Ljósmyndir
Árni Sæberg
arni@mbl.is
Ekki er mikill burlesque-bragur á Margréti Erlu Maack þegar hún gengur inn á kaffihús í miðborginni á þessum miðsvetrarmorgni. Hún er kappklædd og kuldaleg í fasi enda enn ein ofstopalægðin í þann mund að skella á okkur af fullum þunga og veðurviðvaranir á víxl gular og appelsínugular.
Við slíkar aðstæður er ekki amalegt að geta látið hugann reika til útlanda og Margrét hefur að sönnu skemmtilega ferðasögu að segja. Enda færist hún öll í aukana komin inn í hlýjuna og búin að keyra í sig ferskan appelsínudjús og nýbakað smjördeigshorn. Ekki spillir fyrir að hafa einn ferðafélagann við borðið, Árna Sæberg ljósmyndara Morgunblaðsins, sem er höfundur myndanna sem fylgja greininni.
Margrét er búin að sýna og kenna burlesque hér heima um árabil og 2019 stóð hún í fyrsta skipti fyrir ferð fyrir burlesque-áhugafólk til New York sem er helsti suðupottur senunnar í heiminum. Ferðin lukkaðist vel og til stóð að gera fljótlega meira af slíku. Af því varð þó ekki að sinni vegna þess að fyrst varð Margrét ólétt og síðan skall á heimsfaraldur.
Um leið og heimurinn opnaðist á ný fóru nemendur Margrétar að hafa á orði hvort hún ætlaði ekki að efna til annarrar ferðar til New York og ekki þurfti að snúa upp á höndina á henni.
Allir standa saman
„New York finnst mér ósköp einfaldlega besta burlesque- og kabarettborg í heimi. Berlín var það fyrir seinna stríð en nasistarnir eyðilögðu senuna þar og hún hefur ekki alveg borið sitt barr síðan, fólk svolítið hrætt finnst mér ennþá,“ útskýrir Margrét. „New York-stíllinn er mjög húmorískur, eins og íslenska senan. Fólk má ekki taka sig of alvarlega í þessu. Evrópska senan er með meiri áherslu á fegurð og kynþokka og fjölbreytileikinn fyrir vikið ekki eins mikill. Það er synd. Ég á auðveldara með að stíga inn í sýningar í New York, þar sem vinarþelið er mikið og allir standa saman. Lána hverjir öðrum augnhár og brjóstateip. Ég elska fólk sem tekur lífinu létt en fíflagangi alvarlega.“
New York er borgin hennar Margrétar og áður en hún varð barnshafandi sýndi hún burlesque þar reglulega um árabil, og nú þegar barnið er orðið sjálfstæðara stefnir hún oftar þangað. „Fyrir vikið er ég orðin vel tengd og get boðið fólki upp á ferð sem það getur fengið mikið út úr,“ segir hún.
Sjö manns voru í ferðinni, sem farin var um miðjan nóvember, en núna í maí fer Margrét utan með 15 manna hóp í sömu erindagjörðum. Þá er hún þegar farin að leggja drög að ferð í nóvember á þessu ári. Allt voru þetta nemendur Margrétar nema Árni Sæberg sem hún segir að gaman hafi verið að hafa með enda það sem fyrir augu bar hreinasta veisla fyrir ljósmyndarann. „Árni er svona heiðursnemandi. Hefur mikið myndað fyrir okkur og á margar vinkonur sem hafa numið hjá mér. Þetta var mjög þéttur og samstíga hópur og við náðum að gera ótrúlega margt.“
Flogið var utan á miðvikudegi og hópurinn beið ekki boðanna. Strax fyrsta kvöldið skellti hann sér á stað sem kallast Nurse Bettie og sá þar sýningu sem GiGi nokkur Holliday stóð fyrir en hún er á topp tíu yfir bestu burlesque-skemmtikrafta í heiminum, að sögn Margrétar. „Samt er hún bara að skemmta á pínulitlum stað á miðvikudagskvöldi. Sýningin var allt í lagi og ágætisupphitun fyrir okkur.“
Fjöðruðu sig upp
Fimmtudagurinn var svo túrbódagurinn, að sögn Margrétar. Það er engin burlesque-ferð án heimsóknar í vefnaðarvöruverslun og að þessu sinni fengu ferðalangar svo sannarlega sitthvað fyrir sinn snúð í því sem að sjálfsögðu kallast Garment District í stórborginni. „Aðstoðarfararstjóri minn, dragdrottningin Gógó Starr, með tveimur errum, eins og Ringo, er mjög vel tengd inn í efnavöruna og fór utan tveimur dögum á undan okkur hinum til að skipuleggja þann hluta ferðarinnar. "
Sú veisla náði hámarki á stað sem heitir The Feather Place og sérhæfir sig, svo sem nafnið gefur til kynna, í fjöðrum. „Hann er algjört leyni, uppi á annarri hæð, enda vilja þær bara fá fólk sem veit hvað það er að gera. Við vorum eiginlega bara ein í búðinni og fengum frábæra þjónustu.“
– Og fríkaði fólk út þarna?
