Liðsmenn Eflingar krefjast betri kjara í göngu í desember.
Liðsmenn Eflingar krefjast betri kjara í göngu í desember. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hinn kosturinn er náttúrlega að halda áfram á þeirri braut sem við erum, að gera Ísland að paradís fyrir ríka fólkið, sannkölluðu dekurlandi fjárfesta; landi með auðmjúku og þurftarlitlu vinnuafli.

Úr ólíkum áttum

Ögmundur Jónasson

ogmundur@ogmundur.is

Gerum smá tilraun: Reynum að gleyma ríkissáttasemjara eitt augnablik, hvað hann megi segja og gera og hvað ekki, og gleymum líka öllum deilum innan verkalýðshreyfingarinnar, hver móðgaði hvern og hvort það er yfirleitt rétt eða rangt að mismuna í launum eftir búsetu. Í stuttu máli, víkjum úr huganum nánast öllu því sem deilt er um og rifist í sambandi við boðað verkfall Eflingar. Látum það allt liggja á milli hluta - um sinn.

Ímyndum okkur þess í stað að við fáum það eitt að vita hvernig háttað sé tekjum á Íslandi, hver launin séu hjá háum sem lágum og síðan hverjir njóti arðgreiðslna úr atvinnurekstri, hvort sem er af fjármálastofnunum, útgerðarfélögum og hótelum eða öðrum rekstri og hve miklar þessar arðgreiðslur séu. Þær skipta ekki litlu máli eins og annað veifið kemur fram í fréttum.

Setjum sem svo að tekjudreifing hjá þjóðinni breytist lítið frá því sem nú er og þar með lífsstíll ólíkra tekjuhópa; lágtekjuhóparnir leiti áfram í ódýrasta húsnæðið, ódýrasta matinn og láti sér lynda ódýrustu afþreyinguna, en ríka fólkið komi á hinn bóginn áfram til með að byggja yfir sig lúxus, kaupa sér rándýra afþreyingu og aka um á tugmilljóna króna bílum. Þá er það engu að síður svo að jafnvel þeir sem eru sáttir við óbreytt ástand komast ekki hjá því að svara því hvernig hinum mismunandi tekjuhópum vegni í sinni tilveru, með öðrum orðum, hvort óbreytt ástand gangi yfirhöfuð upp.

Byrjum á hinum ríku. Ekki heyrast þeir kvarta opinberlega og samkvæmt sölutölum bílaumboða seljast rándýrir bílar grimmt eins og reyndar má sjá á götunum. Hið sama á við um lúxushúsnæði, það rennur út þrátt fyrir hátt húsnæðisverð og það sem meira er, hinir efnameiri virðast vera aflögufærir til að kaupa sér hlutabréf sem veita þeim arð í vasann. Með öðrum orðum, það gengur ljómandi vel upp að vera ríkur á Íslandi.

En hvað með hina fátæku, hvernig skyldi þeim ganga að lifa lífi hins fátæka manns? Og vel að merkja, við erum ekki að gera þá kröfu að þeir geti fjárfest í hlutabréfum, aðeins komist í öruggt húsnæði, geti keypt heilsusamlegt fæði og notið þó ekki væri nema lágmarksafþreyingar, sótt leikhús, keypt blöð og bækur, ferðast og borgað fyrir börnin í tónlist og fótbolta.
Hjá þessum þjóðfélagshópi kveður við allt annan tón. Láglaunamaðurinn þarf nefnilega að borga nær allar tekjur sínar í húsnæði, rafmagn og hita. Þá er eftir fæði og klæði. Ekkert er aflögu fyrir afþreyingu, þótt eins ódýr sé og hugsast getur. Með öðrum orðum, láglaunamaður sem starfar við þrif á hóteli er á of lágum launum til að dugi til framfærslu. Það gengur með öðrum orðum ekki upp að vera fátækur launamaður á Íslandi. Þess vegna var svo mikið að gera hjá hjálparstofnunum fyrir jólin.

Nú gefur auga leið að lágtekjufólkið vill bæta sinn hag til að geta framfleytt sér og börnum sínum á sómasamlegan hátt. Hvernig tökum við á móti slíkri kröfu? Hljótum við ekki að styðja hana? Og viljum við ekki gera betur, viljum við ekki að börn láglaunafólks á Íslandi njóti svipaðrar afþreyingar og börn efnafólks?

Ég leyfi mér að fullyrða að flestir Íslendingar vilji þjóðfélag þar sem þegnarnir búa við sem jöfnust lífskjör, þjóðfélag án efnalegrar og menningarlegrar stéttaskiptingar.
En hljótum við þá ekki að styðja kröfur um verulegar kjarabætur til hinna lægst launuðu? Og ef þetta er spurning um takmarkaða fjármuni til ráðstöfunar, verðum við ekki þá að setja auðsöfnun hinna ríku skorður, reisa kröfur á hendur þeim, ekki aðeins siðferðilegar heldur setja á þá lagalegar kvaðir, segja að ekki gangi meiri launamunur en einn á móti þremur, fái forstjórinn þrjár milljónir fái húsvörðurinn eina, og að arðgreiðslur verði skattlagðar svo um muni?

Hinn kosturinn er náttúrlega að halda áfram á þeirri braut sem við erum, að gera Ísland að paradís fyrir ríka fólkið, sannkölluðu dekurlandi fjárfesta; landi með auðmjúku og þurftarlitlu vinnuafli. Þessu hljótum við að hafna.

En er hægt að koma í veg fyrir að Mammon haldi áfram að skræla Ísland að innan og gera okkur að því stéttskipta samfélagi sem við flest höfum aldrei viljað vera? Að sjálfsögðu er það hægt. Ef hægt er að gefa frá okkur innviði samfélagsins í krafti pólitískrar kreddu þá er líka hægt að gefa þá kreddu upp á bátinn. Og ef nú er hægt að borga handhöfum Símans sextán milljarða í arð ofan á tugmilljarða arðgreiðslur í haust, eins og ekkert sé, og selja efnafólki lúxusíbúðir á hálfan milljarð, þá er hægt að borga þeim sem sjá um börnin þeirra í leikskólanum og þrífa veislusali þeirra, laun sem duga, ekki bara til framfærslu heldur til að lifa gefandi lífi.

Ég hvet alla til að leggjast á sveif með þessari hugsun, - henni til eflingar: Til eflingar Eflingu.