Halla S. Nikulásdóttir fæddist 17. maí 1931 á Hringbraut 26 í Reykjavík og var hún yngst af systkinum sínum. Hún andaðist 22. janúar 2023 á hjúkrunarheimilinu Seltjörn, Seltjarnarnesi.

Foreldrar Höllu voru Ragna S. Stefánsdóttir, f. 6. apríl 1889, d. 29. mars 1974, og S. Nikulás Friðriksson, f. 29. maí 1890, d. 6. júní 1949. Ragna og Nikulás áttu sjö börn, elstur var Stefán, f. 23. apríl 1915, d. 3. júlí 1985, Ragnheiður, f. 4. ágúst 1917, d. 17. apríl 2004, Halldór, f. 22. júní 1919, d. 3. júlí 2010, Einar, f. 3. október 1921, d. 28. maí 2006, Unnur, f. 21. janúar 1924, d. 26. febrúar 2009, og Sæmundur, f. 21. desember 1927, d. 28. janúar 2021.

Halla giftist hinn 10. október 1953 Þórði Þorvarðssyni, f. 3. apríl 1930, d. 21. febrúar 2009. Hann var sonur Þorvarðar Þorvarðarsonar og Guðrúnar Guðmundsdóttur. Halla og Þórður hófu hjúskap sinn á æskuheimili Höllu, Hringbraut 26. Þar bjuggu þau ásamt tveimur elstu börnum sínum þar til þau fluttu í Álfheima 62. Þórður og Halla eignuðust saman fjögur börn: 1) Nikulás, f. 27. maí 1954, d. 27. október 2010, kvæntur Elísabetu Bertu Bjarnadóttur, börn hennar: a) Svanborg, maki Kjell og börn/stjúpbörn Elísabet Lea, Julian, Alvar og Fie, b) Bjarni, maki Marta og börn/stjúpbörn Kristjana Kría og Einar Hugi. 2) Guðrún, f. 24. apríl 1957, gift Randveri Þorlákssyni, börn þeirra: a) Halla Björg, sambýlismaður Ögmundur, synir þeirra Úlfur Randver og Högni Hrafn, b) Árni Þórður, sambýliskona Elínborg. 3) Elísabet, f. 26. desember 1965, gift Einari Gunnarssyni, börn þeirra: a) Jakob Sturla, kvæntur Zoniu og sonur þeirra Skúmur, b) Karen Eir, sambýlismaður Kristján Thor. 4) Kjartan Þór, f. 29. nóvember 1971, sambýliskona Ásbjörg Geirsdóttir og börn þeirra Alexander og Karítas. Fyrir átti Þórður soninn Skúla Eggert, f. 17. febrúar 1953. Hann er kvæntur Dagmar Elínu Sigurðardóttur, synir þeirra eru: a) Helgi Skúli, kvæntur Valérie, dóttir þeirra er Clara, b) Daði Rúnar, sambýliskona Ester Ana og b) Hlynur Jökull.

Halla ólst upp við gott atlæti í stórum systkinahópi. Á sumrin var Halla í sveit á Litlu-Hólum í Mýrdal, hjá föðurömmu sinni og frænku. Halla lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Reykjavíkur og fór í Húsmæðraskólann. Hún var mikil hannyrðakona. Halla var lengi í kór, fyrst í kvennakórnum Seljunum og síðar í kór eldri borgara í Gerðubergi. Halla hafði áhuga á trjá- og garðrækt og naut þess mjög að planta blómum og trjám á sumarbústaðarlandi sínu og í garða sína, fyrst í Giljaseli 12 og síðar á Skálaheiði 9. Halla valdi að hefja störf á gæsluvöllum Reykjavíkurborgar. Lengst af vann hún á gæsluvellinum við Barðavog, sem og á Ljósheimavelli.

Útför Höllu fer fram frá Langholtskirkju í dag, 31. janúar 2023, klukkan 13.

Gleði, gjafmildi og gestrisni lýsa Höllu nokkuð vel.

Hún kom inn í líf mitt og barnanna 1994 þegar við Nikulás sonur hennar kynntumst. „Hún kunni nú heldur betur að lifa lífinu lifandi“, voru fyrstu viðbrögð Bjarna sonar míns þegar ég tilkynnti honum andlátið. „Æi, hún var svo barngóð og góð sál“ sagði Svanborg mín. Þetta eru orð að sönnu. Börn voru allt hennar ævistarf og ættu öll störf sem veita börnum umhyggju að teljast til merkustu starfa hér á jörðu.

Halla vann á gæsluvöllunum sem nú eru löngu aflagðir og var „Rólókona“ með stóru R-i, elskuð og dáð af öllum foreldrum og börnum sem kynntust henni þar.

Ef Halla hefði verið lögfræðingur og verjandi hefði hún unnið öll sín mál, svo þétt stóð hún alltaf við bakið á börnunum sínum og barnabörnum.

Jakob Sturla ömmubarn bjó hjá þeim Þórði um hríð á meðan mamma hans skrapp á nokkra sálfræðikúrsa til Bergen. Höllu fannst það yndislegt og hafði eftir sem áður nóg hjartarúm og húsrúm fyrir Árna Þórð þegar foreldrarnir þurftu að skreppa á uppákomur.

Halla var lestrarhestur á meðan hún gat lesið og gaman að tala við hana um bækurnar. „Hann var kallaður þetta“ var sú bók sem hafði hvað dýpst áhrif á hana. Hún fjallaði um dreng sem var niðurlægður og smáður. Halla stóð með lítilmagnanum og var í raun sannur sósíalisti.

Um jólin kom hún með mér í friðargönguna á Þorláksmessu og við hlustuðum saman á Hamrahlíðarkórinn ofan í bæ. Halla var alltaf til í allt.

Varla er hægt að minnast ömmu Höllu án þess að hugsa fallega til Bjargar, móður Randvers. Þær voru yfirleitt saman í öllum sælkeraboðum hjá Guðrúnu og Randveri. Varla fór maður svo heim að Björg hefði ekki hjálpað manni með eitthvert prjónles og ekki fór maður svo frá Höllu að hún hefði ekki sýnt manni gamla fallega handavinnu djúpt innan úr einhverjum skápnum.

Halla Björg, elsta barnabarn Höllu, ber nafnið með rentu. Blessuð sé minning tveggja yndislegra díva. Sagan verður aldrei öll sögð. Nikulás okkar dó í október 2010. Sl. ár hefur hann dúkkað meir og meir upp í vitund Höllu, þrátt fyrir málstol og dvínandi mátt.

Farvel elsku Halla og takk fyrir allt.

Elísabet Berta Bjarnadóttir.

Halla, mín kæra vinkona, er fallin frá eftir óvænt áfall, sem skerti lífsgæði hennar mikið það sem hún átti eftir ólifað. Óbilandi kjarkur hennar, lífslöngun og baráttuvilji hjálpaði henni mikið og vakti aðdáun allra sem til þekktu.

Ég kynnist Höllu fyrir 56 árum, þegar maðurinn minn kynnti mig fyrir henni, en hann og Þórður, maður Höllu, voru vinnufélagar og miklir vinir og taldi minn maður nauðsynlegt að ég kynntist þessari frábæru konu. Þar var strax lagður grunnur að þeirri vináttu, sem aldrei síðar bar skugga á, og áttum við margar góðar stundir saman, sem ég minnist nú með þakklæti og söknuði. Halla var einstök kona, jákvæð, glaðlynd, hjálpsöm, trú og trygg. Hún hafði gaman af hannyrðum og voru þær ófáar fallegu peysurnar, sem hún prjónaði, enda átti hún ekki langt að sækja þennan hæfileika, því móðir hennar var sannkölluð listakona í vefnaði.

Halla var að eðlisfari lífsglöð og naut sín í góðum gleðskap og elskaði að dansa. Hún hafði einnig mjög gaman af því að ferðast, hvort heldur hér heima eða erlendis. Útivist og útilegur voru henni að skapi og hafði hún gaman af því að rifja upp minningar frá æskuárum sínum, sem tengdust gjarnan skautadansi á Tjörninni eða skíðaferðum í nágrenni Reykjavíkur, sem útheimti bæði dugnað og þrek í þá daga.

Eiginmenn okkar byrjuðu með bridgespilaklúbb og á árunum sem á eftir fylgdu fóru spilafélagar, ásamt konum, í skemmtilegar ferðir saman til Spánar, Ítalíu og Írlands.

