Jenný og Eiríkur „Þjónustan sem við veitum er alls ótengd trú, þó við séum til húsa hér við Háteigskirkju.“
Jenný og Eiríkur „Þjónustan sem við veitum er alls ótengd trú, þó við séum til húsa hér við Háteigskirkju.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við bjóðum upp á ókeypis faglega aðstoð og sérúrræði fyrir fjölskyldur fanga. Þörfin er mikil, því það getur verið mjög andlega erfitt að vera aðstandandi fanga. Til dæmis þegar fólk er nýkomið úr afplánun og fer aftur inn í parasamband sitt og verður aftur hluti af fjölskyldulífinu

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Við bjóðum upp á ókeypis faglega aðstoð og sérúrræði fyrir fjölskyldur fanga. Þörfin er mikil, því það getur verið mjög andlega erfitt að vera aðstandandi fanga. Til dæmis þegar fólk er nýkomið úr afplánun og fer aftur inn í parasamband sitt og verður aftur hluti af fjölskyldulífinu. Að takast á við slíka stöðu getur verið mjög flókið fyrir alla á heimilinu. Ef viðkomandi hefur setið inni í mörg ár þá hefur margt breyst á meðan. Þau eru því mjög sértæk, vandamálin sem koma upp, bæði hjá börnum og fullorðnum,“ segja þau Jenný Magnúsdóttir og Eiríkur Steinarsson sem eru fjölskylduráðgjafar hjá Bjargráði, en svo heitir nýtt úrræði sem fór af stað sl. haust og ætlað er fyrir fjölskyldur fanga. Bjargráð er tilraunaverkefni til tíu mánaða og fjármagnað af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. „Bjargráð er fyrir fjölskyldur þeirra sem bíða afplánunar, þeirra sem eru í afplánun og þeirra sem komnir eru út eftir afplánun. Aðstandendum stendur til boða að koma frítt í viðtöl til okkar hér í Háteigskirkju, þar sem við erum til húsa hjá Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustu kirkjunnar. Vert er að taka fram að þjónustan sem við veitum er alls ótengd trú.“

Hvernig skal segja barni frá?

„Þetta er fjölskyldumeðferð en stundum kemur maki eða foreldri fanga fyrst í viðtal, svo bætast smám saman fleiri úr fjölskyldunni í hópinn. Við höfum stundum setið hérna saman, með fimm eða sex einstaklinga úr sömu fjölskyldunni, líka börnin, og þá höldum við utan um samtalið,“ segja þau Jenný og Eiríkur og bæta við að foreldri barna fanga þurfi oft ráðleggingar um hvernig segja skuli barni að pabbi sé að fara í fangelsi og verði í burtu, að hann hafi gert eitthvað af sér, brotið lög.

„Oftast er þetta móðir, því flestir fangar eru karlkyns, en við mælum alltaf með að ræða málið strax við börnin á eins hreinskilinn hátt og mögulegt er, miðað við aldur barns og þroskastig. Það er verra fyrir börn að frétta slíkt annars staðar frá, heldur en frá eigin fjölskyldu. Í kjölfarið getur móðirin komið með barnið hingað til okkar og við rætt þetta saman, jafnvel aðstoðað fólk við hvernig orða skuli þessa hluti við börnin.“

Að eiga pabba sem er fangi

Þegar Jenný og Eiríkur eru spurð að því hvað hvíli mest á aðstandendum fanga sem til þeirra leita, segja þau það vera afar misjafnt, enda sé ekkert viðtal eins, hver fjölskylda sé sérstök.

„Konur sem hafa skilið við fanga fyrir einhverjum árum og eiga barn með viðkomandi, hafa oft miklar áhyggjur af börnum sínum, þó allt sé í góðu lagi hjá þeim sjálfum og sumar kannski komnar í nýtt parasamband. Þær vilja fara yfir það með börnunum hvernig þeim líði með stöðuna og hvort þau vilji vera í sambandi við pabba sinn. Áríðandi er að reyna að koma í veg fyrir skömmina sem getur þjakað börn sem eiga föður sem er fangi eða fyrrverandi fangi. Skömmin er ekki aðstandenda, þeir bera ekki ábyrgð á gjörðum fangans, en skömmin er sannarlega ríkur þáttur hjá aðstandendum fanga. Eiginkonur fanga sem eiga börn með föngum í afplánun, koma til okkar í ráðgjöf því það koma upp mörg vandamál þegar einn einstaklingur innan fjölskyldunnar er tekinn í burtu í langan tíma.“

Finnst þeir hafa brugðist

Foreldrar fanga koma einnig í Bjargráð, þegar fullorðin börn þeirra eru í fangelsi, en fangar í afplánun eru yngstir 18 ára.

