Helgi Áss Grétarsson
Helgi Áss Grétarsson
Það skortir viðunandi áætlun um rekstur borgarlínunnar. Feluleikur um þetta atriði skaðar hagsmuni reykvískra skattgreiðenda. Úr þessu þarf að bæta.

Helgi Áss

Grétarsson

„Borgarsamgöngur til framtíðar“ var yfirskrift málþings sem Verkfræðingafélag Íslands hélt fimmtudaginn 2. febrúar síðastliðinn. Á margan hátt var málþingið upplýsandi, bæði vegna þess sem fram kom í máli þriggja frummælenda og þó ekki síður hverju var sleppt í framsögum þeirra. Eitt atriði sem engu ljósi var varpað á var hvernig eigi að reka borgarlínuna og hver eigi að bera fjárhagslega ábyrgð á rekstrinum.

Einn frummælenda, Þorsteinn Hermannsson, forstöðumaður þróunar hjá Betri samgöngum ohf., benti réttilega á að fyrirtækið sem hann starfi hjá muni ekki sjá um rekstur borgarlínunnar. Þegar hann var spurður út í skort á aðgengilegum áætlunum um rekstur borgarlínunnar svaraði hann því til að 2-3 skýrslur væru til um efnið sem væru „aðgengilegar á internetinu“ og hefðu verið „lagðar fram fyrir stjórn Strætó og svo framvegis“.

Hvar er rekstraráætlunin?

En hér kemur upp vandi. Leit á netinu skilar ekki miklum árangri. Þó finnst skýrsla nefnd „Nýtt leiðanet“ sem merkt er Strætó bs., dags. 3. september 2021 (sjá einnig ssh.is/rekstur-almenningssamgangna). Svo ágæt sem þessi skýrsla er þá verður ekki á það fallist að hún veiti viðunandi mynd af fyrirhuguðum rekstri borgarlínunnar, m.a. vegna margra óvissuþátta sem gert er grein fyrir í skýrslunni.

Eldra efni um rekstur borgarlínunnar er lakara en fyrrnefnd skýrsla og yngra efni um rekstur borgarlínunnar finnst ekki með góðu móti á vefslóðum á borð við borgarlinan.is, betrisamgongur.is og ssh.is.

Fínkembing á heimasíðu Strætó bs. leiðir ekki heldur til árangurs, m.a. verður vart séð af fundargerðum stjórnar fyrirtækisins undanfarna 18 mánuði að hún hafi fjallað ítarlega um rekstur borgarlínunnar en í því samhengi eru nýleg ummæli formanns stjórnar Strætó bs. upplýsandi:

„Við eigum eftir að sjá hvernig framhaldið spilast með hugmyndum um borgarlínuna. Þar er ekki búið að gera ráð fyrir neinum vagnakaupum, bækistöðvum, skýlum eða hleðslustöðvum. Það er margt sem á eftir að finna út úr, enda er það ekki á okkar borði, að minnsta kosti ekki enn sem komið er“ (Morgunblaðið, 2. febrúar 2023, bls. 4).

Sanngjarnar spurningar

Sú vegferð hefur núna staðið yfir um langa hríð að koma á fót „hágæða almenningssamgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu“. Á sama tíma liggur fyrir að rekstur Strætó bs. er í öndunarvél. Skattgreiðendur, aðallega í Reykjavík, eiga að standa vaktina fyrir Strætó bs., en sem dæmi innti Reykjavíkurborg af hendi 320 milljóna króna viðbótarrekstrarframlag til fyrirtækisins í október sl. og reikna má með að borgin greiði að lágmarki um 3,3 milljarða króna til fyrirtækisins á þessu ári.

Þótt þessar fjárhæðir séu háar þá eru þær líklegast ekki eins svimandi háar og væntanleg rekstrarútgjöld borgarlínunnar. Sanngjarnt er því að knýjandi spurningum um rekstur fyrirhugaðrar borgarlínu verði svarað. Yfirborðskennt yfirklór dugar ekki.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Helgi Áss Grétarsson