Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Hannes Steindórsson, formaður Félags fasteignasala, telur það ekki munu hafa úrslitaáhrif fyrir fasteignamarkaðinn þótt Seðlabankinn hækki vexti um 0,5% á miðvikudaginn kemur. Síðustu vaxtahækkanir og hertar kröfur um greiðslubyrði hafi enda þegar haft mikil áhrif á eftirspurnina.
Fjallað var um vaxtaþróun í Morgunblaðinu í gær og væntingar um allt að 0,5% vaxtahækkun 8. febrúar. Seðlabankinn hefur hækkað meginvexti í síðustu tíu vaxtaákvörðunum sínum, frá maí 2021, en bankinn lækkaði vextina niður í sögulegt lágmark, 0,75%, í kórónuveirufaraldrinum. Átti það, ásamt takmörkuðu framboði á íbúðum, þátt í miklum verðhækkunum. Síðustu mánuði hefur markaðurinn hins vegar kólnað og telur Hannes þá spá sína vera að rætast að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu muni lækka um 3-5% milli ágúst 2022 og 2023. Þá miðað við nafnverð en m.t.t. tæplega 10% verðbólgu undanfarið er raunverðið að lækka meira.
„Þetta er í grunninn lítil breyting á fasteignaverði og holl fyrir markaðinn. Vaxtahækkanir hafa haft gríðarleg áhrif og sömuleiðis hertar reglur Seðlabankans við greiðslumat. Reglan um að afborgun af íbúðaláni megi ekki vera hærri en 35% af ráðstöfunartekjum hefur mikil áhrif. Hún þýðir að launþegi með 600 þúsund í ráðstöfunartekjur má að hámarki greiða 210 þúsund af láninu á mánuði.
Færri fá fjármögnun
Við sjáum áhrifin birtast á markaðnum. Fyrir ári síðan mátti gera ráð fyrir tíu kaupendum þegar nýtt raðhús kom í sölu á 140 milljónir. Nú hefur þeim fækkað um helming. Hinir fimm standast ekki lengur greiðslumatið. Það má ætla að upp undir 12% af kaupendum séu að falla á fjármögnun vegna 35%-reglunnar. Greiðslubyrðin hjá lántökum með óverðtryggð lán hefur enda hækkað gríðarlega. Það er algengt að greiðslur slíkra lána hafi hækkað um 40 til 100 þúsund á mánuði,“ segir Hannes.
Verktakar hafa sagt Morgunblaðinu að algengt sé að foreldrar styðji við fyrstu kaup barna sinna á þéttingarreitum.
Hannes segir það alveg rétt. Með hliðsjón af hækkun fasteignaverðs og stífara greiðslumati sé orðið erfitt fyrir fyrstu kaupendur án trausts baklands að kaupa íbúðir.
Sárafáar eignir í boði
Máli sínu til stuðnings leitaði Hannes að íbúðum á höfuðborgarsvæðinu sem væru 40-80 fermetrar og kostuðu undir 50 milljónum. Smáíbúðir í kjallara og ósamþykktar íbúðir voru undanskildar og var niðurstaðan að um 60 íbúðir uppfylltu þessi skilyrði.
„Það er allt að því búið að loka á fyrstu kaupendur. Þeir þurfa að eiga mikið eigið fé og það er líka búið að lækka lánshlutfallið. Staðan er því mjög slæm fyrir fyrstu kaupendur árið 2023,“ segir Hannes sem kveðst áður hafa upplifað erfiða stöðu fyrstu kaupenda, til dæmis eftir hrunið, en staðan hafi sjaldan verið verri. „Mesti áhrifaþátturinn er 35%-reglan. Hún hefur haft meiri áhrif en til að mynda Félag fasteignasala áttaði sig á í byrjun. Ég tel að ástandið verði svona út þetta ár og lagist strax á næsta ári.“
Framboðið er lítið
Fáar undir 50 milljónum
Hannes Steindórsson fasteignasali telur, í ljósi verðþróunar og hækkandi byggingarkostnaðar, ósennilegt að það komi margar nýjar íbúðir á markað á næsta ári sem kosta undir 50 milljónum.
„Það skýrist í fyrsta lagi af því að það er ekki verið að byggja 30 fermetra íbúðir. Í öðru lagi hefur byggingarkostnaður hækkað gríðarlega eftir að stríð braust út í Úkraínu og í þriðja lagi er eftirspurnin mikil. Íbúðir á þessu verðbili eru svo góð vara. Það eru kannski þúsund kaupendur að eign sem kostar undir 50 milljónum en 200 að eign sem kostar undir 75 milljónum,“ segir Hannes.
Samkvæmt Hagvísum Seðlabankans 22. desember stóð vísitala raunverðs íbúða á höfuðborgarsvæðinu í 203,42 stigum í nóvember en hún náði lágmarki í desember 2010 er hún fór niður í 98,35 stig. Raunverðið hefur því með öðrum orðum tvöfaldast á 12 árum.