„Ó, boj! Heldur betur. Hann er ótrúlegur þessi textílheimur og það sem ekki er til í svona búðum! Ég bjó til heilt atriði fyrir sýninguna mína þarna. Þegar maður er sjálfur búinn að eyða of miklu á svona stað þá fylgist maður bara með hinum. Þetta er mikill lúxus.“
Hún hlær.
Til að jafna sig eftir efnisflippið fékk hópurinn sér „dumplings“, eða hálfmána eða smáhorn, eins og það kallast á íslensku. „Maður verður að gera það í New York,“ segir Margrét.
Stóð nakin á haus
Um kvöldið var svo sýning á hinum sögufræga stað Lady Mendl‘s Tea Salon. Lady Mendl var mikil félags- og samkvæmisvera og upp á sitt besta snemma á síðustu öld, frá 1910 og fram á þriðja áratuginn. Hún giftist milljónamæringnum Sir Charles Mendl af hagkvæmnisástæðum. Þau lifðu aldrei hefðbundnu hjónalífi enda var Lady Mendl lesbía og átti áratugum saman í ástarsambandi við konu að nafni Elisabeth Marbury. Báðar voru þær framakonur. Lady Mendl var ein af fyrstu innanhússarkitektunum í New York en Marbury fyrsti kvenkyns framleiðandinn á Broadway. Meðal skjólstæðinga hennar voru Oscar Wilde og George Bernard Shaw sem jafnframt voru tíðir gestir á Lady Mendl‘s Tea Salon.
„Þarna var alltaf partí á kvöldin, burlesque-kabarett-sýning, þar sem hápunkturinn var þegar Lady Mandl stóð sjálf á haus – nakin,“ segir Margrét. „Menningarelítan lét sig ekki vanta.“
Sú sem ræður ríkjum á Lady Mendl‘s Tea Salon í dag kallar sig Tansy og er þeim Margréti vel til vina. Bæði Margrét og Gógó Starr komu þar fram þetta kvöld. „Þetta er eins og að troða upp heima í stofu hjá einhverjum, mjög kósí stemning og alltaf fullt enda þótt aldrei sé auglýst. Það komast á bilinu 30-40 manns fyrir á kvöldi.“
Og enginn dettur þarna inn á gallabuxunum. „New York-búinn er alla jafna ekkert að dressa sig upp. Það er langt að fara heim og fólk skellir sér bara út að borða eða á sýningu eftir vinnu. Þessu er þveröfugt farið á Lady Mendl‘s. Fólk klæðir sig undantekningarlaust upp. Þetta er algjör tímavél og yndislegt fólk sem kemur á sýningarnar. Og ótrúlega töff.“
Fimm til sex manns koma fram á hverju kvöldi og segir Margrét andrúmsloftið mjög afslappað. „Hver kemur með sitt að borðinu og það er ekki fyrr en rétt fyrir sýningu að farið er að skipuleggja dagskrána. Vilt þú fara fyrst eða á ég að gera það? Þetta eru svona púsluspilssýningar og alveg dásamlegar. Þetta er allt það skemmtilegasta við að koma fram og ekkert af því leiðinlega.“
Tansy sér sjálf um að kynna atriðin og segir þess á milli söguna af Lady Mendl og lífi hennar. „Það er skemmtilegt ritúal í kringum þetta,“ segir Margrét.
