P.M. Nilsson
P.M. Nilsson — Ljósmynd/Kristian Pohl/Regeringskansliet
Álabókin – sagan um heimsins furðulegasta fisk eftir sænska rithöfundinn Patrik Svensson, sem út kom fyrir þremur árum, hefur óvænt skotist upp metsölulistann í Svíþjóð

Álabókin – sagan um heimsins furðulegasta fisk eftir sænska rithöfundinn Patrik Svensson, sem út kom fyrir þremur árum, hefur óvænt skotist upp metsölulistann í Svíþjóð. Í frétt um málið á SVT kemur fram að vinsældirnar skýrist af afsögn Peters Magnusar Nilssons sem innanríkisráðherra í Svíþjóð í liðinni viku. Nilsson var staðinn að ólöglegum álaveiðum árið 2021 og neyddist til að segja af sér eftir að upp komst að hann hafði sagt ósatt um málið. Fyrr í þessum mánuði var honum gert að greiða tæplega 39 þúsund sænskar krónur í sekt vegna málsins, sem samsvarar rúmri hálfri milljón íslenskra króna.

Álabókin eftir Svensson, sem á sínum tíma hlaut August-bókmenntaverðlaunin í Svíþjóð, kom út hjá bókaútgáfunni Benedikt 2020 í íslenskri þýðingu Þórdísar Gísladóttur. Bókin fjallar um „leyndardómsfyllsta fisk veraldar, sem er í mikilli útrýmingarhættu,“ eins og sagði í útgáfufrétt á sínum tíma.

Frá því mál Nilssons komst í fréttir í liðinni viku hefur sala á hljóðbókarútgáfu Álabókarinnar aukist um 20% hjá Nextory í Svíþjóð. „Áhuginn á því að hlusta á Álabókina sem hljóðbók hefur aukist um 30% miðað við vikuna þar á undan,“ hefur SVT eftir Therese Lindström, talsmanni Storytel í Svíþjóð. Patrik Svensson hefur ekki viljað tjá sig opinberlega um þennan aukna áhuga á bók hans. Áður en Nilsson sagði af sér á fimmtudaginn í liðinni viku lét Svensson í samtali við SVT þó hafa eftir sér að framferði ráðherrans „væri ótrúlega heimskulegt og sjálfhverft.“