Aðalsteinn Á. Baldursson
Aðalsteinn Á. Baldursson
Stéttarfélögin Framsýn og Þingiðn í Norðurþingi hafa á undanförnum vikum átt í kjaraviðræðum við PCC á Bakka um framlengingu á sérkjarasamningi starfsmanna PCC og liggur kjarasamningur nú á borðinu, sem gert er ráð fyrir að verði undirritaður á mánudaginn

Stéttarfélögin Framsýn og Þingiðn í Norðurþingi hafa á undanförnum vikum átt í kjaraviðræðum við PCC á Bakka um framlengingu á sérkjarasamningi starfsmanna PCC og liggur kjarasamningur nú á borðinu, sem gert er ráð fyrir að verði undirritaður á mánudaginn. Aðalsteinn Á Baldursson, formaður Framsýnar, segir að samningurinn kveði á um sambærilegar hækkanir og í samningunum sem Starfsgreinasambandið og SA gerðu í desember með gildistíma til 31. janúar 2024. Um 140 manns starfa í verksmiðju PCC og mun samningurinn ná til stórs hluta þeirra, þ.e.a.s. iðnaðarmanna og framleiðslustarfsmanna hjá fyrirtækinu.

Stéttarfélögin hafa átt í nógu að snúast í kjaraviðræðum og við frágang sérkjarasamninga við fleiri að undanförnu. „Við höfum verið á fullu í viðræðum og það hefur bara gengið vel. Það er mikil vinna í gangi núna í viðræðum og við frágang kjarasamninga, bæði á vettvangi aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins og hjá Starfsgreinasambandinu,“ segir Aðalsteinn.

Framsýn hefur meðal annars nýlega í gegnum Starfsgreinasambandið gengið frá endurnýjun stofnanasamninga við Vatnajökulsþjóðgarð og við Vegagerðina fyrir hönd starfsmanna sem þar starfa. Þá er stéttarfélagið einnig þátttakandi í yfirstandandi viðræðum Starfsgreinasam­bandsins við Landsvirkjun um endurnýjun kjarasamnings fyrir hönd starfsfólks.

Auk þessa var í gær undirritaður samningur Framsýnar við eitt af fámennustu sveitarfélögum landsins, Tjörneshrepp. Aðalsteinn J. Halldórsson, oddviti Tjörneshrepps, og Aðalsteinn gengu þá frá samkomulagi um nýjan skammtímasamning fyrir starfsmenn, sem gildir frá 1. nóvember sl. til 31. janúar 2024. Tjörneshreppur veitti ekki Sambandi íslenskra sveitarfélaga samningsumboð fyrir hreppinn fyrir gerð seinustu samninga 2019 eins og önnur sveitarfélög höfðu gert, heldur gekk beint til viðræðna við Framsýn líkt og nú. Er samningurinn sem gerður var í gær framlenging á þeim samningi. omfr@mbl.is