Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Erfitt getur reynst að halda úti keppnisliðum í boltagreinum eins og fótbolta og handbolta á fámennum stöðum á landsbyggðinni, en grunnskólakrakkar á Reyðarfirði hafa þreyð þorrann og góuna í eitt ár og eru til alls líklegir þegar fram líða stundir. „Nokkrir leikmenn hjá okkur í Val eru efnilegir og vonandi halda sem flestir áfram á sömu braut,“ segir Kristín Kara Collins, kennari og þjálfari krakkanna.
Valur á Reyðarfirði er eina félagið á Austfjörðum sem er með handbolta á dagskrá. Kristín Kara segir að þegar leikir í Evrópukeppni karla hafi verið sýndir beint í sjónvarpinu á skólatíma í fyrra hafi krakkarnir horft saman á þá í salnum og skemmt sér vel. „Margir mættu í búningum, stemningin var mikil, ég fann vel fyrir áhuga þeirra á handboltanum og í samráði við stjórn Vals ákváðum við að slá til og byrja með æfingar.“
Tvískiptur hópur
Börn í 3.-5. bekk æfa saman tvisvar í viku og eins nemendur í 6.-8. bekk, samtals um 30 krakkar. „Við æfum með það að markmiði að koma upp frambærilegu liði, en við höfum ekki enn spilað leik við annað lið,“ segir Kristín Kara. Það standi þó til bóta og stefnt sé að því að heimsækja KA á Akureyri innan skamms. „Krakkarnir eru ánægðir og þetta verður enn skemmtilegra þegar við fáum leiki.“ Hún bætir við að nýtt íþróttahús verði tilbúið á næstu mánuðum og þá megi ætla að áhuginn og framfarirnar verði enn meiri. „Völlurinn er svo mjór að við getum ekki verið með hornamenn en það lagast með nýja húsinu,“ segir hornamaðurinn fyrrverandi.
Kristín Kara ólst upp í Breiðholtinu í Reykjavík og byrjaði að æfa handbolta hjá ÍR tíu ára gömul. „Foreldrar mínir vildu setja mig í íþróttir og handbolti hentaði vel, því þetta er vetraríþrótt og þá þurfti ekki að eyða sumrinu í að flakka á milli æfinga og leikja.“ Hún skipti síðan yfir í Val Reykjavík og varð Íslands- og bikarmeistari í meistaraflokki, en hætti skömmu áður en fyrsta barnið af þremur fæddist 2011. „Vinkonur mínar fóru í Val og ég fylgdi með,“ segir hún um félagaskiptin á sínum tíma. Atli Fjalar Larsen eiginmaður hennar er frá Reyðarfirði og þau fluttu austur 2014. Hún segist hafa byrjað að æfa körfubolta en eftir að hafa slitið hásin tvisvar hafi hún hætt því. „Nú tek ég því bara rólega í ræktinni.“
Þjálfarinn leggur jafnframt áherslu á félagslegu hliðina. „Þegar ég var í handboltanum kynntist ég því hvað félagsskapurinn skiptir miklu máli og krakkarnir hérna finna vel fyrir því.“
Heimsmeistaramóti karla í handbolta lauk um liðna helgi og Kristín Kara vonar að mótið hafi aukið áhuga krakkanna enn frekar. „Allir voru áhugasamir og fylgdust vel með. Vonandi skilar það sér á æfingunum.“