Upplifun Dragdrottningin Starína tekur þátt í heimilda- og upplifunarverki Evu Rúnar í Borgarleikhúsinu.
Upplifun Dragdrottningin Starína tekur þátt í heimilda- og upplifunarverki Evu Rúnar í Borgarleikhúsinu. — Ljósmynd/Leifur Wilberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Góða ferð inn í gömul sár nefnist nýtt heimildar- og upplifunarverk eftir Evu Rún Snorradóttur sem frumsýnt verður í dag, 4. febrúar, á Nýja sviði Borgarleikhússins. Eva Rún var annað af tveimur leikskáldum leikhússins í fyrra og af lýsingunni að…

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Góða ferð inn í gömul sár nefnist nýtt heimildar- og upplifunarverk eftir Evu Rún Snorradóttur sem frumsýnt verður í dag, 4. febrúar, á Nýja sviði Borgarleikhússins. Eva Rún var annað af tveimur leikskáldum leikhússins í fyrra og af lýsingunni að dæma er hér mjög svo óvenjulegt verk á ferð og athyglisvert. Eva Rún rannsakaði fyrir það HIV-faraldurinn, sem geisaði á níunda og tíunda áratug síðustu aldar, með viðtölum og heimildasöfnun og er áhorfandanum boðið í ljóðrænt en magnað ferðalag gegnum heimsfaraldur sem hefur verið sveipaður skömm og þaggaður niður, eins og því er lýst í tilkynningu. Fyrri hluti sýningarinnar er hljóðverk sem gestir eiga að hlusta á í einrúmi áður en haldið er í leikhúsið þar sem boðið verður til veislu, lífinu fagnað og leitað leiða til að græða sárin. Umgjörð sýningarinnar er í höndum Guðnýjar Hrundar Sigurðardóttur, Hallur Ingi Pétursson gerir leikmynd og Jón Örn Eiríksson sér um hljóðmynd.

Plágan var kveikjan

Eva Rún segist hafa fengið hugmyndina að verkinu þegar hún sá einn þátt heimildaþáttaraðarinnar Svona fólk á RÚV, þáttinn Pláguna sem fjallaði um alnæmisfaraldurinn. Í röðinni var fjallað um réttindabaráttu samkynhneigðra á Íslandi. „Þá fékk ég rosalega mikið sjokk yfir því hvað ég vissi lítið um alnæmisfaraldurinn,“ segir Eva Rún og að hún hafi verið drifin áfram af þeirri fáfræði. Hún segir þetta samfélagsáfall aldrei hafa verið gert upp almennilega og ekki heldur saga hennar fólks. „Ég er hinsegin kona, lesbía, og allt í einu upplifði ég bara svo skýrt eitthvert rof. Hvað á þetta að fyrirstilla? Við verðum að tala um þetta og fyrst og fremst þekkja þetta og hlusta. Mig langaði að lesa allt um þetta, tala við fólk og heyra allt,“ segir Eva Rún.

Í verkinu er sjónum beint að faraldrinum á Íslandi en Eva Rún segist líka hafa kynnt sér eins mikið og hægt hafi verið um faraldurinn víða um lönd, lesið erlendar bækur og horft á heimildarmyndir. Hún tók mörg viðtöl og er spurð að því hvaða fólk hún hafi talað við og hvaða viðmælendum hún hafi verið að leita að. „Í Plágunni eru rosalega flott viðtöl við marga sem létust og mig langaði að ná breiðri mynd af þessu, tala við fólk með ólíka vinkla. Þetta er ekki sagnfræði, þetta er listaverk, en mig langaði, út frá persónulegum og tilfinningalegum upplifunum, að fá mismunandi hliðar,“ svarar Eva Rún.

