Eins og greint er frá greininni hér fyrir ofan mun íslenska kvennalandsliðið í fótbolta leika sína fyrstu leiki á árinu 2023 á Pinatar Cup á Spáni 15.-21. febrúar. Andstæðingar Íslands verða Skotland, Wales og Filippseyjar.
„Mér líst vel á þetta mót. Þetta er fínt mót og fín leið til að byrja árið á þessum stað og á þessum tíma. Vonandi verður fínasta veður og góðar aðstæður,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, í samtali við Morgunblaðið.
Ísland hefur leik í nýrri Þjóðadeild síðari hluta árs. Með henni fjölgar keppnisleikjum íslenska liðsins við sterkari þjóðir og leikjum gegn lakari þjóðum fækkar á móti. Þorsteinn er ánægður með þá þróun.
„Það fækkar leikjum á móti slakari liðum, sem gefur þér oft á tíðum mjög takmarkað. Það er gott fyrir okkur að spila fleiri keppnisleiki á móti þjóðum sem eru á sama stað og við og jafnvel framar. Eins og staðan er núna eru þetta leikir á móti bestu liðum Evrópu og þeim liðum sem eru í kringum okkur. Við ætlum að nýta það vel að spila erfiða leiki,“ sagði Þorsteinn.
Fyrirkomulagið breytir þó væntanlega litlu um möguleika íslenska liðsins um að komast á lokamót EM og HM. Ísland verður að vinna lið að svipuðum styrkleika og áður til að komast á lokamótin.
„Mér sýnist þetta breyta litlu því þú þarft áfram að vinna liðin sem eru í kringum þig í goggunarröðinni. Það breytist ekki. Þú þarft alltaf að vinna lið sem eru í þriðja styrkleikaflokki og kannski einhver lið sem eru líka í öðrum styrkleikaflokki til að komast á lokamót. Það er í rauninni bara verið að fækka leikjunum sem vega minna,“ sagði hann.
Þrjú efstu lið Þjóðadeildarinnar tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í París á næsta ári. Þorsteinn er spenntur fyrir slíku, en viðurkennir að hann vilji mun frekar komast á lokamót HM í fyrsta sinn.
„Það væri gaman en við þurfum að ná mjög góðum úrslitum til að ná því. Það væri ákveðinn draumur, en ég spenntari fyrir að komast á lokamót HM en á Ólympíuleikana,“ sagði Þorsteinn.