Guðlaug Sigurðardóttir fæddist 25. desember 1937. Hún andaðist 10. janúar 2023.

Guðlaug var jarðsungin 19. janúar 2023.

Elsku amma þú varst alltaf svo ung í anda og talaðir alltaf um að þú væri ekki nema 25 ára, sem þú varst svo sannarlega í anda. Þú varst líka algjör skvísa og hafðir mikið fyrir því að vera með fínar neglur og augabrúnir, skella þér í andlitsmeðferð, fótsnyrtingu og jafnvel nudd. Enda varstu í snyrtingu hjá mér einu sinni í viku í einhverri onduleringu.

Ég fékk að kynnast þér á svo annan hátt sem ég er svo þakklát fyrir enda vorum við trúnaðarvinkonur eins og þú sagðir og geymum leyndarmál hvor annarrar.

Það byrjaði snemma, þetta snyrtistand á okkur, því þegar ég var lítil þá var ég yfireitt að fikta í snyrtidótinu þínu eða að mála þig. Við naglalökkuðum okkur og varalituðum ef við vorum ekki að baka eða prjóna, því, jú, þú hafðir þolinmæðina í að kenna fjögurra ára barni að prjóna.

Við fórum líka oft í búðarferðir þar sem ég sótti þig og svo fórum við búð úr búð að skoða og versla, ég gat alltaf treyst á að þú nenntir með mér að vesenast.

Þú varst alltaf til í einhverja vitleysu og grín, það var svo skemmtilegt við þig.

Þegar ég var að dimmitera þá sagði ég við þig að þú yrðir nú að bjóða mér í mat þegar ég kæmi úr óvissuferð sem þú gerðir svo sannarlega og skelltir svo kassa af bjór á borðið og ópalpela og sagðir mér að fá mér smá sjúss áður en ég héldi áfram að skemmta mér.

Fyrir ekki svo löngu þá kom ég heim til þín að laga til á þér neglurnar og okkur datt í hug að fá okkur hvítvín á meðan við værum að þessu, tveimur og hálfum tíma seinna var ég rétt að klára neglurnar og hvítvínið komið vel á leið, mikið skálað, mikið hlegið og skipst á sögum. Mikið rosalega var þetta skemmtilegt.

Æ, elsku amma, ég gæti haldið áfram endalaust að þylja upp sögur, það sem ég á eftir að sakna þín. Það er enginn eins og þú, þú varst einstök. Nú segi ég eins og þú sagðir við mig á hverju kvöldi – og mikið rosalega á ég eftir að sakna þess að heyra það: „Megi guð og góðu englarnir passa þig og varðveita.“ Góða nótt amma mín, ég elska þig og við heyrumst seinna.

Þín nafna,

Guðlaug Stella

(Sesselía Sumarrós).

Elsku mamma, nú er komið að kveðjustund. Andlátið bar brátt að, mamma var hress alveg fram í andlátið. Hún kvartaði aldrei þó svo hún væri mjög slæm af gigt og psoriasis, ef hún var spurð hvernig henni liði þá leið henni alltaf vel. Við systkinin áttum dásamlega æsku, mikil ást og öryggi, vinir okkar alltaf velkomnir í heimsókn og mikil gestrisni ef gesti bar að garði. Hún var mikill listamaður í höndum, hvort sem var að mála postulín eða við aðra handavinnu og liggur mikið af handverki eftir hana. Hún t.d. var búin að mála postulínslampa til öryggis ef hún skyldi nú falla frá svo öll barnabörn fengju lampa eftir hana við sína útskrift Allir áttu eitthvert handverk eftir ömmu Gullu.

Mamma var mikil pjattrófa og fór ekki út úr húsi nema vel tilhöfð. Fór oft í snyrtingu og lét laga á sér hárið reglulega, hún ætlaði sko ekki að verða gráhærð eins og börnin hennar og lét því lita það mjög reglulega. Hún var mikið fatafrík, átti ógrynni af fatnaði. Hún var mikil fjölskyldukona og elskaði fjölskylduhittinga og vildi helst að við værum alltaf að hittast. Síðasti hittingur var 4. desember en þá hélt hún upp á 85 ára afmælið sitt í Grímsborgum og þar mætti öll stórfjölskyldan.

Við ferðuðumst mikið með foreldum okkar innanlands þegar við vorum lítil. Og líka í seinni tíð, alltaf farið til Vestmannaeyja en það var uppvaxtarbær hennar og hafði hún sterkar taugar til Eyja.

Hún átti margar skondnar hliðar og oft var hlegið að tölvukunnáttu hennar en hún var samt mjög klár í að græja sjónvarpið í gegnum síma þegar allt var dottið út. Við kölluðum hana stundum séra Guðlaugu því hún var alltaf að „séra“ á facebook og breyta messenger-spjallinu okkar en kannaðist samt ekkert við að hafa breytt neinu. Henni var mjög umhugað um alla í fjölskyldunni, fylgdist vel með öllum og enginn greinarmunur gerður á hvort það voru ömmu- eða langömmubörn.

Við fengum á hverju kvöldi frá henni kveðju á messenger og saknar maður þess að heyra ekki kling í símanum á kvöldin. Hún sendi alltaf til okkar: „Góða nótt elskurnar og guð geymi ykkur.“

Og endum við því þetta, elsku mamma, með orðunum þínum:

„Guð og góðu englarnir passi þig og varðveiti.“

Ingunn, Sigurður (Siggi), Erla og Steinunn.