Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:
Tryggðavinur valinn er.
Vanskapningur er til sanns.
Mikill sá á velli ver.
Vopn í hendi fornkappans.
Harpa á Hjarðarfelli svarar:
Hann er tryggðatröllið hér
Tröll er vanskapningur.
Tröll að vexti talinn er
Tækið bryntröll stingur.
Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:
Vinur tryggðatröllið er.
Tröll er ófreskja til sanns.
Tröll er risavaxinn ver.
Vopn er bryntröll fornkappans.
Þá er limra:
Frónbúa fjöld var á pöllum
og fögnuður mikill hjá öllum,
uns allt fór í steik
og við áttum ei „breik“
gegn ungverskum handboltatröllum.
Þá er ný gáta eftir Guðmund:
Líkt og fljótin ósi að
áfram streyma í Morgunblað
vetur, sumar, vor og haust
vísnagátur endalaust:
Vofa sést á sveimi hér.
Síðan grind í hliði er.
Á velli steinn, sem laskar ljá.
Letingi er piltur sá.
Hér eru fjórar vísur undir hættinum stuðlafall eftir Pál Jónasson á Hlíð á Langanesi:
Engum bönnuð, öllum sönn er gleðin,
meðan könnu öl er á
öllum mönnum veita má.
Hún er breima, hún leit dreymin á‘ann,
þennan teyma ætlar hún inn
upp á heimaskeiðvöllinn.
Ég er einn og ég er seinn í förum
ekki neinn mig yrðir á
eins og steinn ég þegja má.
Hann er þreyttur, hann er breyttur maður,
æru reyttur aldinn fýr
ekki neitt í kolli býr.
Sturla Friðriksson lagði af stað úr Jökuldal:
Beisli tökum, bagga og plögg,
bindum, slök er gjörðin.
Hylur Jökuldalinn dögg,
deyfurök er jörðin.
Gömul staka:
Með fríðri mey að festa blund,
fáka að teygja um slétta grund,
beita fleyi í byr um stund
bragnar segja að kæti lund.