Í tilkynningu sem blaðamaður fékk var verkið kallað heimilda- og þátttökuleikhús en Eva Rún segist frekar vilja kalla það upplifunarverk. Leikhúsgestir mæta til veislu og upplifa hana en að taka þátt. Heildarupplifunin hefst þó kl. 18.30 heima hjá leikhúsgestum sem eiga að hlusta á hljóðverk og er það fyrsti hluti verksins eða upplifunarinnar. „Áhorfandinn er alltaf virkur, það er hvatt til virkni en enginn er að fylgjast með fólki heima hjá því,“ segir Eva Rún kímin. „Við erum líka að prófa þessa stund að hittast í leikhúsinu þegar við erum nýbúin að hlusta öll á það sama.“

Veislan sem bíður gesta er þannig að boðið er upp á drykki og hinsegin fólk búið að taka yfir Nýja sviðið í leikhúsinu. Engir leikarar eru því í verkinu heldur raunverulegar persónur, ef þannig mætti að orði komast, fólk sem Eva Rún fékk til að taka þátt í verkinu og ræða við gesti.

En hefur sambærilegt verk nokkurn tímann verið sett upp í Borgarleikhúsinu? Eva Rún segist hafa gert verk árið 2014 með framandverkaflokknum Kviss Búmm Bang og sýnt í Borgarleikhúsinu, verkið Flækjur sem hafi verið eins konar hæli í leikhúsinu og gestir fengið mjúkhenta meðferð við ótta. Góða ferð inn í gömul sár taki sinn tíma og ætlast til þess á leikhúsgestir fari í ferðalag sem hefjist heima hjá þeim. „Þetta er krefjandi efni,“ segir Eva Rún um hljóðverkið sem fólk þarf að hlusta á til að byrja með.

Titill verksins vekur bæði forvitni og athygli. Eva Rún er spurð að því hvernig hann hafi orðið til. „Maður er náttúrlega alltaf með meðvitund um að þetta er sár sem maður er að fjalla um og þarf að taka öll viðtöl og fjalla um þetta af mikilli nærgætni. Öllum sem ég hef talað við finnst erfitt að tala um þetta og svo er þetta ákveðið ferðalag, maður er að biðja áhorfandann um að koma með sér í ferðalag. Þannig að þetta kom bara til mín. Með því að hlusta fer maður með inn í sárin og það er heilandi, vona ég, það er alltaf gott að tala og gott þegar fólk hlustar og setur sig í spor annarra,“ segir Eva Rún. Blaðamaður bendir á að titillinn virki eins og þversögn, þ.e. varla sé hægt að óska einhverjum góðrar ferðar inn í gömul sár og segir hún það ekki hafa verið ætlunina. „Þversagnir eru bara mesti sannleikurinn í lífinu og bara gott að þú nefnir það,“ segir Eva Rún.

Prófanir og samtöl

Hinsegin fólkið sem tekur þátt í verkinu verður það sama á öllum sýningum, fólk sem Eva Rún segist afar þakklát fyrir að taka þátt í að skapa þetta rými. „Við erum að bjóða fólki inn í ákveðið partí þar sem er verið að opna dyrnar inn í hinsegin upplifanir,“ útskýrir hún og er í framhaldi spurð að því hvernig æfingar hafi farið fram. „Það eru bara prófanir og samtöl og prófanir aftur,“ útskýrir Eva Rún og að hópurinn hafi verið að spá og spekúlera og eiga í samskiptum í dágóðan tíma.

Hún er spurð að því hvort fólk sem óttast þátttökuleikhús þurfi að óttast þetta verk, þó svo það sé kallað upplifunarverk. „Nei, hér eru ekki áhorfendur og leikarar, það eru engir leikarar í sýningunni og þú verður aldrei tekinn upp á svið. Þú getur verið feimnasta manneskja í heimi og farið í gegnum þetta,“ svarar Eva Rún. Því þyki henni upplifunarleikhús réttari lýsing á sýningunni. Eva Rún bendir að lokum á að hægt sé að nálgast upplýsingar um alla þátttakendur verksins á heimasíðu Borgarleikhússins.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson