Jónas Helgi Eyjólfsson fæddist í Innri-Njarðvík 18. janúar 1952. Hann lést á Hrafnistu í Keflavík 3. janúar 2023.

Foreldrar hans voru Eyjólfur Kristinn Snælaugsson, f. 2. nóvember 1924, d. 30. nóvember 2003, og Guðrún Þórhildur Björg Jónasdóttir, f. 26. júní 1930, d. 6. júní 1999. Systkini Jónasar eru: Vilhjálmur Kristinn, f. 1954, Eyjólfur Ævar, f. 1957, og Þórey, f. 1963. Hálfbróðir samfeðra; Jón Ásgeir, f. 1951.

Jónas giftist Björgu Baldursdóttur 11. september 1971. Synir þeirra eru: 1) Baldur Ingi, f. 1972, giftur Helgu Salóme Ingimarsdóttur, f. 1976, og eiga þau þrjá syni: Ingimar Aron, f. 1998, í sambúð með Auði L. Benediktsdóttur, Elmar Breka, f. 2004, og Tómas Orra, f. 2010. 2) Jónas Eyjólfur, f. 1975, í sambúð með Lindu Pálsdóttur, f. 1976. Þau eiga dótturina Bergrós Lilju, f. 2011. Jónas á synina Sveinbjörn Einar, f. 2001, og Magnús Frey, f. 2005, með Laufeyju A. Sveinbjörnsdóttur. 3) Haukur Davíð, f. 1980. Unnusta Edda Jónsdóttir, f. 1979. Haukur á soninn Gunnar Jónas, f. 1999, með Hansínu Þ. Gunnarsdóttur. Unnusta hans er Kolfinna Ólafsdóttir. Jónas og Björg slitu samvistir 1999.

Seinni kona Jónasar var Ingibjörg Sigurmundsdóttir, þau slitu samvistir.

Jónas ólst upp í Innri-Njarðvík hjá foreldrum sínum. Að loknu gagnfræðaprófi frá Njarðvíkurskóla fór hann á sjóinn á Svani KE 90 og síðar á Helgu Björgu HU 7. Þaðan lá leiðin í Vélskóla Íslands og lauk hann þar 2. stigi vélstjóranáms 1972. Hann stundaði sjóinn frá Keflavík þar til fjölskyldan flutti vestur í Hnífsdal 1977. Á Ísafirði starfaði hann hjá lögreglunni, fyrst sem almennur lögreglumaður. Lauk prófi úr Lögregluskólanum 1982 og starfaði síðan sem rannsóknarlögreglumaður og loks sem yfirlögregluþjónn til 1993. Þá lá leiðin á æskuslóðirnar þar sem hann vann með bræðrum sínum í verktakafyrirtæki.

Jónas hafði mikla ástríðu fyrir sjósókn og skemmtibátaferðum og var á tímabili formaður sportbátafélagsins Sæfara á Ísafirði sem hann stofnaði árið 1979 ásamt fleiri áhugamönnum um sportbáta. Í kjölfarið skipulögðu félagsmenn og fyrirtæki á Ísafirði þrjár Ísafjarðarhátíðir, árin '82, '85 og '88. Vorið 1990 átti Jónas aðild að stofnun Djúpferða hf., siglinga með ferðamenn um Ísafjarðardjúp á farþegabátnum Eyjalín. Jónas var skipstjóri fyrsta sumarið.

Í september 1996 fluttu Jónas og Björg í Örlygshöfn við Patreksfjörð þar sem Björg tók við starfi skólastjóra. Jónas starfaði þar við kennslu og sem húsvörður. Í desember 1996 fékk Jónas alvarlegt heilablóðfall, sem orsakaði vinstri helftarlömun. Eftir skilnað þeirra hjóna flutti hann í Innri-Njarðvík og bjó þar uns hann flutti á Hrafnistu á Nesvöllum í Keflavík. Síðustu árin starfaði hann sjálfstætt í tengslum við ýmis hjálparsamtök, t.d. Stoð og styrkingu og Liðsmenn Jerico í tengslum við eineltismál, depurð, kvíða og þunglyndi.

