Sýning Anna María sýnir verk sín á Amtsbókasafninu á Akureyri. Þar er m.a. fjöldi ljósmynda af ferlinu sem Kristrún, vinkona hennar, gekk í gegnum í sinni erfiðu krabbameinsmeðferð. Kristrún lést núna í byrjun ársins.
Sýning Anna María sýnir verk sín á Amtsbókasafninu á Akureyri. Þar er m.a. fjöldi ljósmynda af ferlinu sem Kristrún, vinkona hennar, gekk í gegnum í sinni erfiðu krabbameinsmeðferð. Kristrún lést núna í byrjun ársins. — Morgunblaðið/Margrét Þóra
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Margrét Þóra Þórsdóttir Akureyri „Lífið er skrítið og oft mjög ruglingslegt,“ segir Anna María Hjálmarsdóttir sem opnaði á dögunum sýninguna „Helvítis krabbamein“ á Amtsbókasafninu á Akureyri. Hún sótti um að sýna á safninu í fyrra og þá voru áformin að mála nokkrar myndir af uppáhaldsskáldunum hennar. Lífið tók óvænta stefnu þegar vinkona hennar, Kristrún Pétursdóttir, greindist með bráðahvítblæði í fyrravor.

Viðtal

Margrét Þóra Þórsdóttir

Akureyri

„Lífið er skrítið og oft mjög ruglingslegt,“ segir Anna María Hjálmarsdóttir sem opnaði á dögunum sýninguna „Helvítis krabbamein“ á Amtsbókasafninu á Akureyri. Hún sótti um að sýna á safninu í fyrra og þá voru áformin að mála nokkrar myndir af uppáhaldsskáldunum hennar. Lífið tók óvænta stefnu þegar vinkona hennar, Kristrún Pétursdóttir, greindist með bráðahvítblæði í fyrravor.

Anna María hélt utan til Lundar í Svíþjóð í lok september með Kristrúnu og eiginmanni hennar, Höskuldi Stefánssyni, þegar henni bauðst að fara í beinmergsskipti. Þá kviknaði ný hugmynd að sýningu, að skrá ferlið og gefa fólki innsýn í hvað bíður þeirra sem gangast undir beinmergsskipti. Höskuldur og Björgvin Kolbeinsson, maður Önnu Maríu, eru systrasynir og tókst vinátta með þeim stöllum þegar bæði pörin höfðu komið sér upp langtímastæði fyrir hjólhýsi í Vaglaskógi fyrir fáum árum.

Barðist eins og hennar var von og vísa

„Kristrún barðist eins og hennar var von og vísa og sigraðist á krabbameininu. Hún var komin í annan blóðflokk og með nýtt DNA. Við áttum alveg dásamlegan tíma þarna úti í Lundi meðan á þessu stóð, fórum í gegnum allan tilfinningaskalann, bæði gleði og sorg, en fyrst og fremst vorum við þakklát fyrir hversu vel gekk,“ segir Anna María.

Þær stöllur unnu allan tímann að verkefninu vegna sýningarinnar sem þær ætluðu báðar að standa að. Teknar voru fjölmargar myndir á tímabilinu frá því í byrjun október þegar aðgerðin hófst. „Okkur langaði að varpa ljósi á þessu miklu baráttu sem fólk lendir í, alla þessa miklu upplifun sem fylgir öllu ferlinu,“ segir Anna María, en á sýningunni er einnig varpað upp færslum sem hún sendi heim á valinn hóp sem fylgdist daglega með því sem upp kom úti í Lundi.

Anna María hélt heim á leið skömmu fyrir jól, 15. desember, og kvaddi þau hjón, Kristrúnu og Höskuld, en þau áttu bókað flug heim strax á nýju ári, 5. janúar. Milli jóla og nýárs veiktist Kristrún, fékk veirusýkingu og leitaði á sjúkrahús því hún var orðin frekar slöpp.

„Hún var lögð inn hið snarasta og skemmst frá því að segja að vírusinn sem hún fékk stökkbreyttist í mjög ágengt eitlakrabbamein sem dró hana til dauða á mjög skömmum tíma. Hún lést daginn sem hún ætlaði sér að koma heim.“

Sýnir út febrúar

Anna María segir þetta allt hafa verið mjög óraunverulegt. Sjálf hafi hún sökkt sér í vinnu við að koma sýningunni upp. „Ég tók eftir því að þær myndir sem ég málaði áður en Kristrún dó voru í björtum litum og yfir þeim mikil gleði, en eftir útför og þegar hinn napri veruleiki blasir við að þessu er endanlega lokið, þá verða litirnir dekkri og drungalegra yfir myndunum.“

Á sýningunni á Amtsbókasafninu eru bæði ljósmyndir og málverk. Sýningin stendur út febrúar.

Höf.: Margrét Þóra Þórsdóttir