Guðríður Dýrleif Kristjánsdóttir Skjóldal fæddist 9. maí 1924 á Ytra-Gili í Eyjafirði. Hún lést 25. desember 2022.

Foreldrar hennar voru Kristján Pálsson Skjóldal, bóndi og málari, f. 4. maí 1882 í Möðrufelli í Eyjafirði, d. 15. desember 1960, og Kristín Gunnarsdóttir bóndi, f. 21. september 1892 við Kálfavík í Skötufirði, d. 3. maí 1968.

Eiginmaður Guðríðar Dýrleifar er Guðjón Símon Björnsson vélfræðingur, f. 23. júlí 1929. Börn þeirra eru: Halla Björk, Þráinn Már, Guðrún og Dýrleif.

Útför fór fram í kyrrþey.

Elsku mamma lést á jóladag eftir erfið veikindi. Í hugann koma fram ljúfar minningar. Ég mun varðveita þær í hjarta mínu. Fyrst vil ég minnast hennar góðu mannkosta sem voru góðar gáfur, jákvæðni, heiðarleiki, trúfesta, trygglyndi og manngæska. Mamma var alin upp í sveit við frjálsræði og gleði, samheldni fjölskyldunnar og hjálpsemi við aðra, sem varð líka að leiðarljósi mínu inn í framtíðina. Hún var glaðsinna, dugleg, trygglynd og örlítill prakkari í sér ef svo bar undir. Áttum við stundum smá leyndarmál hér áður sem ég minnist með gleði og hlýju.

Hún var stolt af uppruna sínum, var ættrækin og elskaði sveitina sína, Eyjafjörð, það fór ekki leynt. Hún var trúuð og með hreint hjartalag. Hún hugsaði líka afskaplega vel um fjölskyldu sína, allt heimilishald, vann utan heimilis seinna meir og var skynsöm með fjármuni.

Okkur mömmu kom alltaf mjög vel saman. Eftir að barnæsku og skólaárunum lauk var tískan áhugamál. Ég fluttist til Reykjavíkur og þá var mikið ferðast á milli Reykjavíkur og Akureyrar, var hún stundum að passa elsta son minn sem var annað slagið hjá ömmu sinni og afa á Akureyri og ferðaðist stundum með þeim. Við komum oft öll til ömmu og afa, bæði um jól, páska og á sumrum. Alltaf svo gott að koma til hennar.

Mamma var sannarlega náttúrubarn og mikill náttúruverndarsinni, friðar- og jafnréttissinni, fór ekki leynt með að kjósa konur til forystu í íslensku samfélagi þegar færi gafst. Mamma var ekki allra eins og sagt er, hún valdi vini sína af kostgæfni, en þeim mun tryggari því fólki sem var hennar, trúnaðarvinur mikill og góður. Ekkert fór lengra.

Hún mamma mín lifði svo magnaða tíma í íslensku samfélagi, enda varð hún rúmlega 98 ára gömul. Allt frá því að vera á sauðskinnsskóm til fallegs leðurskótaus, hún lifði það þegar fyrsti traktorinn kom, þúfnabaninn, fyrsti bíllinn, flugvélin, bresku hersetuna, rafmagnið, símann og heimilistækin sem urðu svo hluti af daglegu lífi fólks, öll ferðalögin um hinn stóra heim í flugvélum, bílum, lestum, skipum, stríðið og friðinn... framfarir á öllum sviðum og svo mætti lengi telja. Ekkert af þessu var til þegar hún var lítil. Já hún talaði oft um þessa hluti sem breyttu svo miklu í samfélagi íslensku þjóðarinnar. Stóð eins og klettur í afstöðu sinni til bænda.

Allt þetta mótaði þessa dásamlegu konu sem mér auðnaðist að kynnast, þekkja og elska. Þakka ég þér elsku mamma mín fyrir allar okkar stundir saman. Hvíl í friði í faðmi ástvinanna. Ég mun ætíð sakna þín.

Þín elsta,

Halla Björk.

Það var skammt stórra högga á milli í Skjóldalsfjölskyldunni þetta árið. Þann 15. nóvember lést Óttar og nú er Stóra-Dilla gengin sinn veg. Þar með eru þau öll systkinin frá Ytra-Gili í Hrafnagilshreppi, Eyjafjarðarsveit, gengin á fund feðra sinna og mæðra. Stóra-Dilla hét fullu nafni Guðríður Dýrleif Skjóldal, en Guðríðarnafnið notaði hún aldrei. Viðurnefnið Stóra fékk hún til aðgreiningar frá okkur hinum, mér og dóttur hennar sem vorum nefndar í höfuðið á henni. Stóra-Dilla föðursystir okkar, var besta og fallegasta frænkan okkar. Hún hafði óendanlegan kærleik, umhyggju og þolinmæði að gefa okkur krökkunum. Aðeins 13 ára átti hún fjóra yngri bræður, og þann yngsta þeirra, pabba okkar, annaðist hún að mestu í samvinnu við móður sína. Og það gerði hún vel, kærleikurinn þeirra á milli fór ekki fram hjá neinum sem til þeirra þekkti.

Af ást og virðingu annaðist hún okkur systkinabörn sin svo vel að það vakti jafnvel öfund okkar eigin mæðra. Alltaf áttum við hana vísa sem bandamann í leikjum og starfi. Aldrei hækkaði hún róminn við okkur, eða skammaði, og öllum okkar gjörningum tók hún með jafnaðargeði og umhyggju. Hún hafði þann eiginleika að leyfa okkur að leika leikinn til enda, jafnvel þótt hann tæki marga daga.

Stóra-Dilla var snör í snúningum, gamansöm og hláturmild, snögg til svars ef hún vildi það viðhafa, dugleg og athafnasöm. En hún var líka fín frú, með uppsett hár alla sína daga, klædd pilsum og sokkabuxum og skarti. Það breyttist ekkert þótt hún yrði 98 ára gömul, og göngugrindina sína notaði hún ekki, slíkt var bara fyrir gamalt fólk!

Elsku besta Stóra-Dilla okkar, þú hefur verið lengur í lífi okkar en allir aðrir, en nú skilja leiðir. Við þökkum þér af heilum hug fyrir alla þá ást og umhyggju sem þú hefur veitt okkur. Enginn í heiminum hafði til að bera mýkri hendur og hlýrra hjarta fyrir okkur krakkana. Far þú í friði og við biðjum að heilsa öllum hinum.

Dýrleif Skjóldal,

Hafdís Skjóldal,

Kristján Skjóldal, Ingimarsbörn.