Agnes Adolfsdóttir fæddist 20. janúar 1952. Hún lést 5. janúar 2023. Útförin fór fram 12. janúar 2023.

Elsku Agnes mín. Þín verður sárt saknað. Þú ert einn af þeim gimsteinum sem maður gleymir ekki. Þú varst ávallt vinur vina þinna. Og það var einhvern veginn alveg sama hversu langt leið á milli símtala eða hittinga, það var alltaf eins og maður hefði hist í gær seinast. Fyrstu minningar mínar um þig eru af Kirkjuveginum þar sem við systkinin fengum stundum að vera í pössun, eða hvað það myndi nú heita. En við áttum alltaf yndislegar kósístundir þar sem við höfðum gaman, spjall og leikir, fengum okkur kók að drekka sem var einmitt einn af þínum uppáhaldsdrykkjum í lengri tíma.

Þið Pétur voruð vinafólk foreldra minna og var töluverður samgangur á milli. Pétur var með pabba á sjó og stundum komst þú í heimsókn til mömmu og þið gátuð átt skemmtilegar stundir saman.

Á einhverjum tímapunkti minnkuðu samskipti okkar eins og gengur og gerist þar sem ég flutti úr foreldrahúsum en samt þegar við hittumst var eins og það hefði verið seinast í gær.

Mér þótti alltaf vænt um þig og hláturinn þinn og varstu mér ávallt eins og aukamamma eða stóra systir.

Minning þín mun lifa í huga mér og hjarta. Hvíl í friði Agnes mín.

Þín vinkona,

Jónína Ingibjörg Gerðarsdóttir.