Loftar um listina
Á föstudeginum stefndi hópurinn skónum, eftir góðan beyglumorgunverð á Kossar's, á Brooklyn Museum, þar sem Thierry Mugler-sýningin var skoðuð. „Sýningin var okkur öllum mikilll innblástur enda áhrif hans mikil í skemmtibransanum,“ segir Margrét en fyrir þá sem ekki þekkja til þá var Thierry Mugler franskur tískuhönnuður sem féll frá á síðasta ári.
Margt annað er að sjá í Brooklyn Museum, eins og til dæmis sýningu á plasti úr hafinu og tímabilaherbergin góðu, þar sem tíminn hefur verið frystur hér og þar. „Ég mæli frekar með Brooklyn Museum en MoMA; það loftar betur um listina þar.“
Þaðan lá leiðin í burlesque-tíma hjá Tansy, þar sem hún kenndi hópnum að koma fram í stofu en ekki á sviði. Að ýmsu er að hyggja í því sambandi og dívurnar lærðu margt gagnlegt.
Eftir dýrindis kvöldverð á Yucabar, sem er suður-amerískur tapasstaður, var haldið sem leið lá í „höll burlesquesins“ í New York, eins og Margrét orðar það, The Slipper Room. Þar er boðið upp á sýningar á hverju kvöldi og alltaf fullt út úr dyrum. Meðan á faraldrinum stóð var staðurinn notaður við tökur á sjónvarpsþættinum Marvelous Mrs. Maisel.
„James Habacker vinur minn hannaði og bjó staðinn til og við fengum að mæta snemma og skoða allt í krók og kring áður en sýningin byrjaði. Þetta er 160 manna staður sem maður verður að vita hvar er; það dettur enginn þarna inn af götunni. Þarna eru sýndir loftfimleikar, eldatriði, sirkusatriði, trúðamennska, burlesque og allt mögulegt og fram koma allir helstu skemmtikraftar bæjarins. Í horninu situr stundum Adriano Moraes, listabóhem, allt kvöldið og teiknar það sem fyrir augu ber.“
Stökk upp úr köku
Fræga fólkið leggur gjarnan leið sína á staðinn og Margrét hefur verið þar á sama tíma og Madonna, en náði ekki að skemmta Bowie, svo einhver séu nefnd. „Svo stukkum við Lady Gaga upp úr köku þarna 2007.“
– Lady Gaga?
„Já, hún byrjaði sem gógópía áður en hún sló í gegn sem söng- og leikkona.“
– Eruð þið enn í sambandi?
„Nei, hún var gógópía hjá gamla kærastanum mínum. Þegar ég hætti með honum hætti ég eiginlega með Lady Gaga líka.“
Hún hlær.
Margrét segir The Slipper Room algjört hreyfiafl í sínu lífi. „Ég hef eignast marga góða vini þarna og alla vega 50 manns hafa komið hingað heim til að sýna gegnum The Slipper Room og James. Sumir koma bara til að sýna og hanga með mér en aðrir setjast hér að; eins og besti sverðgleypir New York-borgar, Jellyboy. Í dag er hann giftur íslenskri konu og býr á Sogaveginum. Hann er ógeðslega góður, gleypir riffla og herðatré og hengir hluti á augun á sér.“
Sverðgleypir á Sogaveginum. Það er eitthvað!
Bandaríski burlesque-dansarinn, söngkonan og eldlistakonan Sage Sovereign á líka kærasta á Íslandi.
Bókaði sýningu
Þess má geta að ein úr íslenska hópnum, Silver Foxy, náði að bóka sýningu meðan á ferðinni stóð og tróð upp á stað sem heitir Dromedary í Brooklyn. „Ég fór að sjá hana og hún var geggjuð. Svona ferðir geta búið til allskonar sambönd og tækifæri. Það er líka gaman að sjá hvað íslenska burlesque-senan er langt komin og stendur vel að vígi í alþjóðlegum samanburði,“ segir Margrét.
Á laugardeginum var frjáls dagur og hópurinn naut lífsins í New York enda ýmislegt hægt að gera og vonlaust að láta sér leiðast. Sumir keyptu meiri vefnaðarvöru, aðrir skelltu sér í leikhús og þar fram eftir götunum. „Laugardagar eru geggjaðir í New York.“
Á sunnudagsmorgni, eins og gjarnan áður, tók Margrét strauið í átt að kryddbúðinni Kalustyan‘s en hana stofnaði leigubílstjóri frá Palestínu upp úr seinna stríði. Hann mun hafa byrjað með einn rekka en það vatt fljótt upp á sig enda kryddþörfin brýn í fjölþjóðlegu samfélagi eins og New York.
