Fjölhæfur Ólafur Darri er með mörg járn í eldinum þessa dagana en hann vill jöfnum höndum leika, framleiða og skrifa.
Fjölhæfur Ólafur Darri er með mörg járn í eldinum þessa dagana en hann vill jöfnum höndum leika, framleiða og skrifa. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is Í Dagmálsmyndveri Árvakurs hitti blaðamaður leikarann ástsæla Ólaf Darra Ólafsson en hann situr sannarlega ekki auðum höndum þessa dagana. Nýtt fyrirtæki hans, ACT4, kemur til með að framleiða norrænt efni fyrir alþjóðamarkað en einnig leikur Ólafur Darri í sjónvarpi og kvikmyndum víða um heim.

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Í Dagmálsmyndveri Árvakurs hitti blaðamaður leikarann ástsæla Ólaf Darra Ólafsson en hann situr sannarlega ekki auðum höndum þessa dagana. Nýtt fyrirtæki hans, ACT4, kemur til með að framleiða norrænt efni fyrir alþjóðamarkað en einnig leikur Ólafur Darri í sjónvarpi og kvikmyndum víða um heim.

Fjórir í sama báti

„Ég hef í mörg ár verið að gæla við þennan framleiðandadraum. Mér hefur fundist mjög skemmtilegt að sjá hæfileikaríkt fólk koma saman og sjá hugmyndir verða að veruleika,“ segir leikarinn og nú framleiðandinn Ólafur Darri Ólafsson sem nýlega stofnaði ásamt þremur öðrum framleiðslufyrirtækið ACT4.

Ólafur Darri er þó síður en svo nýgræðingur á sviði framleiðslu, en hann hefur framleitt kvikmyndirnar Börn og Foreldrar fyrir Vesturport og tók þátt í framleiðslu Sumarljóss, svo eitthvað sé nefnt.

„Við vinnu við Ráðherrann kynntist ég þeim Jónasi [Margeiri Ingólfssyni] og Birki [Blæ Ingólfssyni] og þeir höfðu áhuga á að stofna framleiðslufyrirtæki, og jafnframt kom Hörður Rúnarsson inn í þetta sem áður var með Glassriver,“ segir Ólafur Darri og segir þá fjóra standa að fyrirtækinu.

„Við erum allir í sama báti; okkur langar alla að skapa. Framtíð þessa bransa er mjög björt.“

Stórir í norræna heiminum

Ólafur Darri mun því framleiða og vinna við þróun handrita, en segist alls ekki hættur að leika.

„Mér finnst það ennþá mjög skemmtilegt og ég hef verið það heppinn að ég nýt þess að vinna með frábæru fólki úti um allan heim. En þetta er góð flugbraut til þess að nýta mér þessi sambönd sem ég hef búið mér til erlendis í að hefja samstarf á annan hátt,“ segir Ólafur Darri sem hyggst fljótlega ljóstra því upp hvaða verkefni verða fyrst á dagskrá, en segir þar stór nöfn koma við sögu. Ólafur Darri segir nóg af verkefnum á teikniborðinu.

„Það er mikið af góðum hugmyndum og sögum á floti í samfélaginu. Við þurfum að passa að fara ekki fram úr okkur. Við erum tilbúnir til að vera með svo lengi sem einhver brennur fyrir að segja söguna. Ég er sem leikari sögumaður í eðli mínu,“ segir hann og segir mikið átak að framleiða kvikmynd eða sjónvarpsþátt og oft sé ferlið tímafrekt.

Ólafur Darri segir þá félaga sannarlega ætla að framleiða íslenskt efni þótt eins og fyrr segir langi hann mikið í samstarf við vini sína erlendis.

„Ég hef til að mynda mikið verið að vinna með Ben Stiller. Hann elskar Ísland. Við erum íslenskt framleiðslufyrirtæki og ætlum að nýta okkur okkar íslenska sagnaarf og það frábæra hæfileikafólk sem býr á Íslandi. En við ætlum ekki að stoppa þar, heldur langar okkur að verða stórir í hinum norræna hluta heimsins og framleiða efni fyrir alþjóðamarkað,“ segir hann og nefnir að endurgreiðsla ríkisins skipti miklu þegar framleiða á efni fyrir hvíta tjaldið og skjáinn.

Frekar kalt á Langjökli

Við ræðum nýju íslensku kvikmyndina Napóleonsskjölin, sem frumsýnd verður á föstudaginn, en myndin er spennutryllir gerð eftir samnefndri skáldsögu Arnalds Indriðasonar. Ólafur Darri leikur þar bónda en í myndinni leika einnig Vivian Ólafsdóttir, Jack Fox, Adesuwa Oni og hinn skoski Iain Glen. Óskar Þór Axelsson leikstýrir.

„Það var ofboðslega gaman að leika í myndinni. Þarna er skemmtileg blanda af íslenskum og erlendum leikurum, eins og Iain Glen úr Game of Thrones,“ segir Ólafur Darri.

„Við vorum úti um allt og fórum meira að segja til Þýskalands að skjóta í stúdíói. Annars vorum við mikið uppi á Langjökli. Það var frekar kalt!“ segir Ólafur Darri og brosir.

Spurður um starf leikarans sem þeysist um heiminn segir Ólafur Darri: „Þetta er mjög skemmtilegt starf en ég skal viðurkenna að oft er þetta einmanalegt. En yfirleitt kynnist maður góðu fólki og maður býr til fjölskyldu sem er saman í nokkra mánuði. Svo bara splundrast fjölskyldan. Maður heldur alltaf að fólkið verði alltaf í sambandi, en því miður er það ekki þannig. En ég hef fengið að upplifa ótrúlegustu hluti og fengið að ferðast um allan heim.“

Danskortið er orðið fullt

Eru einhver hlutverk erlendis á döfinni?

„Já, ég er að leika í annarri þáttaröð af seríu sem heitir Severance sem AppleTV gerir og Ben Stiller leikstýrir og framleiðir. Svo er ég að öllum líkindum að leika í annarri seríu í vor og í haust förum við í tökur á Ráðherranum 2. Þannig að danskortið mitt er eiginlega fullt fram undir jól. Fyrir utan svo vinnuna með fyrirtækinu mínu,“ segir hann.

„Svo langar mig að fara að skrifa meira. Ég er byrjaður að leggja grunn að seríu með konu í aðalhlutverki, sem er mjög skemmtilegt. Ég þori ekki að segja of mikið,“ segir hann og brosir.

Þú sagðir mér í símann að þú værir að fara til Búdapest. Hvað ertu að fara að gera þar?

„Já, ég er að fara í búningamátun. Það er kannski fulllangt að fara,“ segir hann og hlær.

„Ég er að öllum líkindum að fara að leika í seríu sem er skotin í Búdapest og New York og var beðinn að koma til Búdapest í búningamátun. Ég held að það sé að fara að gerast,“ segir hann kíminn.

Spurður um hvaða fínu búninga hann sé að fara að máta segir hann það nú bara vera einhver nútímaföt.

Það er bara verið að máta á þig jakkafötin?

„Já, eða ég efast um að það verði svo fínt,“ segir hann og brosir.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir