Úr bæjarlífinu
Sigmundur Sigurgeirsson
Selfossi
Gestir sundlaugarinnar á Selfossi eru fegnir að geta notið heitu pottanna á nýjan leik en í kuldakastinu í desember og janúar var þeim lokað á tímabili en nú er allt komið í réttar skorður. Raunar var það eldsvoði í dæluskúr hitaveitunnar sem olli því að loka þurfti sundlauginni í nokkra daga í desember, og eftir brunann kom brunagaddur með þeim afleiðingum að skammta þurfti heitt vatn til kyndingar á Selfossi sem víðar.
Eins og landsmenn vita stóð kuldakastið yfir óvenju lengi og það var ekki fyrr en eftir miðjan síðasta mánuð sem gestir gátu farið að komast í hefðbundið morgunsund í lauginni með tilheyrandi heimsókn í pottinn. „Það er alveg ótrúlega stór hópur sem hefur þessa rútínu að koma hér á hverjum einasta degi og það var þeim vissulega nokkuð erfitt að geta ekki komið til okkar á meðan við urðum að hafa lokað,“ segir Magnús Sveinsson, forstöðumaður sundlaugarinnar. En nú er þetta komið í lag og gestir, líkt og heita vatnið, streyma í laugina.
Nú er búið að fylla alls 48 af þeim 60 rýmum sem eru í nýju hjúkrunarheimili á Selfossi, sem ber heitið Móberg. Starfsemi hófst þar í september og að sögn Díönu Óskarsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, sem rekur heimilið, eru um 40 stöðugildi sem þarf að fylla í heild við heimilið. Er þar bæði um að ræða fullar stöður og hlutastörf. Segir Díana að verið sé að fylla í stöðurnar og þess sé ekki lengi að bíða að hægt verði að taka á móti íbúum í þau tólf rými sem nú eru ónýtt.
Alls 40 pláss í Móbergi eru ætluð undir íbúa sem koma af höfuðborgarsvæðinu í sérstöku samstarfi HSU við Landspítalann þar sem lagt er upp með að létta á svokölluðum fráflæðivanda við Landspítalann. Er það verkefni ætlað til þriggja ára og eru ríflega 30 rými nýtt fyrir íbúa af höfuðborgarsvæðinu nú þegar.
Bæjarstjórn Árborgar ákvað á fundi sínum í vikunni að lækka laun bæjarfulltrúa og nefndarmanna á vegum sveitarfélagsins um fimm prósent og jafnframt að engar hækkanir verði á launum á þessu ári. Níu af ellefu bæjarfulltrúum samþykktu þessar tillögur en fulltrúar Samfylkingarinnar greiddu atkvæði á móti. Með lækkuninni er ætlað að spara megi rúma 21 milljón króna á ári. „Þetta er skref í því að ná tökum á rekstri sveitarfélagsins,“ segir Bragi Bjarnason formaður bæjarráðs og oddviti D-listans í bæjarstjórn. Hann segir að búast megi við frekari sparnaðaraðgerðum á næstunni.
„Við erum bara á þeim stað að þurfa að skoða allar mögulegar leiðir í þeim efnum og erum í mikilli vinnu við það í góðu samráði við okkar starfsfólk,“ segir Bragi. „Við horfum til ýmissa tækifæra framundan,“ bætir hann við aðspurður um hver næstu skref verði í sparnaði og niðurskurði. Líkt og áður sagði lögðust fulltrúar Samfylkingarinnar gegn tillögunum, og í greinargerð með atkvæðum þeirra segir að tillagan sé órökstudd og ekki sé nema rétt ár síðan bæjarfulltrúar hafi í sameiningu breytt reglum um launakjör bæjarfulltrúa og nefndarmanna og á þeim tíma hafi bæjarfulltrúum fjölgað og verkefnum og vinnuálag aukist með fjölgun íbúa.
„Það skýtur líka skökku við að á sama tíma og flest hagsmunasamtök launþega eru að semju um launahækkanir fyrir sína félagsmenn á bilinu 6-7 prósent í 10 prósent verðbólgu þá eiga bæjarfulltrúar og nefndarfólk að taka á sig launalækkun,“ segir í ályktun bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar.
Björgvin Jóhannesson hefur verið ráðinn hótelstjóri Hótel Selfoss, en nýir eigendur tóku nýverið við rekstri þess. Björgvin, sem er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, er ekki óreyndur í hótelrekstri en hann var um árabil hótelstjóri Hótel Kötlu á Höfðabrekku í Mýrdal, hvaðan hann er ættaður. Þá var hann einnig framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar í Efsta-dal um skeið og hefur sinnt forystustörfum í félagsstarfi ferðaþjónustuaðila um árabil. Það er eignarhaldsfélagið JAE sem er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur og nokkurra úr eigendahópi Eskju á Eskifirði sem keypti hótelið undir lok síðasta árs, en sami hópur hefur einnig nýverið keypt Hótel Vestmannaeyjar.
Stefán Þorleifsson, forstöðumaður Tónsmiðju Suðurlands, er í forsvari fólks sem stofnað hefur til umræðuvettvangs um bætta aðstöðu sviðslista í Árborg. Að sögn Stefáns er tilgangurinn að koma af stað umræðu um þá staðreynd að erfitt er að halda tónleika eða sýningar með góðu móti í sveitarfélaginu.
„Það sætir undrun að í svona stórum þéttbýliskjarna eins og Selfoss er, skuli ekki finnast viðunandi salur. Ef við lítum í kringum okkur á nágrannasveitarfélögin sem telja kannski undir þúsund íbúa má sjá virðuleg félagsheimili sem gætu hýst slíka tónleika með sóma. En það þýðir ekki að gráta það sem ekki er, heldur sjá hvort ekki sé hægt með samstilltu átaki að breyta þessu aðstöðuleysi sem við glímum við,“ segir Stefán í pistli þar sem hann fylgir stofnun hópsins úr hlaði. Hann vonast til að með stofnun hópsins komi fram hugmyndir að lausnum, því ekki verði lengur beðið.