Sniðugur Glover hefur veg og vanda af Atlanta.
Sniðugur Glover hefur veg og vanda af Atlanta. — AFP/Frederic J. Brown
Það var mikið fagnaðarefni þegar sjónvarpsþáttaröðin Atlanta vaknaði úr löngu dái á síðasta ári. Þættirnir hófu göngu sína árið 2016 og kom önnur sería út árið 2018. Þriðja sería hófst hins vegar ekki fyrr en rétt tæplega fjórum árum síðar, síðastliðið vor

Gunnar Egill Daníelsson

Það var mikið fagnaðarefni þegar sjónvarpsþáttaröðin Atlanta vaknaði úr löngu dái á síðasta ári. Þættirnir hófu göngu sína árið 2016 og kom önnur sería út árið 2018.

Þriðja sería hófst hins vegar ekki fyrr en rétt tæplega fjórum árum síðar, síðastliðið vor. Kórónuveirufaraldurinn hefur eins og gefur að skilja séð til þess að svo langt leið á milli annarrar og þriðju seríu. Var það því sérlega vænt að aðeins fjórir mánuðir liðu á milli þriðju og fjórðu seríu. Allar fjórar seríurnar má finna á Disney+streymisveitunni.

Ég er að vísu einungis hálfnaður með þriðju seríu sem stendur, en svo það komi nú fram eru þetta einhverjir frumlegustu og skemmtilegustu þættir sem ég hef nokkru sinni séð. Donald Glover skóp þættina og leikur eitt aðalhlutverkanna. Þættirnir segja frá daglegu lífi nokkurra vina í Atlanta og oft súrrealískum og yfirgengilega fyndnum aðstæðum sem þeir lenda í.

Glover virðist hafa fengið fullkomið frjálsræði við þáttagerðina þar sem nokkrir þættir í hverri seríu eru fullkomnir útúrdúrar, alveg sjálfstæðir og tengjast ekkert aðalsöguþræðinum. Um er að ræða sjálfstæðar stuttmyndir og eru þær litlu síðri en „venjulegu“ þættirnir, og í nokkrum tilvikum hreinlega betri.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson