Vonbrigði fylgja gjarnan miklum væntingum.
Vonbrigði fylgja gjarnan miklum væntingum. — Morgunblaðið/Kristinn M.
Þegar orðinu „væntingastjórnun“ er slegið inn í leitarglugga Málsins kemur þetta svar: „Flettan væntingastjórnun fannst ekki í neinu gagnasafni.“ Hmm, það er nú skrítið því orðið dúkkar upp reglulega í ýmsum umræðum, nú síðast um gengi handboltalandsliðsins

Helgi Snær Sigurðsson

Þegar orðinu „væntingastjórnun“ er slegið inn í leitarglugga Málsins kemur þetta svar: „Flettan væntingastjórnun fannst ekki í neinu gagnasafni.“ Hmm, það er nú skrítið því orðið dúkkar upp reglulega í ýmsum umræðum, nú síðast um gengi handboltalandsliðsins. En þá kemur Snara til bjargar: „n. (kv.) (það að hafa áhrif á hvaða væntingar fólk hefur) expectation management.“

Þessar upplýsingar koma úr Orðabók aldamóta, íslensk-enskri. Hugtakið virðist eiga rætur í enskumælandi heimi og þá væntanlega stjórnunarfræðum og nær yfir það að stýra eða reyna að stýra væntingum fólks. Ekki hafa of miklar væntingar því þá gætirðu orðið fyrir vonbrigðum, sumsé. Það er líklega gott fyrir vinnustað þar sem allt er í rugli.

En af hverju má ekki gera væntingar til íþróttaliðs? Endurtekið heyrir maður talað um það í fjölmiðlum að ekki megi gera of miklar væntingar til landsliða. Hvers vegna ekki? Má ég ekki hafa væntingar um að liðið komist langt? Og ef það kemst ekki langt þá nær það bara ekki lengra. Er ekki allt í lagi að fólk verði fyrir vonbrigðum stundum? Afsakið en ég skil þetta bara ekki. Vonandi gerði enginn væntingar til þess.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson