Ef ný alda hryðjuverka skellur á er hætt við að Pakistan fari úr öskunni í eldinn

Talibanar hafa ekki aðeins valdið usla heima fyrir eftir að þeir komust til valda í Afganistan, heldur sá þeir fræjum usla og óstöðugleika allt í kringum sig. Tilræði hryðjuverkamanns, sem sprengdi sig í loft upp í borginni Peshawar, hefur vakið ugg og ótta í Pakistan.

Talibanar voru fljótir að leggja Afganistan undir sig eftir að Atlantshafsbandalagið, með Bandaríkjamenn í broddi fylkingar, tók föggur sínar og yfirgaf landið 2021, án þess að huga að eftirleiknum.

Brotthvarf bandamanna varð ekki aðeins til að greiða götu talibana í Afganistan. Öfgahópar á landamærum Afganistans og Pakistans urðu einnig áræðnari þegar þeir þurftu ekki lengur að óttast sveitir NATO.

Hryðjuverkamaðurinn gekk inn í mosku í lögreglustöð í Peshawar á mánudag og framdi ódæðisverkið. 101 maður lést í tilræðinu, flestir lögreglumenn. Þetta er mesta mannfall í slíkri árás í Pakistan í fimm ár.

Fjallahéruð Pakistans sem liggja að Afganistan hafa verið nánast löglaus um langt skeið. Þar hafa afganskir talibanar átt athvarf þegar sótt hefur verið að þeim í Afganistan og pakistanskir talibanar og hryðjuverkamenn hafa getað látið fyrirberast í Afganistan til að gera pakistönskum yfirvöldum erfitt að sækja að þeim. Eftir að talibanar komust til valda í Afganistan hefur óróinn farið vaxandi í þessum fjallahéruðum.

Peshawar er sú stórborg í Pakistan sem er næst þessum héruðum og sagði lögreglustjórinn í borginni að tilræðið hefði verið gert í hefndarskyni gegn þeim lögregluyfirvöldum sem hafa verið í framlínunni í baráttunni við þessi herskáu öfl.

Nú óttast menn að þetta muni endurtaka sig. Næsta sprengjutilræði verði á útimarkaði eða einhvers staðar þar sem margir koma saman. Öryggisgæsla hefur verið hert verulega og menn eru spurðir um skilríki við nánast hvert fótmál í borginni.

Pakistanskir talibanar hófu hrinu ódæðisverka um 2007. Þeir kalla sig Tehreek-e-Taliban í Pakistan, skammstafað TTP. Peshawar varð mjög illa úti í árásum þeirra. 2014 var látið til til skarar skríða til að binda enda á óöldina. Uppreisnarmennirnir voru hraktir til fjalla og létu sig margir hverfa handan landamæranna í Afganistan.

Pakistan er milli steins og sleggju. Granni þeirra í austri er Indland. Sambúð ríkjanna er eldfim og oft hefur mátt litlu muna að upp úr syði.

Í vestri er síðan Afganistan þar sem aldrei ríkir friður. Pakistanar áttu í samstarfi við Bandaríkjamenn þegar þeir unnu gegn Rússum í Afganistan í kalda stríðinu. Þegar talibanar tóku völdin í Afganistan eftir að Rússar hröktust þaðan í kalda stríðinu hurfu Bandaríkjamenn líka.

Þá reyndu Pakistanar að treysta öryggi sitt með því að bindast böndum við talibanastjórnina. Sérstaklega voru sterk tengsl milli pakistönsku leyniþjónustunnar og talibananna.

Þegar Bandaríkjamennirnir sneru aftur, eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001, og steyptu talibanastjórninni í Afganistan fyrir að skjóta skjólshúsi yfir Osama bin Laden, tóku þeir aftur upp samskipti við pakistanska herinn og leyniþjónustuna. En þeir vissu í raun aldrei hvar þeir höfðu Pakistanana og þá sérstaklega pakistönsku leyniþjónustuna.

Þó er erfitt að áfellast Pakistana, því að þeir vita af reynslunni að Bandaríkjamenn koma og fara, en þeir sitja fastir og geta ekki skipt um granna.

Pakistanar munu hafa reynt að fá forystu talibana í Afganistan til að aðstoða sig við að hafa heimil á liðsmönnum TTP, en það hefur engu skilað.

Margt er Pakistönum mótdrægt um þessar mundir og ný alda hryðjuverka myndi bæta gráu ofan á svart. Efnahagur landsins er í rúst og kreppa ríkir í stjórnmálum. Hinar trúarlegu öfgahreyfingar líta örugglega svo á að nú sé tækifæri. Stjórnvöld eru hins vegar farin að ræða að beita hernum gegn ofbeldismönnunum.

Pakistanski blaðamaðurinn Ahmed Rashid þekkir betur til talibana en flestir. Hann sagði í viðtali fyrir áramót að yrði engin hugarfars- eða stefnubreyting hjá talibönum í Afganistan myndu þeir breiða út glundroða og óstöðugleika í Mið-Asíu um ókomin ár. Því miður er allt útlit fyrir að þau orð gangi eftir.