Dauði Baldurs Dæmi um tækisfall er beygingarmyndin <em>grjóti</em>. Í Gylfaginningu segir t.d. um skemmtan ásanna að Baldur &bdquo;skyldi standa upp á þingum en allir aðrir skyldu sumir skjóta að honum, sumir höggva til, sumir berja grjóti&ldquo;.
Dauði Baldurs Dæmi um tækisfall er beygingarmyndin grjóti. Í Gylfaginningu segir t.d. um skemmtan ásanna að Baldur „skyldi standa upp á þingum en allir aðrir skyldu sumir skjóta að honum, sumir höggva til, sumir berja grjóti“.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjöldi landsmanna á pólsku að móðurmáli. Í pólskri málfræði teljast föllin sjö, þremur fleiri en í íslensku. Oft heyrist viðkvæðið að íslenska sé erfitt mál, enda séu í henni „öll þessi föll“

Tungutak

Ari Páll Kristinsson

ari.pall.kristinsson@arnastofnun.is

Fjöldi landsmanna á pólsku að móðurmáli. Í pólskri málfræði teljast föllin sjö, þremur fleiri en í íslensku. Oft heyrist viðkvæðið að íslenska sé erfitt mál, enda séu í henni „öll þessi föll“. Þarna slær þó pólska, og fleiri slavnesk og raunar líka baltnesk mál, íslenskunni við. Auk nefnifalls, þolfalls, þágufalls og eignarfalls geymir pólskan ávarpsfall, staðarfall og svonefnt tækisfall.

Síðastnefnda fallið hefur einnig verið nefnt tólfall eða verkfærisfall; fyrirmynd íslensku heitanna er latína, (ablativus) intstrumentalis. Sem skýringardæmi um tækisfall má nefna íslensku beygingarmyndina grjóti sem nú er jafnan greind sem þágufall. En í orðasambandinu berja grjóti (án forsetningarinnar með) samsvarar þetta tækisfalli. Í Gylfagynningu segir frá dauða Baldurs, en æsir höfðu beðið honum griða fyrir alls konar háska. Frigg „tók svardaga til þess að eira skyldu Baldri eldur og vatn, járn og alls konar málmur, steinar, jörðin, viðirnir, sóttirnar, dýrin, fuglarnir, eitur, ormar“ – hún sleppti mistilteininum eins og seinna kom á daginn. Var það „skemmtun Baldurs og ásanna að hann skyldi standa upp á þingum en allir aðrir skyldu sumir skjóta að honum, sumir höggva til, sumir berja grjóti“.

Á fyrri öldum var latína fyrirmynd íslenskrar málfræðilýsingar. Í málfræði Runólfs Jónssonar 1651 eru gefin sex föll; auk þeirra fjögurra sem miðað er við í dag greindi Runólfur ávarpsfall og tækisfall.

Jón Magnússon (1662-1738), bróðir Árna handritasafnara, fór hins vegar framsæknari leið í málfræði sinni (1737/1738) og lét fjögur föll nægja eins og nú er venja. Jón mun hafa verið gagnrýndur fyrir greininguna. Hann tók raunar til varna í málfræðiritinu sjálfu með því að benda á að endingar nefnifalls og þágufalls feli hitt í sér – „ég svara því til, að ásetningur minn sé ekki að falsa tungu okkar með óviðeigandi aðskotahlutum, heldur að lýsa henni sannlega, eins og hún er,“ segir þar, í þýðingu Jóns Axels Harðarsonar sem gaf málfræði Jóns út með skýringum og inngangi 1997. Jón Axel bendir á að samtímamenn Jóns hafi yfirleitt verið „hnepptir í fjötra latneskrar málfræðihefðar“. Það hafi raunar einnig átt við um Jón sjálfan þrátt fyrir yfirlýstan vilja um að lýsa málinu „sannlega“.

Í málfræði Jóns bregður reyndar fyrir mati á málnotkun samtímans í bland við mállýsinguna. Hann tilgreinir fleirtölumyndirnar tennur, neglur og hendur en eins og Haraldur Bernharðsson vakti nýlega athygli á bætir Jón því við að sumir segi „ranglega“ tönnur, nöglur og höndur.

Auk málfræðinnar skrifaði Jón Magnússon meðal annars lagaskýringar og lækningarit. Hann var prestur og síðar sýslumaður en hvarf úr embættum sínum vegna hórdómsbrota. Við þriðja brotið féll líflátsdómur en konungur náðaði Jón 1731. Árni bróðir hans lést 1730 en víst þykir að vinir Árna hafi talað máli Jóns við konung.