Stóri-Núpur Minnismerki Helga Gíslasonar um sr. Valdimar, prest og skáld.
Stóri-Núpur Minnismerki Helga Gíslasonar um sr. Valdimar, prest og skáld. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Minnst verður við guðsþjónustu að Stóra-Núpi í Hreppum á morgun, sunnudag, að 1. febrúar sl. voru 175 ár liðin frá fæðingu sr. Valdimars Briem, sóknarprests þar og sálmaskálds. Þá er nú liðin öld síðan Valdimar var veitt nafnbót heiðursdoktors í guðfræði við HÍ

Minnst verður við guðsþjónustu að Stóra-Núpi í Hreppum á morgun, sunnudag, að 1. febrúar sl. voru 175 ár liðin frá fæðingu sr. Valdimars Briem, sóknarprests þar og sálmaskálds. Þá er nú liðin öld síðan Valdimar var veitt nafnbót heiðursdoktors í guðfræði við HÍ.

Af því tilefni efnir Stóra-Núpssókn til messu og málþings í samvinnu við Stofnun Sigurbjörns Einarssonar, Suðurprófastsdæmi og embætti vígslubiskups í Skálholtsbiskupsdæmi.

Dagskráin hefst með messu í Stóra-Núpskirkju kl. 13. Þar flytur sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson prédikun og fjallar um sr. Valdimar. Sá var fæddur norður í Eyjafirði, en kom á Suðurlandið strax á barnsaldri og festi þar rætur. Var eftir nám frá prestaskóla fyrst prestur í Hrepphólum en síðar að Stóra-Núpi. Við messuna flytur kirkjukór, undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur organista, sálma Valdimars, en segja má að þeir séu hryggjarstykkið í Sálmabókinni.

„Sálmar Valdimars í bókinni góðu eru alls 85 og hafa notið fágætrar hylli síðustu öldina eða svo. Trúarlegur boðskapur þeirra er blátær og talar svo oft og vísar beint inn í íslenskar aðstæður og náttúru,“ segir sr. Óskar.

Í framhaldi af messunni er dagskrá í félagsheimilinu Árnesi. Þar flytja erindi dr. Gunnlaugur A. Jónsson prófessor, Halla Guðmundsdóttir leikkona og sr. Sigfinnur Þorleifsson. Einnig flytur ávarp sr. Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup.