Aldraður Sleipnir frá Kronleiten er 42 vetra og meðal elstu Íslandshesta sem sögur fara af.
Aldraður Sleipnir frá Kronleiten er 42 vetra og meðal elstu Íslandshesta sem sögur fara af.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Sleipnir frá Kronleiten er meðal elstu Íslandshesta sem sögur fara af. Hann er 42 vetra og er við góða heilsu hjá eigendunum, systkinunum Peter og Barböru Hein í Bæjaralandi í Þýskalandi. Aldursmet íslenskra hesta virðist þó hryssan Tulle í Danmörku eiga, sem náði 56 ára aldri.

Viðtal

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Sleipnir frá Kronleiten er meðal elstu Íslandshesta sem sögur fara af. Hann er 42 vetra og er við góða heilsu hjá eigendunum, systkinunum Peter og Barböru Hein í Bæjaralandi í Þýskalandi. Aldursmet íslenskra hesta virðist þó hryssan Tulle í Danmörku eiga, sem náði 56 ára aldri.

Barbara Hein býr í þorpinu Eggstatt sem er skammt frá vatninu Chiemsee, ekki langt frá landamærum Þýskalands og Austurríkis. Faðir hennar var mikill Íslandsvinur og ræktaði íslenska hesta. Ræktunin er kennd við Kronleiten í Bæjaralandi. Barbara segist vera með fjóra íslenska hesta frá föður sínum sem er látinn. Meðal þeirra er Sleipnir (Sleipnier) sem hún segir að sé 42 ára og hefur fengið það staðfest hjá bróður sínum sem varðveitir gögn um ræktun föður þeirra.

Verða oft þrítugir

Sleipnir er fallegur, að sögn Barböru, brúnskjóttur og við góða heilsu þrátt fyrir háan aldur. Hann er til dæmis með allar tennur heilar. Hann er undan Heru frá Holtsmúla sem er undan Glæsi frá Sauðárkróki og hryssu frá Holtsmúla. Barbara hefur ekki upplýsingar um föður Sleipnis en segir að íslenskir vinir föður hennar hafi hjálpað honum við að finna góðan hest á Íslandi. Sleipnir virðist ekki hafa verið skráður í ættbók íslenska hestsins, World Feng. Hann hefur ekki verið notaður til útreiða í fimm ár, að sögn Barböru, en er þó stundum teymdur undir börnum.

Algengt er að íslensk hross nái 25 til 27 vetra aldri, án þess að heilsan bili, en þau geta vel orðið yfir 30 vetra. Við leit á netinu má finna frásagnir af hrossum sem náð hafa 38 vetra aldri. Á danskri vefsíðu um Íslandshesta segir að elsti íslenski hesturinn sem vitað er um sé hryssan Tulle í Danmörku. Hún hafi náð 56 vetra aldri. Næstelsti hesturinn hafi verið í Bretlandi og náð 42 vetra aldri. Gaman væri að heyra frá lesendum um það hvort vitað er um svona gömul hross af íslenska kyninu, annað hvort hér á landi eða erlendis.

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá MAST, segir að hér á landi verði hestar allt að þrítugir. Ekki hafi verið til siðs að láta hesta ganga alveg úr sér og deyja úr elli, ekki hafi þótt reisn yfir því. Menn hafi því fellt hestana áður en til þess hafi komið. Hún segir að þetta kunni að hafa breyst. Meira sé um það en áður að hestar verði mjög gamlir, fólki þyki erfitt að fella þá. Hún segir að gömul hross þurfi mikla aðhlynningu ef þau eigi að lifa. Þau séu komin í niðurbrotsferli og gangi á sig til að halda lífi. Þá sé yfirleitt gengið á tennurnar þannig að hrossin geti ekki tuggið sér til gagns. Sigríður segir að þótt undantekningar kunni að vera frá þessu verði að vara fólk við því að upphefja það þegar hestar verða mjög rosknir.

Íslandsvinir

„Fjölskyldan hefur haft íslenska hesta í fimmtíu ár og ég hef riðið út og unnið öll störf í kringum þá frá því ég var átta ára,“ segir Barbara. Hún hefur komið einu sinni til Íslands og eins og foreldrar hennar og fleiri áhugamenn um íslenska hestinn hreifst hún af landinu og fólkinu og eiga þau marga vini hér á landi.

Höf.: Helgi Bjarnason