Mikil upphefð Óperusöngvarinn Gunnar Guðbjörnsson hlaut Grammy-verðlaun árið 2003 en frétti fyrst af því á dögunum.
Mikil upphefð Óperusöngvarinn Gunnar Guðbjörnsson hlaut Grammy-verðlaun árið 2003 en frétti fyrst af því á dögunum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Ég hafði ekkert heyrt af þessu, aldrei nokkurn tímann, og var óneitanlega hissa. Þetta er auðvitað bráðfyndið. Maður er náttúrlega söngvari með athyglisbrest og þetta er augljós sönnun fyrir því,“ segir Gunnar Guðbjörnsson óperusöngvari.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Ég hafði ekkert heyrt af þessu, aldrei nokkurn tímann, og var óneitanlega hissa. Þetta er auðvitað bráðfyndið. Maður er náttúrlega söngvari með athyglisbrest og þetta er augljós sönnun fyrir því,“ segir Gunnar Guðbjörnsson óperusöngvari.

Gunnar uppgötvaði fyrir tilviljun á dögunum að upptaka á óperunni Tannhäuser eftir Wagner sem hann tók þátt í upp úr aldamótunum hlaut á sínum tíma Grammy-verðlaunin sem besta óperuupptakan árið 2003. Þar söng Gunnar hlutverk Walthers von der Vogelweide. Upptakan var gerð fyrir Teldec en upptökur þess útgáfufyrirtækis eru í dag í eigu Warner Music Group og segir Gunnar að upptakan sé fáanleg undir þess merki.

„Ég hefði gjarnan viljað vita af þessu fyrir 20 árum síðan. Þá var maður á fullu í bransanum og að markaðssetja sig,“ segir Gunnar sem var að grúska á netinu þegar hann rakst á þessa upphefð sem hann hafði aldrei fengið nokkurt veður af. Grammy-verðlaunin eru, sem kunnugt er, einhver mesta upphefð sem tónlistarfólki getur hlotnast.

Gunnar segir í samtali við Morgunblaðið að hlutverk sitt sé ekki eitt af þeim stærstu í upptökunni og því hafi nafn hans eflaust ekki verið nefnt þegar verðlaunin voru kynnt á sínum tíma. Auk þess voru þá aðrir tímar og fiskisagan flaug kannski jafn fljótt og víða og gerist í dag. Hins vegar var nafn hans oft nefnt í auglýsingum fyrir diskinn og í gagnrýni. Rétt er að geta þess að upptakan er um fimm klukkutímar að lengd og þó að Gunnar hafi ekki verið í burðarhlutverki var hann síður en svo í einhverju smáhlutverki. „Meira að segja litlu hlutverkin eru löng,“ segir Gunnar í léttum tón, en mjög nákvæm og vönduð vinnubrögð voru viðhöfð við upptökurnar að hans sögn. „Maður var sóttur að morgni, það er hefðin hjá stóru fyrirtækjunum. Hver sena var tekin upp 10-15 sinnum enda voru þeir ekki mikið fyrir það að klippa. Því fóru heilu dagarnir í hverja senu. Það er ótrúlegt að rifja upp þessa upptökudaga,“ segir Grammy-verðlaunahafinn.

Á þessum tíma var Gunnar fastráðinn við Ríkisóperuna í Berlín og var í fantaformi á þessari upptöku. „Já, ætli það megi ekki segja að þetta sé einn af toppunum. Þessi Berlínarár voru frábær, þetta voru stóru árin mín í bransanum og ég er mjög þakklátur að hafa fengið að vera þarna.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon