Kópavogshöfn Í lok ársins gerði gerði harðan kuldakafla sem stóð fram í janúar. Þessir bátar komust ekki á sjó.
Kópavogshöfn Í lok ársins gerði gerði harðan kuldakafla sem stóð fram í janúar. Þessir bátar komust ekki á sjó. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Talsverðar öfgar voru í veðrinu í fyrra. En þó að veðurfar ársins 2022 hafi verið mjög breytilegt, enduðu ársmeðaltöl hita, vinds og loftþrýsting mikið til í meðallagi. Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofu Íslands um tíðarfar ársins 2022 og stofnunin hefur birt á vef sínum.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Talsverðar öfgar voru í veðrinu í fyrra. En þó að veðurfar ársins 2022 hafi verið mjög breytilegt, enduðu ársmeðaltöl hita, vinds og loftþrýsting mikið til í meðallagi. Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofu Íslands um tíðarfar ársins 2022 og stofnunin hefur birt á vef sínum.

Ársmeðalhiti í byggðum landsins var jafn meðalhita áranna 1991 til 2020 en 0,3 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára, að því er fram kemur í yfirlitinu. Að tiltölu var hlýjast við suðurströndina. Ársúrkoma var víðast hvar rétt undir eða yfir meðallagi. Þó var úrkomusamt á höfuðborgarsvæðinu og sums staðar á Norðausturlandi.

Úrkomumetið féll ekki

Árið var óvenjublautt á höfuðborgarsvæðinu. Mars var t.a.m. úrkomusamasti marsmánuður sem vitað er um í Reykjavík, og í lok nóvember stefndi árið í að verða eitt það úrkomusamasta þar frá upphafi mælinga. En desember var óvenjulega þurr og árið endaði sem 8. blautasta ár í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1921. Ársúrkoma í Reykjavík mældist 1.062,4 millimetrar sem er um 20% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020, en um 15% umfram meðalúrkomu síðustu tíu ára. Loftþrýstingur og vindhraði voru í meðallagi þegar litið er á árið í heild.

Illviðrasamt var á landinu frá upphafi árs og fram í miðjan mars. Janúar var umhleypingasamur en snjóléttur. Í febrúar var tiltölulega kalt og snjóþungt á landinu og riðluðust samgöngur margoft, bæði vegna hvassviðris og snjóþyngsla.

Febrúar var með snjóþyngri mánuðum í Reykjavík um árabil. Fram eftir marsmánuði var umhleypinga- og illviðrasamt. Mars var óvenju úrkomusamur, sérstaklega á sunnan- og vestanverðu landinu. Vorið var hlýtt og hægviðrasamt og tíð almennt góð. Sumarið (júní til ágúst) var tiltölulega kalt og mjög hlýir dagar voru fáir. September var þó hlýr og hægviðrasamur um land allt.

Árinu lauk svo á tveimur óvenjulegum, en afar ólíkum mánuðum. Nóvember var mjög hlýr. Þetta var hlýjasti nóvembermánuður á landsvísu frá upphafi mælinga. Hlýjar austlægar áttir voru ríkjandi allan mánuðinn, með óvenjumikilli vætutíð á Austurlandi. Að tiltölu var hlýjast uppi á hálendi, og landið var nánast alautt allan mánuðinn.

Desember var aftur á móti sérlega kaldur, kaldasti desembermánuður á landsvísu síðan 1973. Í Reykjavík hefur ekki verið eins kalt í desembermánuði í rúm 100 ár, en desember 1916 var álíka kaldur.

Meðalhiti ársins í Reykjavík var 5,1 stig og er það 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,5 stig sem er jafnt meðalhita áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var meðalhitinn 4,3 stig sem er 0,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti ársins 5,6 stig, 0,2 stigum yfir meðallagi. Á landsvísu var hitinn jafn meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Þrýstingur var sérlega hár á landinu í desember, vindur hægur og það var óvenju þurrt og bjart, sérstaklega suðvestanlands. Desemberúrkoman var víða sú minnsta sem mælst hefur í áratugi.

Sólríkur desember

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1.421,3 í fyrra, 53 stundum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020, en 80 stundum fleiri en að meðaltali síðustu tíu ár. Óvenju sólríkt var í Reykjavík í desember og hafa sólskinsstundirnar aldrei mælst fleiri þar frá upphafi mælinga.

Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1.191,2 eða 140 stundum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020, en 90 fleiri en að meðaltali síðustu tíu ára.