Flytjendur Tinna Þorvalds Önnudóttir og Júlía Mogensen.
Flytjendur Tinna Þorvalds Önnudóttir og Júlía Mogensen.
Tónleikauppfærsla af nýrri kammeróperu eftir Önnu Halldórsdóttur við ljóðabók Elísabetar Jökulsdóttur, Ástin ein taugahrúga – Enginn dans við Ufsaklett, verður frumsýnd á Myrkum músíkdögum í Mengi á morgun, sunnudag, kl

Tónleikauppfærsla af nýrri kammeróperu eftir Önnu Halldórsdóttur við ljóðabók Elísabetar Jökulsdóttur, Ástin ein taugahrúga – Enginn dans við Ufsaklett, verður frumsýnd á Myrkum músíkdögum í Mengi á morgun, sunnudag, kl. 20. Kammeróperan er fyrir mezzosópran, selló og rafhljóð og er í uppsetningu sviðslistahópsins Spindrift Theatre. Leikstjóri er Bergdís Júlía Jóhannsdóttir og flytjendur Tinna Þorvalds Önnudóttir söngkona og Júlía Mogensen sellóleikari.

„Verkið er þroskasaga konu og barátta draumsins við raunveruleikann. Þessi barátta er spegluð í ofbeldisfullu ástarsambandi frá upphafi til enda og við veltum fyrir okkur: hvað er það sem gerir man að „alvöru konu“ – og hvar leynist hinn raunverulegi lykill að öllu saman? Söguhetjan er með geðhvörf, sem litar frásögnina þannig að úr verður rússibanareið á milli alsælu og dýpsta þunglyndis. En hvort sem persónan er stödd á toppnum eða botninum er kímnin aldrei langt undan. Tónlist Önnu Halldórsdóttur gefur textanum nýja vídd og er bæði grípandi og aðgengileg. Segja má að hún höfði til breiðs markhóps og geti jafnt fangað athygli þeirra sem hafa lítið hlustað á óperur, sem og óperu­áhugafólks,“ segir í tilkynningu.

Þar kemur fram að Anna hafi komið víða við á tónlistarferli sínum. Hún hefur gefið út þrjár sólóplötur með sinni tónlist og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir fyrstu plötuna. Hún lærði upptökutækni erlendis og byrjaði að nýta sér þá þekkingu við gerð tónlistar og hljóðmyndar við kvikmyndir og heimildarmyndir. „Anna bjó og starfaði í New York-borg í 15 ár og vann þar að mörgum tónlistarverkefnum og hefur einnig unnið að heimildarmyndum frá Mongólíu og hefur verið í samstarfi við tónlistar­fólk þaðan. Árið 2017 flutti Anna heim og fékk fljótlega tækifæri til að semja tónlist og hljóðmynd fyrir tvær sýningar í Þjóðleikhúsinu, Ég heiti Guðrún og Þitt eigið leikhús II, en einnig hefur hún tekið þátt í tveimur sýningum með hinu alþjóðlega leikfélagi Reykjavík Ensemble, Opening Ceremony og Polishing Iceland, þar sem hún samdi bæði tónlist og hljóðmynd.“

Næstu sýningar verða í Mengi 10. og 17. febrúar kl. 20.30 báða daga. Miðar fást á tix.is