Fyrirliði Glódís Perla Viggósdóttir tekur við af Söru Björk Gunnarsdóttur en þær féllust í faðma eftir tapið í Portúgal, síðasta landsleik Söru.
Fyrirliði Glódís Perla Viggósdóttir tekur við af Söru Björk Gunnarsdóttur en þær féllust í faðma eftir tapið í Portúgal, síðasta landsleik Söru. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir fjögurra mánaða hlé leikur kvennalandsliðið í fótbolta sína fyrstu leiki frá ósigrinum sára gegn Portúgal í umspilinu fyrr HM í október þegar það mætir Skotlandi, Wales og Filippseyjum á alþjóðlega mótinu Pinatar Cup á Spáni síðar í þessum mánuði

Landsliðið

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Eftir fjögurra mánaða hlé leikur kvennalandsliðið í fótbolta sína fyrstu leiki frá ósigrinum sára gegn Portúgal í umspilinu fyrr HM í október þegar það mætir Skotlandi, Wales og Filippseyjum á alþjóðlega mótinu Pinatar Cup á Spáni síðar í þessum mánuði.

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari tilkynnti í gær 23 manna hóp fyrir Spánarferðina og á honum eru fimm breytingar frá leiknum gegn Portúgal.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir verður með á ný en hún lék ekkert í haust vegna meiðsla. Hafrún Rakel Halldórsdóttir kemur inn í hópinn í fyrsta sinn síðan í október 2021 en hún missti af nær öllu síðasta tímabili vegna meiðsla. Karólína hefur leikið 22 landsleiki og Hafrún fjóra.

Þá koma markverðirnir Cecilía Rán Rúnarsdóttir og Telma Ívarsdóttir inn í hópinn á ný en þær meiddust báðar á æfingum á EM á Englandi síðasta sumar. Cecilía hefur leikið átta landsleiki og Telma einn.

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, framherji úr Þrótti, er nýliði í hópnum en hún er 19 ára gömul og hefur skorað 11 mörk í 24 leikjum fyrir yngri landslið Íslands.

Glódís er fyrirliði

Glódís Perla Viggósdóttir er nýr fyrirliði landsliðsins en Þorsteinn skýrði frá því í gær að hún tæki við af Söru Björk Gunnarsdóttur sem lagði landsliðsskóna á hilluna á dögunum. Þó Glódís sé aðeins 27 ára gömul er hún leikjahæst núverandi landsliðskvenna ásamt Dagnýju Brynjarsdóttur, en þær hafa báðar spilað 108 landsleiki.

Auk Söru Bjarkar eru það Ásdís Karen Halldórsdóttir, Jasmín Erla Ingadóttir og markverðirnir Íris Dögg Gunnarsdóttir og Auður Scheving sem detta úr úr hópnum frá leiknum gegn Portúgal.

Sif Atladóttir gefur ekki lengur kost á sér í landsliðið, eins og Sara, og þær Hallbera Guðný Gísladóttir og Elín Metta Jensen lögðu skóna á hilluna á síðasta ári, Hallbera eftir EM og Elín eftir tímabilið á Íslandi.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er sú þriðja leikjahæsta í núverandi hópi með 96 leiki og síðan koma Berglind Björg Þorvaldsdóttir (69) og Agla María Albertsdóttir (51).

Aðrar í hópnum eru Elísa Viðarsdóttir (49), Sandra Sigurðardóttir (48), Ingibjörg Sigurðardóttir (49), Svava Rós Guðmundsdóttir (42), Alexandra Jóhannsdóttir (29), Sveindís Jane Jónsdóttir (25), Guðrún Arnardóttir (22), Selma Sól Magnúsdóttir (21), Hlín Eiríksdóttir (20), Guðný Árnadóttir (19), Arna Sif Ásgrímsdóttir (12), Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir (11) og Amanda Andradóttir (9).

Dagný Brynjarsdóttir er markahæst núverandi landsliðskvenna með 37 mörk en hún er jöfn Hólmfríði Magnúsdóttir í 2.-3. sæti yfir markahæstu landsliðskonurnar frá upphafi. Methafinn, Margrét Lára Viðarsdóttir, skoraði 79 mörk.

Fjórtán leikmenn í hópnum leika erlendis sem atvinnumenn en hinar níu spila með íslenskum liðum.

Þjóðadeildin í haust

Leikirnir þrír á Spáni fara fram 15., 18. og 21. febrúar. Ísland er efst á styrkleikalista FIFA af þjóðunum fjórum, í 16. sæti. Skotar eru í 25. sæti, Wales er í 32. sæti en Filippseyjar, sem eru á leið á HM 2023 í sumar, eru í 53. sæti listans.

Fjórði leikur íslenska liðsins á árinu verður vináttulandsleikur gegn Sviss sem fram fer í Zürich 11. apríl og stefnt er að öðrum leik í sömu ferð. Eins er stefnt að tveimur vináttuleikjum í júlímánuði. Landsleikirnir á árinu verða því væntanlega þrettán talsins.

Íslenska liðið býr sig með þessum verkefnum undir mikilvæga leiki í haust en nú er búið að gjörbreyta mótafyrirkomulaginu. Ný Þjóðadeild UEFA hefur göngu sína í haust og þar er Ísland ein af sextán þjóðum sem leika í A-deildinni. Liðið leikur alla sex leiki sína í fjögurra liða riðli í september, október og nóvember.

Sex hörkuleikir

Þar verður um sex hörkuleiki að ræða. Dregið verður í riðla í apríl og ekki hefur verið formlega gefið út hvaða þjóðir skipa hverja deild en aðrar þjóðir í A-deild, miðað við heimslistann, yrðu Þýskaland, Svíþjóð, England, Frakkland, Spánn, Holland, Noregur, Ítalía, Danmörk, Austurríki, Belgía, Sviss, Portúgal, Írland og Skotland. Ísland er sem stendur í áttunda sæti Evrópuþjóða og gæti því verið í öðrum styrkleikaflokki af fjórum en það er ekki staðfest enn.

Í Þjóðadeildinni verður leikið um sæti á Ólympíuleikunum í París 2024 en árangur í keppninni mun jafnframt raða liðunum niður í riðla fyrir undankeppni EM 2025, sem verður öll leikin á árinu 2024.

Höf.: Víðir Sigurðsson