Kammersveitin ykkar hyggst flytja tónlist með stjörnumerkjaívafi. Geturðu útskýrt það nánar? Á tónleikunum Öld Vatnsberans ætlum við að flytja verkið Dýrahringinn eftir Stockhausen í nýrri útsetningu okkar hjá Cauda Collective

Kammersveitin ykkar hyggst flytja tónlist með stjörnumerkjaívafi. Geturðu útskýrt það nánar?

Á tónleikunum Öld Vatnsberans ætlum við að flytja verkið Dýrahringinn eftir Stockhausen í nýrri útsetningu okkar hjá Cauda Collective. Verkið er í tólf köflum og hver kafli táknar eitt stjörnumerki. Af því okkur finnst svo gaman að hrista upp í hlutunum, munu áhorfendur sitja í sínu stjörnumerki, en stólum er raðað í hring. Svo snúum við okkur að því stjörnumerki sem kaflinn er um hverju sinni. En fólk má auðvitað velja sér líka að sitja í öðru stjörnumerki en sínu eigin ef það vill.

Tengjast þá tónleikarnir öld vatnsberans?

Já, sú öld er nýgengin í garð og mun vara í tvö þúsund ár. Júpiter og Satúrnus mætast í Vatnsbera og er það í fyrsta sinn í tvö hundruð ár sem þeir hittast ekki í jarðmerki, heldur í loftmerki. Þegar þetta gerist á mannkynið eftir að upplifa von og nýsköpun í auknum mæli.

Var ekki einmitt fjallað um öld vatnsberans í söngleiknum Hárinu?

Jú, og það er svo fyndið að í einum kaflanum í texta Finns er leiðrétting á því lagi. Þegar talað er um að tunglið sé í sjöunda húsi, er það ekki neitt sérstakt, því það gerist í tvo tíma á dag.

Verða fleiri verk á dagskrá?

Já, við flytjum Stjörnuhvalinn eftir Fjólu Evans og Aquarius eftir Finn Karlsson, en þau voru samin sérstaklega fyrir þetta tilefni. Einn kaflinn hjá Finni fjallar um íþróttadrykkinn Aquarius, sem margir sakna.

Ertu fiðluleikari í fullu starfi?

Já, ég er „frílans“ fiðluleikari. Ég er í Cauda Collective, spila stundum með Sinfóníuhljómsveitinni og svo spila ég mikið í hljóðveri með ýmsum popptónlistarmönnum. Ég hef til dæmis túrað um allan heim með Ólafi Arnalds.

Er gaman að vera fiðluleikari?

Já, það er ótrúlega gaman og gefandi.

Kammerhópurinn Cauda Collective flytur verk eftir Stockhausen, Finn Karlsson og Fjólu Evans á tónleikum með stjörnumerkjaívafi á Sígildum sunnudögum í Hörpu 5. febrúar klukkan 16. Miðar fást á tix.is.