Sjónarhorn
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mlb.is
Stjórnmálamenn eru engan veginn upp á sitt besta þegar þeir fara að ímynda sér að það sé þeirra hlutverk og nánast siðferðileg skylda að ala þjóð sína upp. Þetta hendir oft stjórnmálamenn á vinstri væng stjórnmála. Ástæðan er einföld, þótt þeir meini yfirleitt fjarska vel byggist hugmyndafræði þeirra um of á forsjárhyggju og pólitískum rétttrúnaði. Þannig þykir þeim nauðsynlegt að hafa vit fyrir fólki og segja því hvernig það eigi að hegða sér. Það er þessi tegund stjórnmálamanna sem er einmitt líkleg til að líta svo á að margan vanda megi leysa með því að senda fólk á námskeið og endurmennta það þar á skjótan og skilvirkan hátt.
Því miður fékk forsætisráðherra þessa hugmynd á dögunum. Katrín Jakobsdóttir hefur reynst góður og traustur forsætisráðherra og í aðalatriðum haft skynsemi að leiðarljósi í störfum sínum en forsjárhyggjan á hins vegar til að blinda hana, rétt eins og flokksfélaga hennar. Nú hefur það gerst enn einu sinni með þeim afleiðingum að hún vill að kjörnir fulltrúar og opinberir starfsmenn verði settir á námskeið til að fræðast um hatursorðræðu. Ekki fylgir sögunni hvað gert verði við þá sem eru svo forhertir að þeir einfaldlega skrópa á námskeiðinu eða hreinlega harðneita að mæta. Varla er hægt að draga þá gólandi inn í salinn. Aðrir möguleikar eru hins vegar í boði. Einn er sá að veita skrópurunum áminningu og gera þeim skylt að sækja námskeiðið innan þriggja vikna eða ella sæta brottrekstri úr starfi. Slíkt væri hugsað sem víti til varnaðar fyrir þá sem hefðu gælt við tilhugsunina um að láta sig vanta á þetta hugsjónamikla námskeið forsætisráðherra.
Ýmsar aðferðir nýtast til að þoka heiminum í betri átt en maður hefði nú haldið að það að skylda fólk á námskeið væri ekki hentugasta leiðin til þess. Svo er eitthvað nánast stalínískt við þessa hugmynd og gott ef mynd Maós framkallast ekki líka um leið í höfði manns. Líklegt er þó að flokksfélagar Katrínar Jakobsdótttur, sem margir hverjir hafa gagnrýnt hana fyrir ríkisstjórnarsamstarf sem hefur reynst farsælt, klappi hana nú upp og hvetji til frekari dáða þegar kemur að því að endurmennta þegnana og kenna þeim hvað þeir eigi að forðast.
Ef við samþykkjum að fara í þennan gír þá er enginn endir á þeim námskeiðum sem halda má til að einstaklingar temji sér góða siði og læri að hugsa á réttan hátt. Konur þurfa til dæmis of oft að þola að talað sé niður til þeirra, gert lítið úr verkum þeirra og þær hæddar og svívirtar. Hentugt gæti talist að byrja að vinna gegn þeirri hatursorðræðu strax í grunnskóla. Einhverjar einfaldar sálir myndu kannski halda að það væri best gert með að kynna kærleiksboðskap Krists fyrir börnunum. Þar er einmitt lögð rík áhersla á að breyta rétt, sýna náungakærleik og forðast hatur og heift. En hættum okkur ekki frekar út í hugleiðingar eins og þessa – við vitum öll að kristin siðfræði er ekkert of velkomin inn í skólastofuna, þar er upplýsandi fræðsla um hana talin jafngilda innrætingu.
Hinum vinstri sinnuðu stuðningsmönnum skyldunámskeiða þætti hins vegar örugglega nokkuð vel við hæfi að haldið yrði námskeið fyrir sex og sjö ára nemendur undir yfirskriftinni „Hvernig á að verða góður femínisti.“ Að námskeiði loknu fengju síðan allir þátttakendur verðlaunaskjal og trítluðu stoltir út, útskrifaðir sem litlir fyrirmyndarfemínistar.
Svo má halda áfram í anda vinstri grænna og sósíalista og velta fyrir sér hvort þeir betur settu í þjóðfélaginu, eins og til dæmis atvinnurekendur, forstjórar og aðrir „meðlimir auðstéttarinnar“ (svo vitnað sé í hina marxísku Sólveigu Önnu Jónsdóttur) hafi ekki gott af því að víkka sjóndeildarhring sinn. Þeir gætu til dæmis gert það með því að fjölmenna á námskeiðið „Hvernig öðlast á heilbrigða stéttarvitund og læra að virða verkalýðinn.“ - Hvað segirðu um það Halldór Benjamín?
Það eru ýmsar leiðir til að byggja upp gott og frjálslynt samfélag. Námskeiðshugmyndin er ein hugmynd af mörgum og er vitaskuld galin.