Kolbrún Jónsdóttir fæddist 8. júlí 1943. Hún lést 20. desember 2022. Útför fór fram 4. janúar 2023.
Þegar ég lít yfir farinn veg þá geri ég mér grein fyrir því hvað Kolla var oft með í för. Við kynntumst mjög ungar, ellefu eða tólf ára gamlar, þegar við æfðum báðar handbolta hjá Val. Góður vinskapur skapaðist á milli okkar þegar fjölskyldur okkar fluttust í smáíbúðahverfið. Hún bjó í Langagerði og ég í Háagerði. Þar sem við gengum nánast sömu leið á handboltaæfingarnar sem haldnar voru í Hálogalandi ákváðum við að verða samferða. Við fundum strax að við áttum sömu áhugamál og lentum aldrei í vandræðum með að finna umræðuefni, og þannig var það alla tíð. Við urðum fljótt heimagangar hvor hjá annarri, hlustuðum mikið á hljómplötur og kanaútvarpið og sungum alltaf með á fullu. Það var það skemmtilegasta sem við gerðum. Kolla söng strax allar milliraddir enda mjög söngelsk og tónviss og hún spilaði líka undir á gítar. Við áttum það til að syngja saman við alls konar uppákomur.
Á þessum árum gerðum við allt saman. Við unnum báðar í Vinnufatagerð Íslands og þegar við fengum sumarfrí seinna árið okkar þar ákváðum við að fara saman á síld á Seyðisfirði ásamt Svölu eldri systur minni. Það er mjög eftirminnilegur tími. Við vorum þar í einn mánuð í mikilli veðursæld þrátt fyrir að sólin hafi bara látið sjá sig í einn dag. Við Kolla urðum fljótt ansi þekktar þar sem við vorum alltaf syngjandi, bæði í vinnunni og þegar við áttum frí. Mjög algengt var að hitta okkur vinkonurnar fyrir á göngu syngjandi hástöfum. Ekki fer neinum sögum af því hvort bæjarbúum hafi líkað þetta en við vorum bara í eigin heimi og hugsuðum ekkert út í það. Eftir þetta fóru heimsóknir að vera strjálli svona eins og gerist í lífinu. Fólk fer í hvert í sína áttina. Við náðum hins vegar að fara saman eina utanlandsferð sumarið 1969 til Mallorca sem þá voru vinsælustu utanlandsferðirnar hjá Guðna í Sunnu. Það var mjög skemmtileg ferð og kynntumst við fullt af fólki.
Þegar aðstæður voru þannig að við sáumst sjaldan bættum við það upp með reglulegu og góðu símasambandi sem hélst alla tíð og aldrei leið of langt á milli samtala. Í raun og veru vorum við nánast eins og systur, svo sterk voru tengslin á milli okkar. Ef eitthvað var um að vera hjá fjölskyldunni minni var Kolla alltaf ómissandi partur af því og öll mín fjölskylda bar alltaf hlýjan hug til hennar.
Margs er að minnast varðandi Kollu mína. Mig langar að minnast á eitt atriði sem lýsir svo vel hversu samviskusöm hún var. Við fórum á spænskunámskeið saman á eldri árum. Eitt sinn þegar við áttum að mæta í tíma kvartaði Kolla um að hún gæti varla mætt af því að hún hefði ekki haft tíma til að undirbúa sig. Ég sagði það nú í lagi, ég yrði henni til aðstoðar og taldi mig það vel undirbúna. Þegar í tímann var komið dró Kolla upp glósurnar sínar þar sem hún hafði skrifað upp nánast allt sem við áttum að læra og var auðvitað með allt á hreinu þó að henni þætti það ekki.
Kolla var einstaklega góð og hlý manneskja og öllum þótti vænt um hana.
Elsku vinkona, ég kveð þig með sorg í hjarta.
Þín vinkona,
Mjöll Hólm.