Það gat verið skemmtiefni út af fyrir sig, árum síðar, að rifja upp spaugileg atvik úr þeim ferðum. Öll vorum við ung og lífsglöð í þá daga.

Elsku Halla, á þessari stundu er ljúft að geta yljað sér við góðar og skemmtilegar minningar liðinna ára. Ég kveð þig með þakklæti fyrir vináttu þína og tryggð.

Hvíl í friði við hið eilífa ljós.

Að hryggjast og gleðjast

hér um fáa daga,

að heilsast og kveðjast.

– Það er lífsins saga.

(Páll J. Árdal)

Elsku Guðrún, Elísabet og Kjartan Þór, við Kolli sendum ykkur og fjölskyldum okkar innilegustu samúðarkveðju.

Þín

Kristín.

Ég varð hálfhræddur þegar ég sá Höllu í fyrsta skipti. Það var í anddyrinu á Giljaselinu einhvern tíma í janúar fyrir 36 árum, og ég nýbyrjaður að bera mig upp við dóttur hennar. Svipurinn var strangur og ég held hún hafi efast örlítið um þennan strákgemling sem hún horfði á. Hún tók mig þó fljótt í sátt og nokkrum mánuðum seinna var ég fluttur inn í herbergið til Elísabetar og orðinn heimilismaður hjá Höllu. Halla elskaði fólkið sitt og bætti mér einfaldlega í þann hóp og umvafði mig þeirri ást og hlýju sem hún átti gnægð af fyrir allt sitt fólk.

Halla var forkur til vinnu. Hún var eins og margar konur af sinni kynslóð um langt skeið heimavinnandi húsmóðir en fór aftur á vinnumarkað þegar börnin stálpuðust. Hún vann um áratugaskeið á gæsluvöllum Reykjavíkurborgar þar sem eldri ömmubörnin áttu ófáar gæðastundir með henni. Og ávallt var hún boðin og búin að lengja þær samverustundir þegar foreldrarnir ílengdust við nám og vinnu. Höllu þótti ekki bara vænt um sín eigin börn og afkomendur, öll börn sem voru í hennar umsjá á gæsluvöllunum eignuðust stað í hjarta hennar og henni varð tíðrætt um þau. Ljómaði þá andlit hennar títt.

Fljótlega eftir að Halla hætti að vinna riðu áföll yfir. Þórður, tengdafaðir minn, varð fyrir áfalli sem gerði honum ókleift að búa heima. Giljaselið var selt og Halla flutti í Skálaheiði og tókst á við nýjan veruleika. Halla fékk síðan sjálf áfall um þremur árum seinna, 72 ára gömul. Þá sást vel úr hverju Halla var gerð. Heim komst hún þrátt fyrir helftarlömun og lifði innihaldsríku lífi þar sem allar áskoranir voru til þess eins að vaða yfir þær. Hún keyrði bíl fram á níræðisaldur, ferðaðist ein á milli landa þrátt fyrir takmarkaða getu til að tjá sig og var jafnan búin að þrífa íbúðina sína áður en heimaþjónustan kom sem átti að sinna þeim verkum. Halla varð svo fyrir öðru slæmu áfalli þegar hún mjaðmagrindarbrotnaði illa fyrir um átta árum á ferðalagi erlendis. Endurhæfingin var erfið og tvísýn en aftur komst Halla heim og var farin að þrífa skápa og hengja upp gardínur við lítinn fögnuð okkar aðstandenda. „Passaðu þig Halla, þú mátt ekki detta“ heyrðist þá oft og hún svaraði „ég get ekki dottið“.

Loks kom þó að því að Halla gat ekki lengur búið ein heima. Dvaldi hún fyrst um nokkurra mánaða skeið við gott atlæti á Vífilsstöðum en átti síðustu fjögur árin gott heimili á hjúkrunarheimilinu Seltjörn þar sem hún var í hópi fyrstu íbúa.

Halla var ein af þessum gæðamanneskjum sem auðga líf allra sem þær snerta. Hún elskaði fjölskyldu sína takmarkalaust, sá alltaf það besta í öllu fólki og var helst að gæti hvesst hjá henni ef einhver álpaðist til að segja eitthvað misjafnt um eitthvað af hennar fólki. Hennar verður sárt saknað.

Einar Gunnarsson.