Best Verk Ragnars „The Visitors“ er það besta á öldinni að mati The Guardian. Nú má njóta þess á Akureyri.
Best Verk Ragnars „The Visitors“ er það besta á öldinni að mati The Guardian. Nú má njóta þess á Akureyri.
Sýning á verki Ragnars Kjartanssonar, „The Visitors“ eða „Gestirnir“, verður opnuð í dag kl. 15 í Listasafninu á Akureyri og um leið safnsýningin Ný og splunkuný þar sem má sjá nýleg verk úr safneign listasafnsins

Sýning á verki Ragnars Kjartanssonar, „The Visitors“ eða „Gestirnir“, verður opnuð í dag kl. 15 í Listasafninu á Akureyri og um leið safnsýningin Ný og splunkuný þar sem má sjá nýleg verk úr safneign listasafnsins. „The Visitors“ er eitt af þekktari verkum Ragnars og var fyrst sett upp í Migros-safninu í Zürich í Sviss árið 2012. Dagblaðið The Guardian valdi verkið sem það besta það sem af væri þessari öld og hefur það verið sýnt víða um lönd og vakið mikla hrifningu og lof. Það hefur þó aðeins einu sinni verið sýnt áður hér á landi, í galleríinu Kling & Bang árið 2013.

Verkinu er lýst sem óði vináttu við tónfall rómantískrar örvæntingar. Í því safnast saman hópur vina og tónlistarmanna í kjörlendi bóhemíunnar, í ljósaskiptunum, á hinum stórbrotna og hnignandi Rokeby Farm í Upstate New York, eins og segir í tilkynningu. „Staðurinn verður vettvangur þess sem Ragnar kallar femínískt, níhilískt gospellag: marglaga portrett af vinum listamannsins, könnun á möguleikum tónlistar í kvikmyndaforminu og dregur titil sinn af síðustu plötu ABBA, The Visitors, sem mörkuð var aðskilnaði og ósigri,“ segir þar, en tónlistarmennirnir eru Davíð Þór Jónsson, Gyða Valtýsdóttir, Kristín Anna Valtýsdóttir, Ólafur Jónsson, Þorvaldur Gröndal, Shahzad Ismaili, Ragnar Kjartansson og Kjartan Sveinsson. Lagið sem er flutt er eftir Ragnar og Davíð Þór og samið við textabrot úr myndbandsverkum og gjörningum Ásdísar Sifjar Gunnarsdóttur.

Á sýningunni Ný og splunkuný gefur að líta yfirlit yfir verk sem safninu hafa verið gefin á síðustu árum en hafa ekki verið sýnd, ásamt splunkunýjum verkum sem safnið hefur keypt. Sýningarstjóri þeirrar sýningar er Hlynur Hallsson.