Hetjan Taylor Johns hjá ÍR sækir að Grindvíkingnum Ólafi Ólafssyni.
Hetjan Taylor Johns hjá ÍR sækir að Grindvíkingnum Ólafi Ólafssyni. — Morgunblaðið/Eggert
ÍR galopnaði fallbaráttuna í Subway-deild karla í körfubolta með dramatískum 91:90-heimasigri á Grindavík í 15. umferðinni í gærkvöldi. ÍR er nú með átta stig og aðeins tveimur stigum frá Þór frá Þorlákshöfn, Hetti og öruggu sæti í deildinni

ÍR galopnaði fallbaráttuna í Subway-deild karla í körfubolta með dramatískum 91:90-heimasigri á Grindavík í 15. umferðinni í gærkvöldi. ÍR er nú með átta stig og aðeins tveimur stigum frá Þór frá Þorlákshöfn, Hetti og öruggu sæti í deildinni.

Sigurinn var afar kærkominn fyrir ÍR-inga og sá fyrsti frá 1. desember. Sex töp í röð þýddu að körfuboltastórveldið úr Breiðholti var komið fjórum stigum frá öruggu sæti og fáir áttu von á öðru en að liðið væri á leiðinni niður um deild. Dramatískur sigur gegn fínu liði Grindavíkur ætti þó að gefa leikmönnum, þjálfurum og stuðningsmönnum ÍR-inga aukinn byr undir vængina.

Eftir þrjá sigra í röð hefur Grindavík nú tapað þremur leikjum í röð, en flest bendir þó til þess að liðið sé á leiðinni í úrslitakeppnina. Enn eitt árið stefnir hins vegar í það að Grindavíkurliðið falli snemma úr leik, eftir að hafa endað frekar neðarlega í deildinni.

Grindavík hefur ekki endað í fjórum efstu sætunum frá tímabilinu 2016/17, er liðið fór alla leið í lokaúrslitin og oddaleik gegn KR. Það er ekki nógu gott hjá jafnmiklum körfuboltabæ og Grindavík. Allir vilja gera betur.

Taylor Johns tryggði sigurinn með sniðskoti undir körfunni, fimm sekúndum fyrir leikslok. Luciano Masarelli skoraði 25 stig og tók átta fráköst fyrir ÍR og Johns skoraði 17 stig og tók auk þess 14 fráköst. Hjá Grindavík var Damier Pitts stigahæstur með 28 stig og gaf hann sömuleiðis átta stoðsendingar.

Aftur á toppinn

Keflavík endurheimti toppsætið með öruggum 20 stiga sigri á Breiðabliki á heimavelli, 109:89. Keflvíkingar náðu forystunni snemma leiks og létu hana aldrei af hendi, en staðan eftir fyrsta leikhlutann var 38:25 og var Breiðablik ekki líklegt til að jafna eftir það.

David Okeke, Dominykas Milka og Igor Maric skoruðu 24 stig hver fyrir Keflavík. Jeremy Smith skoraði 21 stig, gaf sjö fráköst og gaf átta stoðsendingar fyrir Breiðablik.