Elva Hrönn Hjartardóttir
Elva Hrönn Hjartardóttir
Elva Hrönn Hjartardóttir, starfsmaður verkalýðsfélagsins VR, gefur kost á sér í embætti formanns félagsins í kosningum til formanns og stjórnar sem haldnar verða í mars. Frá þessu greinir Elva í tilkynningu og skorar þar með á hólm sitjandi formann, …

Elva Hrönn Hjartardóttir, starfsmaður verkalýðsfélagsins VR, gefur kost á sér í embætti formanns félagsins í kosningum til formanns og stjórnar sem haldnar verða í mars.

Frá þessu greinir Elva í tilkynningu og skorar þar með á hólm sitjandi formann, Ragnar Þór Ingólfsson, sem áður hefur tilkynnt að hann sækist eftir að leiða félagið áfram.

Í tilkynningunni segir að Elva Hrönn sé stjórnmálafræðingur að mennt og hafi starfað sem sérfræðingur á þróunarsviði í VR síðan í byrjun desember 2019, við markaðs- og upplýsingamál og fleira.

„Verkalýðsmál hafa alltaf verið Elvu Hrönn hugleikin en hún hóf vegferð sína í VR sem trúnaðarmaður árið 2013 og sat jafnframt í trúnaðarráði 2014-2015, auk þess sem hún var varamaður í stjórn Landssambands íslenzkra verzlunarmanna árið 2015. Hún hefur verið formaður alþjóðanefndar ASÍ síðastliðin tvö ár,“ segir í tilkynningunni.

Tekið er fram að hún þekki VR, málefnin og verkalýðshreyfinguna vel og brenni fyrir hagsmunastarfi í þágu launafólks.

„Hún vill með framboði sínu gefa félögum færi á að velja formann félagsins enda byggist félagið á lýðræðislegum grunni. Hún leggur áherslu á að þau mikilvægu mál sem núverandi formaður VR hefur haldið uppi, líkt og húsnæðis-og lífeyrismál og kjör hinna lægst launuðu, fái áfram brautargengi.

Elva Hrönn er gift Andra Rey Haraldssyni, formanni Félags íslenskra rafvirkja og starfskrafti Ákvæðisvinnustofu rafiðna.