„Þetta er eins og Suðurver að stærð en bara krydd í öllum hillum. Ólafur Egill [Egilsson] frændi minn fór einu sinni að gráta þarna þegar hann áttaði sig á því að ekki væri meira pláss eftir í ferðatöskunni hans. Þetta er algjör ævintýraheimur; dreymi þig það þá er það til. Þarna er til dæmis heilt herbergi bara með paprikukryddi, annað með chili .. og piparveggurinn er ævintýralegur.“
Sannarlega búð fyrir lengra komna í kryddfræðunum. „Það eru frábærir afgreiðslumenn þarna, með fullt af hugmyndum. Síðan er líka gaman að gefa sig á tal við gestina og fá hugmyndir hjá þeim. Í hvað nota þeir þetta og hitt? New York-búinn er nefnilega hress, fari maður rétt að honum. Ég held að ég hafi eytt 600 dollurum þarna þegar ég kom fyrst. Hvað keyptir þú fyrir mikið?“ spyr hún og beinir orðum sínum að Árna Sæberg. „Ætli það hafi ekki verið um 300 dollarar,“ svarar hann að bragði. Kryddelskur, Árni.
Brjóst í andlitið
Á sunnudeginum, sem var brottfarardagur, náði hópurinn einni sýningu enn, á Duane Park, þar sem tónlistarflutningur er lifandi. „Við vorum á fremsta bekk og Árni fékk fullt af brjóstum í andlitið,“ segir Margrét sposk á svip. Þau hlæja bæði.
„Svo fengum við tvær freyðivínsflöskur á borðið hjá okkur frá skemmtikröftunum sjálfum. Þetta var ótrúlega flott sýning.“
Á þessari sýningu var lifandi tónlistarflutningur undir sýningunni sem gaf henni extra kikk. Margrét mun einmitt standa fyrir sýningu með lifandi tónlist 17. febrúar í Þjóðleikhúskjallaranum þar sem fönksveitin Drýslar leikur undir dillebosseríinu. Annars eru burlesque-sýningar þar öll föstudagskvöld fyrir forvitna.
Margrét segir hópinn hafa verið í skýjunum á leiðinni heim, andlega og líkamlega. „Þetta var ekki leiðinleg ferð og strax á öðrum degi spurði ein í hópnum hvort laust væri í maíferðina. Svarið var því miður nei. Mér finnst alltaf gaman að koma til New York og reyni að fara sem oftast. Ekki er heldur verra að leyfa öðrum að njóta með mér, eins og í þessum ferðum. Kannski má líta á mig sem einhvers konar sendiherra?“
Hún brosir.
Svo mörg voru þau orð. Við Moggamenn veitum því athygli að Margrét er létt í spori þegar hún hverfur á braut út í rokið og kuldann. Enda New York handan við hornið.
Hvað er burlesque?
Burlesque er, að sögn Margrétar, kynþokkafull kabarettskemmtun sem gengið hefur í endurnýjun lífdaga undanfarna áratugi. „Burlesque er lágmenningarskemmtiform, þar sem ódýrum húmor er oft blandað saman við glamúr. Í flestum tilfellum er um að ræða sólóatriði sem gengur út á að fækka fötum en einnig er blandað inn í sýningarnar hefðbundnum kabarett, sirkusbrögðum og dragi og í flestum tilfellum þarf ekki að skilja tungumálið til að ná atriðunum. Formið hentar ekki áhorfendum sem óttast undur mannslíkamans. Kvikmyndirnar og söngleikirnir Moulin Rouge, Chicago og Kabarett gerast í þessum heimi. Þekktasta burlesquedansmær heims er Dita Von Tease. Á Íslandi eru um sextíu manns virk í þessari vaxandi lágmenningarsenu sem inniheldur drag, burlesque og fullorðinssirkus,“ segir hún. Margrét sjálf og félagar standa fyrir föstum kvöldum á föstudagskvöldum í Þjóðleikhúskjallaranum til páska en drag- og burlesquesýningar fara fram til dæmis á Gauknum, Kiki og Húrra. Margrét kennir einnig burlesque bæði á hefðbundnum námskeiðum í Kramhúsinu og í gæsunum.