Hækkun Skólagjöld Listaháskólans verða 340 þúsund kr. á önn í haust.
Hækkun Skólagjöld Listaháskólans verða 340 þúsund kr. á önn í haust. — Ljósmynd/Listaháskólinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það hefur engin hækkun orðið á skólagjöldum umfram það sem tíðkast hefur,“ segir Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands (LHÍ). Óánægja er meðal nemenda í skólanum vegna fyrirhugaðrar hækkunar skólagjalda í rúmar 340 þúsund krónur á önn á næsta skólaári sem hefst í haust

„Það hefur engin hækkun orðið á skólagjöldum umfram það sem tíðkast hefur,“ segir Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands (LHÍ). Óánægja er meðal nemenda í skólanum vegna fyrirhugaðrar hækkunar skólagjalda í rúmar 340 þúsund krónur á önn á næsta skólaári sem hefst í haust. Hefur rektor borist undirskriftalisti frá nemendum vegna þessa. Meðal nemenda heyrist það sjónarmið að skólagjöldin séu orðin svo mikil byrði að þau takmarki aðgang hinna efnaminni að skólanum. Fríða Björk segir að skólagjöld hækki árlega í samræmi við vísitölu neysluverðs. Þannig hafi því verið háttað í allmörg ár. Þessar upplýsingar hafi ávallt legið fyrir á vef skólans.

„Nú þegar verðbólga er mun hærri en í meðalári hækkar sú vísitala um leið meira en áður,“ segir hún. „Verðbólgan knýr áfram þær verðhækkanir sem mikið hafa verið í samfélagsumræðunni undanfarið, en einnig í öllum okkar verkefnum líkt og hjá öðrum sem eru með fjölþætta starfsemi.

Við rekum háskólann samkvæmt sérstökum samningi við ríkið til að standa undir rekstri hans. Það sem ríkið greiðir til hans með nemendum er um það bil 80% af rekstrarfjármagni. Það sem út af stendur, um það bil 20%, er fjármagnað með skólagjöldum sem Menntasjóður lánar nemendum fyrir. Þetta rekstrarmódel hefur verið það sama frá stofnun skólans eða í 23 ár,“ segir Fríða Björk. Hún segir að heppilegast væri að Listaháskólinn væri rekinn án skólagjalda. Það væri líka sanngjarnt því enginn annar skóli býður upp á listnám á háskólastigi.

„Allt frá því ég tók til starfa sem rektor hef ég ítrekað vakið athygli á því, bæði gagnvart stjórnvöldum og í fjölmiðlum, að vegna þessa fjármögnunarmódels njóti nemendur í listnámi ekki sömu réttinda eða frelsis til náms og aðrir hér á landi sem eiga kost á því að sækja sér háskólamenntun í nánast öllum greinum án þess að greiða skólagjöld,“ segir hún.

Skólagjöld í LHÍ, HR og á Bifröst

Gjöld miðast við verðlagsþróun

Skólagjöld í grunnnámi við Listaháskóla Íslands verða 340.972 kr. á önn skólaárið 2023 til 2024 sem hefst í haust. Hækkun frá skólagjöldum í vetur tekur mið af verðlagsþróun en við hana eru gjöldin miðuð og hefur svo verið um árabil.

Skólagjöld við Háskólann í Reykjavík eru 267.000 kr. í vetur, en ekki liggur fyrir hver þau verða í haust. Líklegt er að þau hækki í samræmi við verðbólguna eins og áður. Á vef skólans segir að skólagjöld séu ákvörðuð í tengslum við fjárhagsáætlun skólans á hverju ári. Gjöld hjá nemendum sem hafa hafið nám við skólann hækki að öllu jöfnu ekki umfram almennar verðlagshækkanir þar til prófgráðu er lokið í samfelldu námi.

Skólagjöld í Háskólanum á Bifröst eru miðuð við fjölda eininga sem nemandi tekur. Ef einingarnar eru 23 eða fleiri eru skólagjöldin 313.000 kr. á önn í vetur, en fjárhæð næsta árs liggur ekki fyrr