Fjölskyldan Í sól og sumaryl á Arnarstapa. Efri röð, frá vinstri: Guðjón, Ingunn, Herdís, Jóhannes, Lára og Þórður. Fremri röð frá vinstri: Hildigunnur, Daníel, Kristján og Nanna.
Fjölskyldan Í sól og sumaryl á Arnarstapa. Efri röð, frá vinstri: Guðjón, Ingunn, Herdís, Jóhannes, Lára og Þórður. Fremri röð frá vinstri: Hildigunnur, Daníel, Kristján og Nanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Herdís Hólmfríður Þórðardóttir er fædd 31. janúar 1953 á Akranesi. „Ég ólst upp á Skaganum og átti góða æsku þar. Pabbi var skipstjóri og útgerðarmaður og stundaði sjóinn og var mamma með okkur systkinin heima

Herdís Hólmfríður Þórðardóttir er fædd 31. janúar 1953 á Akranesi. „Ég ólst upp á Skaganum og átti góða æsku þar. Pabbi var skipstjóri og útgerðarmaður og stundaði sjóinn og var mamma með okkur systkinin heima.

Á hverju vori var farið norður í sveit til ömmu og afa á Hreppsendaá í Ólafsfirði en mamma var þaðan.

Seinna fór móðir okkar með okkur systkinin í síld á Siglufirði og seinna til Seyðisfjarðar. Pabbi var á þessum tíma á síldveiðum með skip sitt og þetta var leið fjölskyldunnar til að geta verið nálægt honum á sumrin og á ég yndislegar minningar frá þessum tíma. Síðast saltaði ég síld sumarið 1965 á Seyðisfirði, þá tólf ára gömul og næsta sumar á eftir fór ég aftur til Siglufjarðar til að vinna í frystihúsi sem meðeigandi pabba í útgerðinni rak þar. Þetta var á þeim tíma sem krökkum var snemma kennt að vinna og þótti ekki tiltökumál og bara góð reynsla og þjálfun.“

Skólaganga Herdísar var á Akranesi og lauk hún gagnfræðaprófi 1970. Sumarið áður hafði hún fengið sumarvinnu við afleysingar á sjúkrahúsinu hér á Akranesi, þá 16 ára. „Ég fann strax að þetta starf átti vel við mig og ég fór í ársbyrjun 1971 ásamt vinkonum mínum norður til Akureyrar og unnum þar á Fjórðungssjúkrahúsinu.“ Haustið 1972 lauk hún sjúkraliðanámi frá Borgarspítalanum í Reykjavík og eftir það starfaði hún á Sjúkrahúsinu á Akranesi í 15 ár.

Jóhannes, eiginmaður Herdísar, er sjómaður og fljótlega vaknaði áhugi þeirra á eigin útgerð og þau keyptu fyrsta bátinn 1981, Hrólf Ak-29. Seinna fóru þau út í fiskverkun og byggðu fiskverkunarhús 1987.

„Reksturinn var umfangsmikill og að því kom að ég helgaði mig útgerð og fiskverkun með manni mínum. Seinna bættum við við starfsemina og buðum upp á fjölbreytt úrval af fiski, m.a. tilbúna rétti. Útgerðina seldum við 2005 og nokkru seinna fiskverkunina.“

Herdís hefur alla tíð haft áhuga á pólitísku starfi og var formaður sjálfstæðiskvennafélagsins Bárunnar í átta ár. Hún fór í framboð til bæjarstjórnar og varð varabæjarfulltrúi 1990 og tók þá sæti í hafnarstjórn Akraness, fyrst kvenna. Hún var síðan formaður hafnarstjórnar 1994-1998 og átti jafnframt sæti í stjórn Grundartangahafnar til 2002. „Það voru mikil uppbyggingarár og stækkun hafnarinnar, skipulag hennar og rekstur, var skemmtilegt viðfangsefni.

Árið 2007 fór Herdís síðan í framboð til Alþingis í Norðvesturkjördæmi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. „Annar þingmanna okkar, Einar Oddur Kristjánsson, féll sviplega frá stuttu eftir kosningar og tók ég þá fast sæti á Alþingi til loka þess kjörtímabils.“

Þau hjónin eiga sumarhús á Arnarstapa á Snæfellsnesi og hafa dvalið þar mikið yfir sumarið. „Árið 2016 ákváðum við að láta smíða fyrir okkur matarvagn fyrir „fish & chips“ og staðsettum hann á Arnarstapa. Var okkur vel tekið meðal ferðamanna og fengum mikil og góð viðbrögð. Á veturna höfum við líka verið með matarvagninn, sem heitir Monsvagninn, á Akranesi.

Við hjónin höfum mikinn áhuga á laxveiði og hefur það verið fastur liður hjá fjölskyldunni að fara í laxveiði frá því að börnin voru lítil. Einnig þykir okkur mjög gaman að ferðast um landið okkar og erlendis.“

Fjölskylda

Eiginmaður Herdísar er Jóhannes S. Ólafsson, f. 18.9. 1948, fv. útgerðarmaður. „Við giftum okkur 1973 og fluttum ári seinna í okkar eigið hús, sem við byggðum á Bjarkargrundinni. Þar búum við enn. Foreldrar Jóhannesar voru hjónin Ólafur Ólafsson, f. 23.11. 1926, d. 5.4. 2013, og Lilja Halldórsdóttir, f. 14.3. 1926, d. 13.1. 2008, bændur á Innsta-Vogi við Akranes.

Börn Herdísar og Jóhannesar eru 1) Þórður Már, f. 8.7. 1973, búsettur í Kópavogi, eiginkona hans er Nanna Björg Lúðvíksdóttir, f. 4.2. 1973. Börn þeirra eru Kristófer Orri, Herdís Lilja og Katrín Rós; 2) Lára, f. 12.12. 1974, búsett í Reykjavík, eiginmaður hennar er Kristján Magnússon, f. 24.5. 1971. Börn þeirra eru Svanhildur, Jóhannes Breki, Auður Dís og Kristján; 3) Ingunn Þóra, f. 16.5. 1981, búsett á Akranesi, eiginmaður hennar er Daníel Viðarsson, f. 18.1. 1980. Börn þeirra eru Sindri Freyr, Jóhannes Már, Anna og Júlíus Már; 4) Guðjón, f. 18.7. 1985, búsettur á Akranesi, maki hans er Hildigunnur Einarsdóttir, f. 10.2. 1992. Börn þeirra eru Marselía Hrund og Helgi Leó.

Systkini Herdísar eru Inga Jóna Þórðardóttir f. 24.9. 1951, búsett í Reykjavík, og Guðjón Þórðarson f. 14.9. 1955, búsettur á Akranesi.

Foreldrar Herdís eru Þórður Guðjónsson, f. 10.10. 1923, d. 27.10. 2005, skipstjóri og útgerðarmaður á Akranesi, og Marselía S. Guðjónsdóttir, f. 1.2. 1924, d. 28.8. 2013, húsmóðir frá Hreppsendaá í Ólafsfirði.