Baldur Gunnarsson fæddist í Grindavík 20. maí 1942. Hann lést 4. janúar 2023.

Baldur er sonur hjónanna Gunnars Magnússonar, f. 18. júní 1922, d. 2016, og Guðrúnar Gunnarsdóttur, f. 21. september 1924, d. 8. maí 1992. Baldur var elstur af átta systkinum. Hin eru Guðrún Sigríður, f. 1943, Gunnhildur Ólöf, f. 1946, Magnús Björgvin, f. 1947, Stefanía Sara, f. 1949, Gunnar Magnús, f. 1956, Jón Rúnar, f. 1960, d. 2013, Pétur Sigurður, f. 1964.

Baldur var kvæntur Eddu Karen Haraldsdóttir og eiga þau þrjú börn.

Haraldur Júlíus Baldursson, f. 1961, maki Elfa Stefánsdóttir, f. 1962, börn þeirra eru.

Edda Karen Haraldsdóttir, f. 1981, maki Þórður Bjarnason, börn þeirra eru Darri, Haraldur Hrafn og Bjarni. Hjördís Haraldsdóttir, f. 1984, maki Guðmundur Stefán Finnbogason, f. 1983, börn þeirra eru Draupnir, Rafn og Erla. Andri Haraldsson, f. 1986, sambýliskona hans er Sigrún Bjarnadóttir, f. 1988, börn þeirra eru Úlfar Bjarni, Elfa Arna og Una Lóa. Ylfa Haraldsdóttir, f. 2002, unnusti hennar Kjartan Árni Steingrímsson, f. 2001. Ólöf Baldursdóttir, f. 1967, maki Arnar Haukur Ævarsson, f. 1964, börn þeirra eru Kolbrún Lilja, f. 1988, maki Hjálmtýr Grétarsson, f. 1987, börn þeirra eru Arnar Dagur og Grétar Atli. Baldur, f. 1993, sambýliskona hans er Helga Arnardóttir, f. 1993, dóttir þeirra er Ólöf Dröfn. Arnar Gauti, f. 1998, sambýliskona hans er Þóra Marín Sigurjónsdóttir, f. 1995. Guðríður Hjördís, f. 1975, sambýlismaður hennar er Guðmundur Ingi Karlsson, f. 1975, börn hennar eru Atli Hrafnkelsson og Þóra Hrafnkelsdóttir. Hrafnkell Kristjánsson, f. 1975, faðir þeirra lést 2009.

Baldur fæddist í húsi móðurömmu sinnar og afa á Hæðarenda í Grindavík. Síðan flutti fjölskyldan um haustið til Reykjavíkur í Kleppsholtið. Baldur gekk í Lauganesskóla og fór seinna í landspróf. Baldur var nokkur sumur í sveit að Marteinstungu í Reykhólasveit og líkaði það vel. Hann hélt 16 ára gamall á síld á Arnfirðing, bát sem faðir hans var skipsstjóri á og átti ásamt öðrum. Hugur hans hneigðist til sjómennskunnar og siglinga með togaraafla og síðar í millilandasiglingum. Hann tók fiskimannspróf og í framhaldi faramannapróf og útskrifaðist frá Stýrimannaskólanum 1965. Baldur réði sig til skipafélagsins Sambandsins og stundaði millilandasiglingar í mörg ár. Seinna var hann í strandsiglingum og leysti ungur af sem skipstjóri á olíubirgðaskipum Sambandsins, Litlafelli og Stapafelli. Eftir skamma dvöl hjá Slökkviliði Keflavíkurflugvallar réði Baldur sig til eldsneytisafgreiðslu Skeljungs á Reykjavíkurflugvelli. Þar starfaði hann sem stöðvarstjóri allt til ársins 1986 þegar honum var boðið að taka við eldsneytisafgreiðslu olíufélagana í Leifsstöð þar sem hann starfaði í 17 ár.

Útför hans fer fram í kyrrþey að hans eigin ósk.

Pabbi var sérstaklega trúr og tryggur sinni fjölskyldu. Alltaf var hann tilbúinn að hjálpa þeim sem voru að byggja eða eitthvað að brasa. Alltaf ákaflega vandvirkur og nákvæmur í öllu sem hann gerði.

Fjölskyldan ferðaðist oft saman innanlands og eigum við margar góðar minningar frá þeim ferðum. Pabba fannst gaman að veiða þegar tími vannst til og fannst honum sérstaklega gaman að hafa barnabörnin með.

Pabbi var mikill bílaáhugamaður og átti ófáa bílana gegnum sitt lífshlaup. Fornbílaklúbburinn var honum hugleikinn og minnisstæður er glæsilegur Citroën Pallas sem var stolt hans og yndi. Pabbi var mikið snyrtimenni og bar allt hans umhverfi þess merki. Garðurinn, bílarnir og bílskúrinn, allt í röð og reglu.

Síðustu árin naut pabbi þess að fara reglulega á Hrafnistu og eiga þar gott spjall við jafningja sína. Hann mætti þar góðu viðmóti og var ákaflega þakklátur þeim sem þar störfuðu.

Líknarteymi Heru sinnti honum síðustu mánuðina af kostgæfni og alúð. Við þökkum þeim sérstaklega fyrir ákaflega góða umönnun í hans veikindum.

Hvíl í friði elsku pabbi.

Haraldur J., Ólöf og Guðríður Hjördís.

Elsku afi Baldur. Nú þegar komið er að kveðjustund koma ótalmargar ljúfar minningar upp í hugann og notalegt að rifja þær upp saman. Það fyrsta sem kemur upp í huga okkar systkinanna eru samverustundirnar og gistinæturnar á Háabarðinu og síðar á Reykjavíkurveginum. Þar var mikið lagt upp úr því að dekra við okkur barnabörnin. Búið var um minnsta fólkið í kósí kommóðuskúffu, alltaf búið að kaupa kókópöffs og ís, boðið upp á hrygg eða rúnstykki í hádeginu á sunnudögum og bingólottómiðar og nammipokar keyptir fyrir laugardagskvöldin.

Afi elskaði bíla og eyddi miklum tíma í bílskúrnum sínum að gera upp og gera við bíla. Hann var mikill snyrtipinni og í bílskúrnum átti hver hlutur sinn stað. Hann lagði mikið upp úr því að fara vel með hlutina sína enda entust þeir yfirleitt í mörg ár. Það var alltaf til verkfæri sem þurfti fyrir hvert verkefni, eins og snjóskóflan við hurðina í bílskúrnum og vasaljósið uppi á skilrúminu á ganginum, og þessum verkfærum var ekki skipt út alla okkar æsku því þess þurfti ekki. Við lærðum af afa að ef maður hugsar vel um dótið sitt þá endist það.

Okkur er minnisstæð Þórsmerkurferðin þar sem við máttum hafa opinn gluggann á meðan afi keyrði yfir árnar og þar var bílasíminn sem afi átti löngu áður en farsímar komu til sögunnar. Ferðirnar í fellihýsinu og hjólhýsinu voru skemmtilegar og amma og afi voru alltaf til í að taka í spil í þeim ferðum. Sundferðirnar með afa voru fjölmargar og krókódílaleikurinn var sívinsæll. Ferðin á Formúlu-1keppni í Þýskalandi er einnig eftirminnileg, en þar naut afi sín einkar vel með fólkinu sínu. Afi var einnig stoltur af langafabörnunum sínum og hafði mikinn áhuga á því sem þau voru að bralla, gaf sig að þeim og þótti ekki leiðinlegt að lauma sultu á eitt og eitt snuð.

Elsku afi Baldur, við erum þakklát fyrir allar ljúfu minningarnar, þær ylja okkur í sorginni.

Hvíldu í friði elsku afi.

Edda Karen, Hjördís, Andri, Ylfa og fjölskyldur.