[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valsmenn sýndu það og sönnuðu að þeir eru með langbesta lið landsins í handbolta í karlaflokki er liðið vann mjög sannfærandi 44:36-sigur á FH á heimavelli í Olísdeildinni í gærkvöldi. Fyrir leikinn hafði FH ekki tapað í tíu leikjum í deildinni í röð og fyrir vikið blandað sér í toppbaráttuna

Handboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Valsmenn sýndu það og sönnuðu að þeir eru með langbesta lið landsins í handbolta í karlaflokki er liðið vann mjög sannfærandi 44:36-sigur á FH á heimavelli í Olísdeildinni í gærkvöldi.

Fyrir leikinn hafði FH ekki tapað í tíu leikjum í deildinni í röð og fyrir vikið blandað sér í toppbaráttuna. Munaði sex stigum á liðunum fyrir leik og var FH með leik til góða. Með sigri hefði Hafnarfjarðarliðið því sett pressu á Val, en sú niðurstaða var aldrei líkleg.

Skoraði aftur 13

Valsliðið skoraði fjögur fyrstu mörkin og var FH ekki líklegt til að jafna eftir það. Í hvert skipti sem FH hótaði að gera áhlaup, svaraði Valur í sömu mynt og hleypti gestunum ekki nálægt sér í seinni hálfleik.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var sóknarleikur Valsmanna magnaður, með hinn ótrúlega Benedikt Gunnar Óskarsson í aðalhlutverki. Leikmaðurinn ungi skoraði tíu mörk á fyrsta kortérinu og héldu honum engin bönd. Hann slakaði örlítið á eftir það og endaði með 13 mörk, annan leikinn í röð.

Magnað starf í yngri flokkum

Stiven Tobar Valencia bætti við sjö mörkum, úr sjö skotum, Magnús Óli Magnússon stóð fyrir sínu að vanda og þeir Tryggvi Garðar Jónsson, Arnór Snær Óskarsson, Þorgils Jón Svölu Baldursson og Tjörvi Týr Gíslason áttu allir góðan leik. Það sem gerir glæsilega spilamennsku Vals enn magnaðri, er sú staðreynd að allir ofantaldir leikmenn liðsins, að undanskildum Magnúsi Óla, eru uppaldir hjá félaginu.

Snorri Steinn Guðjónsson er að gera stórkostlega hluti með Valsliðið. FH-ingar gerðu sig aldrei líklega til að skáka Íslands- og bikar­meisturunum í gær. Þegar sóknarleikur Valsliðsins gengur vel upp, á ekkert lið á Íslandi nokkra möguleika gegn Hlíðarendaliðinu.

FH átti spretti

FH átti sína spretti. Ásbjörn Friðriksson er eins og vel smurð vél, sem stendur alltaf fyrir sínu. Við hlið hans eru þeir ungu Einar Bragi Aðalsteinsson og Jóhannes Berg Andrason og úr verður skemmtileg blanda af ungum og efnilegum leikmönnum og fyrirliðanum Ásbirni, sem hefur séð allt í íslenskum handbolta.

Að skora 36 mörk gegn Val er langt frá því að vera neitt til að skammast sín fyrir og sóknarleikur FH-inga var ágætur. Aron Pálmars­son verður leikmaður FH frá og með næsta tímabili og gæti liðið orðið illviðráðanlegt. Í það minnsta þangað til eru Valsmenn hins vegar í öðrum og hærri klassa.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson