna. Stofnanir verða að skilja að fréttaljósmyndarar eru ekki hver sem er og hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna. Sjálfsagt er að þau í Skógarhlíðinni veiti okkur upplýsingar en það er hlutverk atvinnufjölmiðlamanna að upplýsa almenning og sýna fólki hvað í raun og veru er að gerast.“

Ragnar segir ljósmyndara oft setta í meiri hættu en ella vegna téðra hindrana enda þurfi þeir í auknum mæli að leita leiða til að komast að atburðum bakdyramegin. „Það er góður punktur,“ segir Einar Falur. „Að hugsa sér að fréttamenn þurfi að smygla sér inn til að gera sína skyldu.“

Ragnar hefur farið víða um heim til að mynda mannlíf og náttúru og kveðst hvergi nema hér lenda á veggjum. „Ég er með leyfi til að fara til Rússlands og allir eru af vilja gerðir til að hjálpa en hér heima kemst ég ekki til Hveragerðis ef það er gola.“

Allir eru þeir sammála um að skilningur á hlutverki fréttamanna hafi verið meiri hér áður fyrr. Gunnar rifjar upp flugslysið í Ljósufjöllum 1986 þegar hann fékk að fara með rannsóknarnefnd flugslysa í þyrlu á staðinn gegn einu skilyrði – að hann myndi ekki trufla rannsóknina. Það var auðsótt.

Það leyfi fékkst hjá Pétri Einarssyni þáverandi flugmálastjóra sem fjórmenningarnir segja hafa skilið hlutverk fjölmiðla vel. Sama máli gegndi um Hannes Þ. Hafstein, fyrrverandi forstjóra Slysavarnafélagsins.

Viðmótið, sem hér hefur verið lýst, á ekki bara við um fjöll og firnindi. Gunnar segir sama uppi á teningnum á hinu háa Alþingi. „Hér áður var tekið á móti manni með kaffi og pönnukökum á Alþingi en nú er eins og maður sé með yfirfrakka á sér í tveimur hurðargáttum. Ekki er langt síðan ég var víttur fyrir að mynda persónuleg gögn þingmanna úr stúkunni. Vegna þessarar þröngu stöðu koma eiginlega engir fréttamenn þarna lengur nema frá RÚV. Ekki er langt síðan þingmaður var með barn á brjósti í hliðarsal þings sem hefði orðið frábær fréttamynd en nei, það má ekki. Ég var lengi ljósmyndari síðdegisblaðs og þurfti að finna aðra vinkla en morgunblöðin og oftar en ekki enduðu skemmtilegar mannlífsmyndir af þinginu á forsíðu sem teknar voru í skála fyrir þingsetningu. Nú má ekkert lengur og þegar maður spyr af hverju þá er bara sagt: „Af því bara!“

Einar Falur kinkar kolli. „Mér finnst ekki taka því að koma á Alþingi lengur; við sjáum bara framhliðina.“

Allir bera þeir kvíðboga fyrir framtíðinni. „Skaðinn er þegar skeður. Fjölmiðlamenn í dag eru allir meira og minna niðri á stétt,“ segir Gunnar.

Ragnar tekur undir þetta: „Ísland er orðið yfirfullt af fólki sem ratar ekki heim nema eftir einhverri reglugerð.“

Páll bendir á að Ísland sé og verði eldfjallaland. „Hvað ef Hekla byrjar að gjósa? Þá er ég hræddur um að við verðum stöðvaðir á Sandskeiði,“ segir hann.

„Sandskeiði?” étur Ragnar upp eftir honum. „Við verðum stöðvaðir í Hafnarfirði.“

Allir voru þeir í Heklugosinu 1991 og náðu einstökum myndum.

„Framvegis verður Íslandssagan líklega bara Njála, 2. bindi,“ segir Ragnar. „Engar myndir.“

Höf.: Orri Páll Ormarsson