Útför Jónasar fór fram í kyrrþey, að hans ósk, frá Innri-Njarðvíkurkirkju 13. janúar 2023.

Elsku pabbi. Ýmsar góðar minningar koma upp þegar við bræður rifjum upp tíma okkar saman, s.s. þegar við tókum túrana á Rauðku og Svölunni um spegilslétt Djúpið sem síðan enduðu oftast í Vigur. Þú hafðir ómældan áhuga á skemmtibátum og sjósókn almennt, enda fór það líka svo að þú stofnaðir fyrirtæki sem kom að sjóferðum fyrir túrista. Segja má óhikað að þú hafir haft mikla ástríðu fyrir því starfi og hvergi varstu ánægðari en undir stýri á Eyjalín. Þessi ástríða dvínaði aldrei því samtöl okkar leiddust gjarnan út í umræður um þessar sjóferðir.

Tími okkar í Hnífsdal einkenndist af ánægjuríkri æsku og þar var gott að alast upp. Á því tímabili byrjaðir þú í lögreglunni, en metnaður þinn leiddi svo síðar til þess að þú varst ráðinn sem yfirlögregluþjónn. Við munum alveg eftir því að við urðum að sýna gott fordæmi, t.d. hvað útivistarreglur varðaði, og þar var nú sjaldan slegið af.

Við upplifðum afar skemmtilegan tíma í Djúpmannabúð þegar þið mamma tókuð að ykkur rekstur hennar. Þar lærðum við að vinna þótt ungir værum, en oft var tími til að bregða á leik, svo sem við tafl og spil, fótbolta, veiðar eða með skoðunartúrum um Djúpið. Síðan lá leið okkar í Reykjanes til tveggja ára, þar sem þú tókst að þér kennslu o.fl. í gagnfræðaskólanum. Þú varst strangur kennari en sanngjarn og að mörgu leyti endurspeglaðist sú aðferðafræði í uppeldi okkar bræðra.

Þú kunnir ógrynni af sögum sem margar hverjar voru æði áhugaverðar. Oftast sneru þær að sjónum en líka öllu milli himins og jarðar. Okkur varð þó ljóst í seinni tíð að þú færðir sumar þeirra aðeins í stílinn, enda alger óþarfi að láta sannleikann eyðileggja góða frásögn. Við vissum að þú varst fremur harður í horn að taka og því komu skelfilegar fréttir um andlát þitt eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þú hafðir verið ótrúlega þrautseigur í gegnum þau áföll sem þú hafðir gengið í gegnum. Það var í raun aðdáunarvert að sjá hvernig þú tókst á við afleiðingarnar af heilablóðfallinu sem þú fékkst aðeins 44 ára gamall í Örlygshöfn, en það er mikið á ungan mann lagt að vera lamaður að mestu vinstra megin líkamans svo snemma á lífsleiðinni. Þú tókst þó á við það verkefni með jafnaðargeði og af æðruleysi.

Við bræður náðum því miður ekki að vera viðstaddir þegar þú kvaddir þessa jarðvist, enda bar andlát þitt fremur brátt að. Það var gríðarlega sárt. Þórey systir þín var lánsamlega þér við hlið og hélt í hönd þína þegar þú kvaddir. Líkaminn var augljóslega ekki reiðubúinn að berjast af meiri mætti við Covid-veiruna. Þegar við bræðurnir rifjuðum upp samtöl okkar við þig um Covid, þá áttuðum við okkur á því að þú hafðir hugsanlega óttast veiruna nokkuð. Því miður sannaðist að sá ótti var ekki ástæðulaus.

Elsku pabbi. Við viljum með þessum fátæklegu orðum þakka þér fyrir samfylgdina í gegnum súrt og sætt. Minning þín mun lifa í hjörtum okkar. Þínir synir,

Baldur Ingi, Jónas Eyjólfur og

Haukur Davíð.