Varnaræfing F-16-orrustuþota á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í tengslum við æfinguna Norður-Víking.
Varnaræfing F-16-orrustuþota á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í tengslum við æfinguna Norður-Víking. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikil umræða á sér nú stað innan varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna (e. Pentagon) um að senda orrustuþotur af gerðinni F-16 til Úkraínu. Gætu vélarnar nýst vel til að granda rússneskum loftförum, einkum drónum, stýriflaugum og eldflaugum, auk þess…

Í Brennidepli

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Mikil umræða á sér nú stað innan varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna (e. Pentagon) um að senda orrustuþotur af gerðinni F-16 til Úkraínu. Gætu vélarnar nýst vel til að granda rússneskum loftförum, einkum drónum, stýriflaugum og eldflaugum, auk þess sem beita mætti vélunum gegn bæði orrustuþotum og -þyrlum. Rót þessarar umræðu vestanhafs er ósk Úkraínumanna um aukna hernaðaraðstoð, en þeir hafa sett þoturnar efst á óskalista sinn eftir að ákveðið var að senda Kænugarði vestræna orrustuskriðdreka. Verða fyrstu drekar afhentir fyrir lok mars nk.

Er það vefsíðan Politico sem greinir frá þessu og vísar til nokkurra heimildarmanna innan Pentagon.

Vestrænar orrustuþotur, einkum F-16, hafa verið ofarlega á lista Úkraínumanna frá því að innrás Rússa hófst fyrir tæpu ári. Í upphafi átaka var þó megináhersla lögð á að verjast innrás. Skipti þá mestu að tryggja afhendingu á vopnakerfum á borð við bryndrekabana, stórskotalið og loftvarna- og eldflaugakerfi auk þess sem brynvarin ökutæki voru einnig send til Úkraínu í miklu magni. Nú hefur eðli átaka hins vegar breyst, Úkraínumenn farnir að sækja fram í þeim tilgangi að endurheimta landsvæði úr klóm innrásarliðsins. Og til þess þurfa þeir sóknarvopn á borð við orrustuskriðdreka og jafnvel orrustuþotur. Moskvuvaldið hefur ítrekað varað við hugsanlegum þotusendingum, sagt það alvarlega stigmögnun átaka og afleiðingar í raun ófyrirséðar.

Hér ber að hafa í huga að Moskvuvaldið hefur frá upphafi hernaðaraðstoðar Vesturlanda hótað stigmögnun, rétt eins og það gerði á tímum kalda stríðsins þegar óspart var bent á kjarnavopnin. Hótanir Rússa eru því vel þekktar í gegnum söguna.

Ekki á móti þotusendingu

Fyrir fáeinum vikum var talið óhugsandi að Vesturlönd sendu Úkraínu vopnakerfi á borð við Patriot-loftvarnakerfi og orrustuskriðdreka. Nú mótmælir enginn og í raun aðeins beðið eftir afhendingu þeirra. En verða þá þoturnar næstar?

„Ég held að við séum ekki á móti því,“ sagði heimildarmaður Politico sem starfar innan Pentagon. Engin ákvörðun mun þó hafa verið tekin.

Í raun má telja ólíklegt að Úkraína fái orrustuþotur, komi þær yfir höfuð, fyrr en eftir einhverjar vikur eða jafnvel mánuði. Ástæða þess er helst tvíþætt, í fyrsta lagi mun það taka tíma fyrir ráðamenn vestanhafs að tala sig niður á þessa ákvörðun og heimila í kjölfarið bandamönnum sínum í Evrópu að gera slíkt hið sama.

Svo er það þjálfun flugmanna Úkraínu. Það er bæði tímafrekt og flókið ferli, einkum ef vilji er til að þjálfa Úkraínumenn svo að þeir verði á pari við þá orrustuflugmenn Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem fljúga F-16-þotunum.

Þjálfa í 22 mánuði fyrir F-16

Ryan McBeth, sérfræðingur með 20 ára reynslu úr Bandaríkjaher, segir það myndu taka hátt í tvö ár að þjálfa Úkraínumenn með sama hætti og orrustuflugmenn Bandaríkjanna.

„Úkraínskur flugmaður getur meðtekið leiðbeiningar – tekið á loft, flogið og lent. En hvernig stendur hann sig í neyðarástandi? Í vopnuðum átökum er það vöðvaminnið sem tekur yfir. Og þá vilja menn ekki teygja sig eftir rofa á þeim stað sem hann er í MiG-29 þegar flogið er F-16,“ segir hann.

Að sögn McBeths fara verðandi F-16-flugmenn Bandaríkjanna í sex mánaða þjálfun á einshreyfils skrúfuvél áður en við tekur sjö mánaða þjálfun í þotuflugi. Að því loknu tekur svo við níu mánaða þjálfun á F-16. Er þjálfunin því alls tuttugu og tveir mánuðir.

Ryan McBeth útilokar ekki að hægt verði að sjóða þjálfun Úkraínumanna niður í níu mánuði, en þá þarf Kænugarður auðvitað að sjá á eftir flugmönnum sínum í það verkefni. Og þá er spurning – mega Úkraínumenn við því í miðju stríði?

Telja verður ljóst að vopnakerfi og þjálfun stjórnenda þeirra skipti miklu máli í vopnuðum átökum. Mikilvægt sé að búa yfir bæði góðri tækni og þjálfun. En það er þó fleira sem skiptir máli, svo sem viðhald á búnaði.

Fari svo að Úkraínumenn fái F-16 verða þeir að sinna flóknu, dýru og tímafreku viðhaldi. Gerist það ekki má búast við bilunum og hættu á altjóni.

McBeth segir 45% af öllum F-16-flota Bandaríkjanna frá þjónustu á hverjum tíma vegna viðhalds. Fyrir hvern tíma sem flogið er þurfa viðhaldssveitir að sinna þjónustu í nítján klukkustundir. Það kann því að reynast Úkraínumönnum afar flókið að innleiða vestrænt vopnakerfi á borð við F-16 og það í miðjum átökum.

Þá hefur einnig verið bent á það, m.a. hér í Morgunblaðinu, að þotur kalla á fleiri flugvélar, einkum AWACS-ratsjárflugvélar, en án þeirra eru F-16 berskjaldaðar fyrir árásum.

Bandaríska orrustuþotan F-16

Reynslan frá Víetnam rótin

Bandarísku orrustuþotunni F-16 Fighting Falcon var fyrst flogið árið 1974 og þykir enn í dag í hópi bestu herþotna heims. Framleidd eintök eru rúmlega 4.600 og af þeim eru nærri 3.000 sem enn eru í notkun hjá herjum 25 ríkja heims.

Erfið reynsla Bandaríkjamanna frá vígvöllum Víetnams kallaði á herþotu sem er smá, hröð og fim. Þar mætti finna lykilinn að velgengni í loftbardaga á milli flugvéla. Stórar og þungar þotur á borð við F-15 voru af Pentagon taldar erfiðar í rekstri auk þess sem talið var útilokað að útvega öllum flugsveitum svo dýra flugvél. Eftir talsverða vinnu varð F-16 til á teikniborðinu.

Orrustuþotan er hönnuð af General Dynamics til að vera tiltölulega ódýr í framleiðslu og rekstri en á sama tíma á hún að vera fim og geta flutt fjölbreytt úrval vopna. Getur hún þannig bæði ráðist gegn skotmörkum á jörðu niðri en einnig tekist á við aðrar þotur í háloftunum.

Höf.: Kristján H. Johannessen