Mast Höfuðstöðvar Matvælastofnunar eru á Selfossi.
Mast Höfuðstöðvar Matvælastofnunar eru á Selfossi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Eftirlit Matvælastofnunar sýndi fram á að nautgripir á bæ á Norðurlandi sem Dýraverndunarsamband Íslands (DÍS) hefur vakið athygli á, voru hvorki í neyð né horaðir. Kemur þetta fram í athugasemd Mast vegna fréttatilkynningar DÍS þar sem fram kom að…

Eftirlit Matvælastofnunar sýndi fram á að nautgripir á bæ á Norðurlandi sem Dýraverndunarsamband Íslands (DÍS) hefur vakið athygli á, voru hvorki í neyð né horaðir. Kemur þetta fram í athugasemd Mast vegna fréttatilkynningar DÍS þar sem fram kom að ástand og aðbúnaður dýra á bænum væri slæmur og dýr væru í nauð.

Dýraverndunarsambandið hefur fengið ábendingar og séð myndir sem sýna að þeirra mati að ástand og aðbúnaður dýranna sé mjög slæmur. Búfénaður sé horaður og standi skítugur í mykju upp að hnjám. „Dýrahald eins og lýst er hér á engan rétt á sér,“ segir í tilkynningu DÍS og farið er fram á tafarlausar aðgerðir af hálfu yfirvalda (Matvælastofnunar) í málinu.

Fram kemur í athugasemd Matvælastofnunar að farið hafi verið í eftirlit á viðkomandi bæ 16. nóvember, vegna ábendingar sem barst um slæman aðbúnað nautgripa á bænum. Skráð var frávik um hreinleika nokkurra gripa og athugasemd við herðakambsslá. Önnur atriði reyndust i lagi. Þannig var ekki mikill skítur undir nautgripum og hálmur var á staðnum. Veittur var frestur til úrbóta. Eftir að önnur ábending barst var aftur farið til eftirlits 6. desember en ekki var tilefni til athugasemda. Þriðju ábendingunni var fylgt eftir með skoðun 30. janúar og niðurstaðan var sú sama.

Telur MAST að myndir sem DÍS vísar til gefi ekki rétta mynd af holdafari nautgripanna eða aðstæðum á bænum á umræddu tímabili. helgi@mbl.is