„Stundum er þetta mjög fullorðið fólk þar sem barn þeirra hefur kannski setið nokkrum sinnum í fangelsi. Slíkt er ekki auðvelt og þau leita ráða með hvernig þau eigi að takast á við þetta, hver sé ábyrgð þeirra þegar barnið, fanginn, er fullorðinn einstaklingur. Að vera foreldri fanga fylgir líka skömm og sektarkennd, þeim finnst þau hafa brugðist og spyrja sig stöðugt að því hvað þau gerðu rangt. Þar fyrir utan vill fólk síður ræða þessi viðkvæmu mál við aðra og tekur fegins hendi þessu úrræði okkar, að geta rætt við fagfólk. Fólk þarf einfaldlega að létta á sér og finnst gott að fá staðfestingu á að það er allt í lagi og eðlilegt að líða alls konar í þeim aðstæðum sem það er í. Uppkomin börn fanga leita einnig til okkar, þau sem eiga pabba í fangelsi, en það getur verið fólk um þrítugt eða fertugt og þá eru oftast líka komin afabörn til sögunnar.“

Margþætt áfall

Stundum bíða menn lengi eftir að komast í afplánun, jafnvel í heilt ár og það reynir á parasamband þeirra sem eru í slíku og það reynir líka á uppeldið ef börn eru á heimilinu.

„Þegar fjölskyldumeðlimur brýtur af sér og lendir í fangelsi og skilur hina í fjölskyldunni eftir heima, þá er það margþætt áfall. Fjármál og afkoma fara oft í uppnám þegar aðeins ein fyrirvinna verður eftir heima með börnin. Stundum hafa börnin orðið vitni að handtöku á heimilinu og þá þarf að vinna úr því. Ef fólk hefur orðið fyrir ofbeldi þá henta aðrir aðilar en við betur til að vinna með það. Ef þörf er á meiri og dýpri sálfræðimeðferð, þá beinum við fólki annað. Stundum getur Barnavernd aðstoðað, Bjarkarhlíð, Kvennaathvarfið eða félagsþjónustan.“

Heimsóknir til fanga

Þau Jenný og Eiríkur segja foreldra og aðra aðstandendur þeirra sem eru að afplána í fyrsta sinn, oftast ekki vita hvernig í ósköpunum takast eigi á við þær nýju og erfiðu aðstæður.

„Fólk veltir oft upp hvort það eigi að tala um þetta út á við eða ekki, hvað taki við þegar viðkomandi kemur úr afplánun og svo framvegis. Mörg þeirra sem koma til okkar hafa aldrei þurft að nýta sér þjónustu hjá félagslega kerfinu og þurfa upplýsingar um hvort og hvert sé hægt að sækja þjónustu, og hvaða aðstoð fari fram í fangelsum. Sumir vita jafnvel ekki að það megi heimsækja fanga.“ Jenný og Eiríkur hafa bæði unnið í opinberri stjórnsýslu og þekkja því kerfið vel.

„Við vitum að það er svið hjá fangelsismálastofnun þar sem eru sálfræðingar og félagsráðgjafar og geðsviðið hefur líka komið inn. Föngum stendur því ýmis þjónusta til boða, sem við bendum okkar skjólstæðingum á. Við höfum skoðað fangelsi landsins, utan Kvíabryggju, og séð heimsóknaraðstöðuna og fengið upplýsingar um hvernig fyrirkomulagið er á hverjum stað þegar fangi fær heimsókn. Þannig getum við upplýst okkar skjólstæðinga, svo fólk geti undirbúið sig sem best og dregið úr streitu, sérstaklega börnin, fyrir heimsókn til ástvinar í fangelsi.“

Styrkjum fólk andlega

Þau Jenný og Eiríkur segja starfið hjá Bjargráði vera mjög gefandi, þó vissulega sé sumt af því fólki, sem til þeirra komi, með töluverða áfallasögu.

„Oft eru þetta erfiðar sögur, en það er hluti af okkar vinnu að fara í gegnum áfallasögu fólks í þeirri fjölskyldumeðferð sem við veitum. Þegar fólk glímir við mikla streitu í eigin lífi vegna áfalla og ofan á það er einhver nákominn í fangelsi, þá styrkist fólk oft við að ræða málin og verður meira til staðar fyrir maka sinn. Sumir taka ákvörðun um að vera ekki áfram í sambandi við fangann, það fer oft eftir brotum viðkomandi, en þessu þarf öllu að velta upp. Mikilvægast er að við styrkjum fólk andlega í því sem það er að fást við hverju sinni. Við viljum að sem flestir viti af okkar þjónustu. Einn hópur sem við höfum ekki fengið til okkar, eru aðstandendur sem hafa alveg lokað á fanga í fjölskyldunni, sem oft eru síbrotamenn. Slík ákvörðun hlýtur að vera erfið fyrir alla, en stundum gerir fólk það til að verja sig. Fangar hafa líka hringt í okkur og beðið okkur um að hringja í foreldra sína.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir