Jacinda Arden, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, tilkynnti á dögunum um afsögn, þrotin kröftum. Hún hefur löngum verið í uppáhaldi hjá vinstrimönnum um víðan völl, því meira sem þeir eru lengra í burtu. Við fréttirnar vöknaði þeim nánast um augu við að tíunda dyggðir hennar og stjórnvísi, í von um að einhver héldi að það ætti þá líka við um skoðanasystkinin, þau sjálf.
Katrín Jakobsdóttir og Kristrún Frostadóttir kepptust við að mæra hana. Katrín sagði lýsandi fyrir Ardern að koma hreint fram með ástæður afsagnarinnar.
Kristrún játaði að hún hefði „litið mikið upp til Ardern“ sem hefði sýnt „mikinn styrkleika konu í þjónandi forystu,“ hvað sem það nú er.
Það er hæpið að saka Ardern um hreinskilni í þessu samhengi. Hún pakkaði saman skömmu fyrir kosningar vegna fylgishruns, enda megn óánægja með hana á Nýja-Sjálandi.
Og hún bugaðist ekki af mótlæti eða hatursorðræðu, eins og sumir ókunnugir Íslendingar hafa gefið í skyn, því harðneitaði hún sjálf.
En ef hún er heilög manneskja í augum vinstrimanna, taka þeir þá ekki örugglega undir einarða afstöðu hennar í útlendingamálum? Nú er lag!