Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson
„Þetta er ágætis búbót,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson í Vinnslustöðinni í Eyjum, betur þekktur sem Binni, um loðnuráðgjöfina sem Hafrannsóknastofnun birti í gær. Lagði stofnunin til að loðnukvóti yrði aukinn um 57 þúsund tonn frá ráðgjöf síðan í október sl

Gunnlaugur Snær Ólafsson

Dóra Ósk Halldórsdóttir

„Þetta er ágætis búbót,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson í Vinnslustöðinni í Eyjum, betur þekktur sem Binni, um loðnuráðgjöfina sem Hafrannsóknastofnun birti í gær. Lagði stofnunin til að loðnukvóti yrði aukinn um 57 þúsund tonn frá ráðgjöf síðan í október sl. Er nú mælt með 275 þúsund tonna loðnukvóta, sem er aukning um 26%. Þar af koma um 182 þúsund tonn í hlut Íslendinga.

Miðað við þann kvóta sem íslenskar útgerðir fá má ætla að verðmæti þess afla geti orðið 30-35 milljarðar króna, samkvæmt upplýsingum blaðsins.

Fram kemur í tilkynningu á vef Hafrannsóknastofnunar að ráðgjöfin byggist á samanteknum niðurstöðum á mælingum á stærð veiðistofns í haustleiðangri (763 þús. tonn) og leiðangri sem fór fram dagana 23.-30. janúar síðastliðinn (732 þús. tonn).

Stefndi í lítinn kvóta í október

Ráðgjöfin í október sl. var töluverð vonbrigði þar sem um var að ræða 45,4% samdrátt miðað við upphafsráðgjöf en hún nam 400.000 tonnum og byggðist á magni ókynþroska loðnu í haustmælingum 2021. Vegna þessa mikla misræmis milli mælinga var ákveðið að bíða ekki fram að vetrarmælingu í janúar og var haldið í aukaleiðangur í desember. Sú stofnmæling skilaði ekki marktækum niðurstöðum þar sem loðnan hafði ekki hafið göngu sína og hélt sig enn undir hafísnum. Var því ekki hægt að endurskoða ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar á þeim grundvelli.

Þann 23. janúar létu síðan fimm skip frá bryggju og héldu til mælinga á stærð loðnustofnsins. Bæði skip Hafrannsóknastofnunar tóku þátt, Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson, auk þriggja skipa uppsjávarútgerða; Heimaeyjar frá Vestmannaeyjum, Jónu Eðvaldsdóttur og Ásgríms Halldórssonar frá Hornafirði. Niðurstöður þess leiðangurs eru, eins og fyrr segir, grundvöllur endurskoðaðrar ráðgjafar.

Verðmæti og markaðir

Þegar Binni er spurður hvort hann telji að þeir nái að veiða allan kvótann telur hann svo vera. „Já, ég held við værum nú ansi slappir ef við næðum því ekki,“ segir hann.

Óvissa um loðnukvótann er árlegur viðburður og Binni segir að það þurfi bara að búa við það ástand. „Loðnan er sveiflukenndur fiskur í magni. Stundum eru góð ár og stundum slæm.“ Binni segir að það erfiðasta við óvissuna og sveifluna í loðnukvótanum tengist viðskiptavinunum.

„Þetta er mjög verðmæt vara og það eru líka verðmæti að halda markaði lifandi, eins og í Japan fyrir hrygnu og í rússneskumælandi löndunum fyrir hæng. En Austur-Evrópa er svolítið erfið fyrir okkur núna og við getum ekki flutt mikið þangað. Auðvitað fellur Úkraína í þann hóp að neyta þessarar vöru, en þeir hafa hvorki vinnslugetu né greiðslugetu, þannig að þetta er allt svolítið snúið hjá þeim,“ segir Binni.

„Svo eru það loðnuhrognin sem eru mjög tengd japönskum veitingahúsum um allan heim. Það er eiginlega það neikvæða við þessar sveiflur. Það er erfitt að segja neytendum að stundum sé varan til og stundum ekki. En það er samt gangur lífsins,“ segir hann og bendir á að ekki séu sömu sveiflurnar í öðrum tegundum eins og þorski. „Það er langlífari fiskur og þannig séð auðveldari.“

Á miðin upp úr næstu helgi

En hvenær skyldu íslensku loðnuskipin halda til veiða? „Ég held að við förum að veiða um það leyti sem loðnan fer að ganga hérna vestur með suðurströndinni frá Hornafirði. Ég vil nú vera brattur og segja að veiðarnar hefjist upp úr næstu helgi,“ sagði Binni að endingu í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson