Reglur Koma þarf upp fleiri skilgreindum stæðum fyrir rafskútur.
Reglur Koma þarf upp fleiri skilgreindum stæðum fyrir rafskútur. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta er auðvitað mjög handhægur ferðamáti innanbæjar og við setjum okkur ekki upp á móti honum. Það hefur hins vegar skort upp á að notendur átti sig á að frelsinu sem þessi farartæki færa fylgir líka ábyrgð,“ segir Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er auðvitað mjög handhægur ferðamáti innanbæjar og við setjum okkur ekki upp á móti honum. Það hefur hins vegar skort upp á að notendur átti sig á að frelsinu sem þessi farartæki færa fylgir líka ábyrgð,“ segir Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins.

Umræða hefur verið í Noregi um hættu sem rafskútur skapa fyrir blinda og hreyfihamlaða. Þar í landi sýnir ný könnun meðal blindra og öryrkja að 16% þeirra sem eru með skerta sjón hafa dottið um rafmagnsvespu og 4% hafa orðið fyrir vespu. Um 13% þeirra einstaklinga sem eru bundnir við hjólastól eða með skerta hreyfigetu hafa dottið um kyrrstæða rafskútu og 17% hafa orðið fyrir árekstri af rafskútu. Margir kveðast forðast götur og gangstíga vegna rafskútanna og 47% kveðast þurfa að verja lengri tíma í að ferðast um vegna þeirra. Um 11% detta oft eða stöku sinnum um rafskútur.

Mjög er kvartað undan því hvernig rafskútur eru skildar eftir eins og hráviði í Noregi. Fatlaðir þar í landi segjast ekki geta beygt sig niður og fært 20-30 kílóa rafskútu sem er fyrir þeim. Þá er sláandi að tæplega tveir þriðju þátttakenda í skoðanakönnunni svara því til að þeir séu óöruggir gagnvart ökumönnum rafskúta.

Sigþór segir að engin sambærileg tölfræði sé til hér á landi. „En við þekkjum dæmi um að okkar fólk hafi dottið og slasað sig vegna rafskútanna. Ég veit til dæmis um einn sem braut tönn.“

Hann segir því miður kasti margir rafskútunum frá sér að notkun lokinni án þess að hugsa um aðra vegfarendur. „Það snertir auðvitað okkur, fólk í hjólastólum, fólk með barnavagna, gamalt fólk með göngugrind og fleiri.“

Rétt væri að setja einhvers konar reglur sem komi í veg fyrir þetta, að mati Sigþórs. Hann bendir á að það hafi víða verið gert í nágrannalöndunum. Til dæmis með skilgreindum stæðum fyrir rafskútur, rétt eins og hefð er fyrir hjá hjólaleigum. Auðvelt sé til að mynda fyrir blinda að rata þegar þeir vita hvar eru stæði fyrir rafskútur en það standi upp á yfirvöld að hlutast til um að þau séu til staðar. Þá þurfi að vera viðurlög við því að brjóta reglur. „Við höfum kallað eftir þessu og ýtt við borgaryfirvöldum um einhvers konar regluverk. Það hefur eitthvað þokast en enn er svolítil villta vesturs-stemning í kringum þetta. Því miður.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon