Bryntröll Hermaður aðstoðar við að flytja Abrams-dreka til Póllands vegna heræfingar NATO þar á seinasta ári.
Bryntröll Hermaður aðstoðar við að flytja Abrams-dreka til Póllands vegna heræfingar NATO þar á seinasta ári. — AFP/Mateusz Slodkowski
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Orrustuskriðdrekar Atlantshafsbandalagsins (NATO) eru flókin, viðhaldsfrek og afar tæknileg vopnakerfi. Séu bryndrekarnir notaðir á réttan hátt eru þeir hins vegar afar banvæn og öflug tól. En til að svo megi verða þarf þjálfun, þekkingu, varahluti og nauðsynleg aðföng. Þeir leiðtogar Evrópu sem heitið hafa Úkraínu orrustuskriðdrekum segja fyrstu drekana, sem eru af gerðunum Leopard 2 og Challenger 2, verða afhenta fyrir lok mars nk. Þeir munu þó að líkindum ekki fara inn á vígvöllinn fyrr en með sumrinu. Bandaríski drekinn Abrams mun að líkindum ekki mæta til leiks fyrr en eftir 6 til 8 mánuði. Hann sé mun flóknara tæki, viðhaldsfrekara og erfiðara í rekstri en evrópsku drekarnir.

Þetta segir bandaríski hershöfðinginn Mark Hertling, herstjórnandi með 38 ára reynslu. Skriðdrekar eru, að hans mati, nauðsynlegir vilji hermenn vinna aftur landsvæði sem óvinaher hefur læst klónum í.

„Þetta eru ógnvekjandi tæki, bæði í útliti og sálfræðilega. En lykillinn að velgengni þeirra er rétt notkun og þar gegnir þjálfun stóru hlutverki,“ segir Hertling og bætir við að hann telji Vesturlönd geta sent 100 til 150 orrustuskriðdreka til Úkraínu fyrir sumarið. Eftir því sem tíminn líður munu svo fleiri bætast við, m.a. Abrams frá Bandaríkjunum. Úkraína hefur beðið Vesturlönd um 300 orrustuskriðdreka til að rjúfa varnarlínur Rússa og endurheimta landsvæði.

Verða orrustuþotur næstar?

Nú þegar Vesturlönd hafa ákveðið að senda orrustuskriðdreka sína til Úkraínu, eitthvað sem talið var ómögulegt fyrir fáeinum mánuðum, vaknar sú spurning hvort orrustuþotur verði einnig sendar. Um það hefur verið beðið og rætt.

Bandaríski flugvéla- og vopnaframleiðandinn Lockheed Martin segist í umfjöllun Financial Times vera reiðubúinn til að svara kallinu, berist það. Hefur orrustuþotan F-16 verið sérstaklega nefnd sem hugsanleg aðstoð við Úkraínu. Þotan er afar fim, hröð og sérstaklega hönnuð með það í huga að takast á við aðrar herþotur. Hún gæti því hentað vel til að hreinsa lofthelgi Úkraínu, lofthelgi sem Rússar hafa sl. 11 mánuði ekki náð að eigna sér þökk sé m.a. vestrænum loftvarnakerfum sem send voru hersveitum Úkraínu.

Framleiðslustjóri Lockheed Martin segir mjög til umræðu nú að þriðji aðili afhendi F-16-orrustuþotur en fyrirtækið sjálft eigi ekki í beinum viðræðum um afhendingu á þessu vopnakerfi til Úkraínu.

Þau ríki Evrópu sem nú búa yfir F-16 geta ekki tekið einhliða ákvörðun um að senda þotur sínar til Úkraínu. Til þess þurfa þau leyfi frá Washington þar sem um bandarískt vopnakerfi er að ræða. Hvíta húsið hefur til þessa verið hikandi í að senda þotur, enda megi nota þær til að ráðast á landsvæði Rússlands. Slíkt yrði vafalaust flokkað sem alvarleg stigmögnun af hálfu Moskvuvaldsins. Afleiðingar slíkrar árásar í raun ófyrirséðar.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari hefur þegar slegið þotusendingar út af borðinu. „Við sendum ekki orrustuþotur,“ sagði hann sl. miðvikudag.

Þotur kalla á fleiri vélar

Fari svo að Úkraína fái á einhverjum tímapunkti F-16 þá kallar sú aðstoð að líkindum á AWACS-ratsjárflugvélar, en slík tæki geta fylgst með allri flugumferð á stóru svæði og eru því talin afar mikilvæg í tengslum við flughernað. Án þeirra eru F-16 berskjaldaðar fyrir árásum Rússa.

Höf.: Kristján H. Johannessen