Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur frestað heimsókn til Kína, sem fyrirhuguð var um helgina, vegna kínversks loftbelgs sem hefur svifið yfir Bandaríkjunum síðustu daga. Bandaríkjamenn telja að um sé að ræða njósnaloftbelg en Kínverjar fullyrða að um sé að ræða veðurrannsóknabelg sem hafi borið af leið.
Blinken og Joe Biden Bandaríkjaforseti eru sagðir hafa tekið ákvörðun í gær um að fresta heimsókninni. Bandarískur embættismaður, sem baðst nafnleyndar, sagði við AFP-fréttastofuna að Blinken myndi fara til Kína „þegar aðstæður leyfa.“ Hann sagði að deilan um belginn hefði óhjákvæmilega haft áhrif á fyrirhugaða fundi Blinkens með kínverskum embættismönnum en sagðist jafnframt telja að samtöl við Kínverja muni halda áfram þrátt fyrir þetta.
Belgurinn sveif yfir Aleut-eyjar í norðanverðu Kyrrahafi, inn í kanadíska lofthelgi og síðan inn í bandaríska lofthelgi fyrir nokkrum dögum en bandarískar eftirlitsstofnanir höfðu fylgst með ferðum hans áður en það gerðist. Loftbelgurinn fór meðal annars yfir norðvesturhluta Bandaríkjanna þar sem eru nokkrar herstöðvar og kjarnorkuflaugageymslur. Að sögn bandarískra fjölmiðla er belgurinn á stærð við þrjár stórar rútur og svífur í mikilli hæð ofan við leiðir áætlunarflugvéla.
Biden bað þarlend hermálayfirvöld að meta til hvaða ráðstafana ætti að grípa vegna belgsins og í kjölfarið íhuguðu Lloyd Austin, varnarmálaráðherra, og aðrir embættismenn hvort skjóta ætti belginn niður en niðurstaðan varð sú, að sögn háttsetts embættismanns sem vildi ekki láta nafns síns getið, að brak úr hnettinum gæti valdið tjóni á jörðu niðri. Þá væri ekki talið, að belgurinn ógnaði öryggi almennra borgara.
„Augljóslega er belgurinn ætlaður til eftirlits,“ sagði embættismaðurinn við AFP-fréttastofuna en bætti við að varnarmálaráðuneytið teldi ekki að upplýsingar, sem aflað kann að hafa verið með belgnum, séu viðkvæmar. En Kínverjum hefði verið gert ljóst að Bandaríkin litu málið alvarlegum augum. „Við höfum sagt það skýrt, að við munum grípa til nauðsynlegra aðgerða til að vernda íbúa landsins.“
Utanríkisráðuneyti Kína sagði hins vegar í yfirlýsingu að belgurinn væri borgaralegt rannsóknartæki sem aðallega væri ætlað til veðurfræðirannsókna og sagðist harma að hann hafi farið inn í bandaríska lofthelgi en belginn hefði borið langt af leið vegna óvæntra háloftavinda.
Ætlaði að hitta Xi Jinpeng
Til stóð að Blinken færi til Kína um helgina í fyrstu heimsókn bandarísks utanríkisráðherra þangað frá árinu 2018 og var gert ráð fyrir að hann myndi eiga fundi með Xi Jinpeng, forseta Kína, og fleiri embættismönnum um ýmis mál. Samskipti ríkjanna hafa verið stirð að undanförnu vegna deilna um Taívan, hugverk og viðskipti. Bandaríkin hafa selt Taívanbúum vopn og Biden hefur sagt að bandarísk stjórnvöld muni taka þátt í vörnum eyjarinnar, verði á hana ráðist.
Loftbelgir eru gamalreynd og tiltölulega ódýr njósnatæki sem geta verið lengi á flugi. Kínverjar hafa áður sent njósnabelgi yfir Bandaríkin en þeir hafa ekki verið jafn lengi inni í bandarískri lofthelgi og þessi.